Áfangasigur hjá Vilhjálmi gegn Hrunadönsurunum.

Vilhjálmur Bjarnason, lektor og framkvæmdastjóri Félags fjárfesta, hefur verið duglegur að skurka í hrunbönkunum og stundum orðið að láta í minni pokann, en sigrað í öðrum málum.

Nú hefur hann unnið enn einn sigur á hrunbankanum Glitni, en Vilhjálmur hafði krafist þess, að fá afhent gögn vegna þeirrar ákvörðunar bankans, að lána Fons hf., félagi í eigu Pálma Haraldssonar útrásarbraskara, 24 milljarða króna, án tilhlýðilegra veða.

Bankinn neitaði að afhenda gögnin og bar við bankaleynd, en samkvæmt fréttinni komst dómstóllinn að þveröfugri niðurstöðu, eða eins og segir í fréttinni:  "Héraðsdómur segir í niðurstöðu sinni, að Fons sé gjaldþrota og erfitt sé að sjá hvaða hagsmuni það félag hafi af því að þessum upplýsingum sé haldið leyndum. Verði ekki séð að tilefni sé til af hálfu skilanefndar Glitnis að neita Vilhjálmi um aðgang að gögnunum, sem hann biður um."

Ekki er ólíklegt að skilanefndin áfrýji þessum dómi til Hæstaréttar, sem vonandi staðfestir hann.  Verði það niðurstaðan, mun það verða ákaflega stefnumarkandi dómur vegna ýmissa annarra svipaðra mála.

Ástæða er til að óska Vilhjálmi til hamingu með áfangasigurinn í þessu máli og hvetja hann til að halda áfram sínu góða starfi í baráttunni við Hrunadansarana.


mbl.is Glitni gert að afhenda gögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að standa í lappirnar

Ríkisstjórnarnefnan er komin að fótum fram og getur núorðið í hvorugan fótinn stigið, án þess að detta á afturendann.

Jóhanna forsætisráðherralíki, hélt eina af sínum varnarræðum fyrir Breta og Hollendinga í þinginu í morgun, við lok annarrarn umræðu um ánauðarskilmála kúgaranna vegna skulda Landsbankans, og reyndi þar að verja þá afstöðu þeirra, að mátulegt væri á Íslendinga, að þurfa að þræla í þeirra þágu a.m.k. næstu tvo áratugi.

Stjórnarandstaðan hefur á hetjulegan hátt reynt að berjast gegn þessari hlekkjun islenskra skattgreiðenda í þágu erlendra ríkja, en stjórnarþingmenn hafa skammast sín svo, fyrir þjónkun sína, að þeir láta ekki sjá sig í þingsölum og sumir hverjir farnir í frí frá þingstörfum, til þess að þurfa ekki að greiða atkvæði um að hneppa sína eigin þjóð í þrældóm.

Orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem hann lét falla við umræðuna, segja það sem segja þarf, en hann sagði m.a. þetta: 

" Aldrei myndi nokkur önnur Evrópuþjóð láta fara svona með sig eins og ríkisstjórnin er að leggja til að farið verði með okkur."

„Við eigum að standa í lappirnar í þessu máli og ekki sætta okkur við neina pólitíska afarkosti," bætti hann við.

Þessi orð lýsa pólitísku hugrekki og varnarvilja fyrir íslenska hagsmuni.

Ógæfa þjóðarinnar er, að stjórnarmeirihlutinn skuli vera gjörsamlega rúinn hvoru tveggja.


mbl.is Afar ólík sýn á Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband