Karlagrobb

Jón Baldvin Hannibalsson tilkynnir nú að hann gefi kost á sér í forkosningu Smáflokkafylkingarinnar og áður hafði hann gefið út að hann myndi fara í formannsslag við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, ef hún dirfðist að gefa kost á sér áfram.  Fróðlegt verður að sjá hvernig stuðningsmenn Smáflokka- fylkingarinnar taka á þessu vandamáli.

Jón Baldvin hefur verið óþreytandi undanfarna mánuði í allskyns viðtölum að útlista fyrir þjóðinni hvers konar snillingur hann sé og síðan hann hætti á þingi hafi enginn með viti setið á þeirri samkomu.  Öll "góð" mál sem samþykkt voru hér áður fyrr voru hans verk og eftir að hann fór hefur þingið ekkert framkvæmt, nema skemmdarverk á hans snilldarhugverkum.  Hann treystir greinilega á gullfiskaminni almennings og sennilega réttilega.

Það verður ekki frjá Jóni Baldvini tekið, að leiðinlegra karlagrobb heyrist ekki frá nokkrum öðrum öldungi í þessu landi (og sennilega ekki öðrum löndum heldur). 


mbl.is Jón Baldvin tilkynnir framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umboðslaus Gylfi

Samkvæmt yfirlýsingu Viðskiptaráðuneytisins hefur ríkisstjórnin ekki tekið neina ákvörðun um að hætta við að stefna Bretum fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, þrátt fyrir yfirlýsingar Gylfa Magnússonar, starfandi viðskiptaráðherra, um annað í Breskum fjölmiðlum.

Þetta er allt hið einkennilegasta mál, fyrst gefur starfandi viðskiptaráðherra yfirlýsingar í erlendum fjölmiðlum og síðan dregur Viðskiptaráðuneytið allt saman til baka.  Eru embættismenn ráðuneytisins að setja ofaní við starfandi ráðherra með þessu, eða er hann sjálfur að draga ummæli til baka?  Það kemur ekki fram í yfirlýsingunni.

Enn og aftur opinberast klaufa- og vandræðagangur ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Engin stefnubreyting varðandi aðra möguleika málshöfðunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignaflutningar

Ármann Þorvaldsson segir að engir "óeðlilegir eignaflutningar" hafi átt sér stað frá Kapþing Singer & Friedlander til Íslands í aðdraganda bankahrunsins.  Ekki er líklegt að bankastjórinn myndi viðurkenna að um óeðlilega eignaflutninga hafi verið að ræða.  Myndi hann ekki kalla alla eignaflutninga milli banka  "eðlilega eignaflutninga", hvort sem upphæðin væri 400 millj. punda, 800 millj. punda, eða hvaða aðra upphæð sem væri?  Í yfirlýsingu hans kemur ekkert fram um að engir eignaflutningar til Íslands hafi verið að ræða, eingöngu að ekki hafi verið að ræða um "óeðlilega eignaflutninga". 

Úr því hann er byrjaður að gefa yfirlýsingar um fjármagnsflutninga, hlýtur hann að gefa nákvæmari skýringar á eignatilfærslum frá Kaupþing Singer & Friedlander í aðdraganda bankahrunsins, bæði til Íslands og ekki síður til annarra landa.  Voru einhverjir "eðlilegir eignaflutningar" t.d. til Tortola, Bahamaeyja, Jersey, Luxemburg eða annarra landa?

Eins og aðrir bankamenn reynir Ármann að læða því inn í yfirlýsinguna að hryðjuverkalöggjöfin hafi í raun ekkert með bankana að gera, heldur hafi þau í raun verið sett á Davíð Oddsson.  Það er aum skýring, en í ljósi hugarástands þjóðarinnar er líklegt að einhverjir trúi því, eins og öðru, sem á Davíð er klínt þessa dagana. 

Ármann hlýtur að birta aðra og nákvæmari yfirlýsingu fljótlega.  Annað væri ekki stórmannlegt.


mbl.is Engir óeðlilegir eignaflutningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorskastríðanna hefnt

Mikil hlýtur ógleði Steingríms J. Sigfússonar að vera þessa dagana, eftir að hann hefur þurft að éta ofaní sig og yfir sig stóryrðin og kjaftháttinn frá undangengnum mánuðum, bæði varðandi Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og deiluna við Breta vegna hryðjuverkalaganna. 

Eftir að vinstri grænir komust í ríkisstjórn eru þeir orðnir eins og umskiptingarnir í þjóðsögunum.  Þetta eru gjörsamlega óþekkjanlegir menn frá því sem áður var.  Nú eru spöruð stóryrðin og þeir koma fram í fjölmiðlum stroknir, sakleysislegir og blíðmálgir.  Reyndar nokkuð veiklulegir vegna ógleðinnar sem hrjáir þá eftir ofaníátið.

Hvernig stendur á því að bráðabirgðaríkisstjórn, sem fyrst og fremst var mynduð til að koma á brýnustu björgunaraðgerðum vegna efnahags atvinnulífs og heimila og undirbúa kosningar, skuli geta afgreitt svona stórmál, án nokkurrar umræðu?  Bretar virðast túlka yfirlýsingu Gylfa, bráðabirgðaráðherra svona:

"Í dálknum Alphaville í Financial Times segir, að með þessari niðurstöðu sé lokið einni hörðustu deilu Íslands og Bretlands frá því þorskastríðunum lauk á áttunda áratug síðustu aldar."

Getur bráðabirgðaráðherra, sem ekkert umboð hefur frá almenningi, afgreitt hörðustu deilu Íslands og Bretlands frá þorskastríðunum upp á sitt eindæmi?

Ef svo er hafa Bretar nú hefnt þorskastríðanna og hljóta að hlægja sig máttlausa yfir aumingjaskap Íslendinga nútímans.


mbl.is Hætt við málssókn gegn Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband