Arðsmóðgun

Eftir það sem á undan er gengið í efnahagslífi þjóðarinnar er vel hægt að taka undir það að útgreiðsla á arði til hluthafa ekki heppileg og allra síst þar sem launahækkunum var frestað til 1. júlí.  Fyrirtæki skilar ekki arði af sjálfu sér, heldur vegna samspils stjórnunar fyrirtækisins og góðs starfsfólks.  Ef ekki eru til peningar til að umbuna starfsfólkinu, er afar erfitt að réttlæta arðsgreiðslu til hluthafanna.

Það sem er þó ánægulegt við hagnað HB Granda er að hann byggist á framleiðslu raunverulegra verðmæta, en ekki eintómu matadorspili með verðbréfavafninga, sem ekkert er á bak við.

Góður hagnaður framleiðslufyrirtækjanna er grundvöllur launahækkana til starfsmanna.

Eigendur og starfsmenn eiga hvorir tveggja að njóta ávaxtanna.


mbl.is Arðgreiðsla móðgun við fiskvinnslufólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingstörf

Nú eru fáeinir fundardagar eftir þar til þingið fer í "kosningafrí" og enn er ekki búið að leggja fram öll frumvörp sem ríkisverkstjórinn Jóhanna, og vinnuflokkurinn segja að verði að ná í gegnum þingið fyrir kosningar.  Í morgun sagði hún að frumvarp til bjargar heimilunum yrði vonandi lagt fram í dag.  Mörg önnur frumvörp eru ennþá í meðförum þingnefnda og enginn skilur hvers vegna svona erfiðlega gengur að koma öllum málum fram, nema hefndarlögunum gegn Davíð Oddssyni.

Á sama tíma og allir flokkar raða listum sínum upp í gegnum prófkjör eða forvöl, eyðir þingið tímanum í að ræða frumvarp um breytingar á kosningalögunum, sem breyta myndi kosningunum í eitt allsherjar prófkjör.  Einnig er tíma eytt fram á nætur við umræður um breytingar á stjórnarskránni og í það frumvarp er skeytt ákvæði um að stofnað skuli stjórnlagaþing, sem á að hafa það eina hlutverk að breyta stjórnarskránni.  Á meðan að á þessari vitleysu stendur bíður almenningur eftir boðaðri aðstoð við atvinnulífið og heimilin.

Greinilega næst ekki nein sátt um þinglokin fyrr en rifjast upp fyrir ríkisverkstjóranum til hvers þessi ríkisstjórn var mynduð, a.m.k. miðað við yfirlýsingarnar við upphaf hennar.

Það tók mánuð að ná fram hefndum á Davíð Oddssyni og ríkisstjórnin hafði aldrei nema tvo mánuði til þeirra lagasetninga sem hún boðaði.

Er ekki kominn tími til að fara að forgangsraða?


mbl.is Ekki enn samkomulag um þingstörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skárra en von var á

Samkvæmt skýrslu seðlabankans um skuldastöðu heimilanna er staðan, sem betur fer, skárri en margur hefur haldið.  Um helmingur heimilanna hefur eiginfjárstöðu sem er jákvæð um 10 milljónir króna eða meira og 80% heimila greiða minna en 150 þúnund krónur af húsnæðislánum á mánuði.

Þessi samantekt bankans sýnir hve arfavitlaus tillaga framsóknarmanna um flata 20% niðurfellingu allra lána er, því flestir eru í góðum málum með sín lán, en hinsvegar þarf að koma þeim verst stöddu til aðstoðar með sértækum ráðum.  "Það kom á óvart að þrátt fyrir allt er mjög stór hluti heimila sem virðist ekki vara í neinum vandræðum, hvorki með eigið fé né að standa í skilum.  Það er auðvitað ánægjulegt þótt það dragi ekkert úr vanda þeirra sem eru í hinum hópunum," segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.

Aðeins 3% heimila eru með húsnæðislánin í erlendri mynt og 8% með blönduð lán, innlend og erlend.  Þetta er miklu minni hluti en af hefur verið látið og sýnir að menn ættu ekki alltaf að hlaupa eftir þeim sem hæst gala hverju sinni.

Líklega eru það ekki húsnæðislánin sem verst er við að eiga hjá fólki, heldur bílalánin, húsvagnalánin, sumarbústaðalánin o.s.frv.  Mikið af þeim lánum eru í erlendum myntum og markaðurinn hruninn, þannig að ekki er hægt að selja dýru og fínu leikföngin.

Það á auðvitað að hjálpa þeim sem eru í raunverulegum vandræðum með sín heimili, en ekki þeim sem skuldsettu sig upp fyrir haus í kapphlaupi við nágrannann um flottustu leikföngin.


mbl.is Fjölmargir standa vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. mars 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband