Nú ríður á

Gylfi, viðskiptaráðherra, sagði í gær að ekki ynnist tími fyrir þinglok til að samþykkja afnám bankaleyndar, svo flýta mætti rannsókn þeirra spillingarmála sem hafa tafist vegna leyndarhjúps bankanna.  Gylfi vildi meina að það gerði í sjálfu sér ekkert til að mál tefðust, bara ef menn gætu verið vissir um að þau yrðu rannsökuð einhvern tíma seinna.  Þetta sagði ráðherrann vegna þess að það eru svo fáir þingdagar eftir og svo mörg brýn mál sem þyrfti að afgreiða til bjargar heimilunum og atvinnulífinu.

Nú er komið fram eitt allra nauðsynlegasta frumvarpið til bjargar heimilunum, sem Atli Gíslason telur að muni fá flýtimeðferð í þinginu vegna þess að það geti alls ekki beðið fram yfir kosningar.  Það hefur heyrst að sumar eiginkonur hafi verið óánægðar með að kallarnir þeirra hafi farið á súlustað og frumvarp Atla og félaga verður að sjálfsögðu til bjargar við slíkar aðstæður. 

Ekki hefur komið upp eitt einasta mál um vændi, sem hægt hefur verið að tengja við súlustaðina, en hins vegar voru nýlega rekin tvö vændishús við aðal lögreglustöð Reykjavíkur, án þess að nokkur hafi heimtað að lögreglustöðinni yrði lokað.  Ekki er verið að mæla vændi bót hér, en það hefur viðgengist á Íslandi lengur en elstu menn muna og miklu lengur en súlustaðirnir.  Vændi mun ekki hverfa þó súlustöðum verði lokað, enda eins og áður sagði þrífst það um allar jarðir, annarsstaðar en þar.

Samkvæmt fréttum eru salir Alþingis nánast tómir þessa dagana, eins og þinmenn hafi ekki heyrt minnst á kreppuna í landinu og þeir fáu sem mæta virðast hafa hugann við allt annað en það sem raunverulega skiptir máli.

 


mbl.is Ísland ríður á vaðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuld í dag, skattur á morgun

Frambjóðendur til Alþingis keppast nú við að koma með hljómfargrar tillögur til að létta skuldabyrði heimilanna í landinu.  Margar fjalla um að gefa eftir mismikið af húsnæðisskuldum landsmanna, allt frá fjórum milljónum á haus og upp í 20% af öllum skuldum heimila og fyrirtækja.  Nýjasta tillagan er frá Lilju Mósesdóttur, frambjóðanda VG, og hljóðar hennar tillaga um að fella niður fjórar milljónir af hverju húsnæðisláni. 

Þetta gengur allt saman vel í fólk, en gengur ekki betur upp en það, að einhver þarf að borga.  Í sumum tillögunum felst að erlendir lánadrottnar bankanna borgi, en í tillögu Lilju felst að íslendingar borgi þetta sjálfir, eins og fram kemur í lokaorðum fréttarinnar: 

"Ég legg til að ríkið fjármagni 4 milljóna króna niðurfærslu á höfuðstól allra húsnæðislána landsmanna. Almenn aðgerð sem þessi er í anda norræna velferðarkerfisins, þar sem leitast er við að koma sem flestum til aðstoðar og síðan er skattkerfið notað til að ná fram jöfnuði," skrifar Lilja og bætir við að tillagan um 4 milljón króna niðurfærslu á skuldum heimilanna muni kosta ríkið um 300 milljarða sem fjármagna verður með m.a. aukinni skattheimtu þeirra sem meira hafa á milli handanna."

Alltaf hljómar það svo ósköp fallega að láta þá borga "sem meira hafa á milli handanna", en reynslan er sú að "breiðu bökin" sem greiða skattana eru sá sami almenningur og skuldar að meðaltali 30 milljónir í húsnæðislán.  Það á að aðstoða þá sem eru í vandræðum með að halda heimilum sínum, en ekki hinum sem geta greitt af lánum sínum.   

Auðvitað hljómar það vel í eyrum að fá gefnar fjórar milljónir, en svona tillögur eru hreint lýðskrum, enda verða þær ekki uppi á borðum eftir kosningar.


mbl.is Vill fella niður 4 milljónir af höfuðstól húsnæðislána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugur í upphæðum

Ef 2,35% hlutur í Baugi hefur verið metinn á 1,9 milljarða króna er auðvelt að reikna út að heildarverðmæti Baugs hefur verið áttahundruðogáttamilljarðarfimmhundruðogtíumilljónirsexhundruðþrjátíuogáttaþúsundtvöhundruðnítíuogsjö krónur (808.510.638.297).  Þetta er stór tala og verður ekki skrifuð nema með löngu orði.  Til þess að setja þessa upphæð í eitthvert samhengi eru skuldir íslenskra útgerðarfyrirtækja taldar vera um 450 milljarðar og á útgerðin í basli með að standa undir þeirri skuldabyrði.

Ekki er vitað til þess að Baugur hafi skapað nokkur einustu raunveruleg verðmæti, eins og sjávarútvegurinn gerir, heldur byggðist veldi Baugs aðallega á viðskiptavild, sem búin var til með kaupum og sölum á eigin fyrirtækjum til eigin fyrirtækja, með lánum á milli fyrirtækjanna og til eigendanna og alltsaman fjármagnað að lokum með lánum frá bankakerfinu.  Nafnið á þessum braskhring hefur verið sannkallað réttnefni, þ.e. Baugur.

Braskfléttan og upphæðirnar eru öllu venjulegu fólki óskiljanlegar.  Sennilega er snilldin á bak við þetta sú, að gera þetta svo óskiljanlegt að ómögulegt verði að fá nokkurn botn í þetta.

Sérstakur saksóknari kemur allavega til með að hafa nóga vinnu næsta áratuginn.


mbl.is 2,35% hlutur í Baugi metinn á 1,9 milljarða króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband