Endanlega gengnir af göflunum

Í síðasta bloggi var fjallað um hringlandahátt ríkisstjórnarnefnunnar í nánast öllum málum, sem hún er að fást við og sannast hroðvirknin og vanhugsunin í frumvörpum hennar enn og aftur vegna svonefnds auðlegðarskatts, en samkvæmt upphaflegu frumvarpi var ógerningur að leggja hann á, svo lagfæringar þarf að gera á málinu, til þess að það verði framkvæmanlegt, eins og sést á Þessari frétt.

Nú er verið að hringla með staðgreiðsluskattafrumvarpið í þinginu og nýjasta ruglið sem þessu ólánsfólki í stjórnarmeirihlutanum hefur dottið í hug, er að tengja skattþrepin við launavísitölu.  Allir hljóta að sjá hvílíku skattabrjálæði þetta mun valda innan fárra ára, en nóg var skattahækkanabrjálæðið orðið fyrir.

Kaupmáttur launa hefur hrapað niður úr öllu valdi undanfarið ár og þegar eitthvað fer að sjá til sólar í efnahagsmálunum, mun öll áhersla verða á, að auka hann á ný, ekki síst hjá þeim, sem lægst hafa launin.  Þá mun skattbyrðin þyngjast svo óskaplega, að þyki fólki skattabrjálæðið nú vera mikið, þá er erfitt að segja, hvað kalla á þessa væntanlegu skattaklyfjar.

Ef til vill er þetta hugsað til þess, að halda kaupmættinum niðri til langs tíma, því enginn akkur verður af launahækkunum, ef þessi geðveikislega tillaga nær fram að ganga.

Eina bjargráð skattgreiðenda er að mótmæla þessu rugli kröftuglega og láti stjórnarmeirihlutinn sér ekki segjast, verður að taka fram potta og pönnur og láta glymja hátt og kröftuglega.

Ýmsu var hægt að eiga von frá þessum stjórnarmeirihluta, en nú virðist hann vera endanlega genginn af göflunum.


mbl.is Þrepin tengd við launavísitölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalaus hringlandaháttur

Ef það er eitthvað öðru fremur, sem einkennir sitjandi ríkisstjórnarnefnu, þá er það hringlandaháttur með aðgerðir í ríkisfjármálum og illa hugsuð og unnin lagafrumvörp.  Sama á við nánast allt sem frá henni kemur, hvort sem það varðar ríkisfjármál eða önnur verkefni sem ríkisstjórnir eiga að sinna.

Allir muna hringlið með fæðingarorlofið, hroðvirknina og óþjóðhollustuna í Icesave samningunum, sykurskattinn sem varð að vörugjaldi á ósykraðar vörur, en ekki allar sykraðar vörur, virðisaukaskattsfrumvarpið, sem nú er verið að breyta og svona mætti lengi telja.

Nýjasta hringlið er vegna tekjuskattsins, en búið var að leggja fram arfavitlausar tillögur um svokallaðann þrepaskiptan staðgreiðsluskatt, þó núverandi kerfi væri mjög þrepaskipt, en nú boðar fjármálajarðfræðingurinn, að gerðar verði lagfæringar á eyðileggingarhugmyndunum, vegna athugasemda utan úr bæ, væntanlega af blogginu, þar á meðal þessu.

Upphaf fréttarinnar segir afar mikið um hroðvirknina, sem einkennir öll verk þessarar getulausu stjórnarnefnu:  „Við munum reyna að gera vissar breytingar til að koma til móts við vel rökstudd sjónarmið sem sett hafa verið fram. Ég geri ráð fyrir því að þegar upp er staðið verði breytingarnar aðeins einfaldari,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um fyrirhugaðar skattabreytingar."

Hvernig í ósöpunum ætli að standi á því, að nánast hvert einasta mál, sem lagt er fram, skuli þurfa að endurskoða og lagfæra eftir að þau koma fram?  Er allt kerfið og starfsfólkið í kringum þessar ráðherranefnur algerlega vanhæft til að hugsa aðgerðirnar til enda?

Mottóið hjá þessu liði hlýtur að vera, að betra sé að hafa allt svo flókið, að það sé nánast óskiljanlegt.

Þá  halda þessir "snillingar" að fólki finnist þeir svo gáfaðir og miklir menn, sem lýðurinn skilji ekki.

Dæmisagan um Nýju fötin keisarans fjallaði einmitt um þetta.


mbl.is Breytingar á skattatillögunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einn skuldasnúningurinn

Ef það er eitthvað sem Jón Ásgeir Jóhannesson er virkilega góður í, þá er það að slá lán án þess að vera nokkursstaðar í ábyrgðum fyrir þeim og að komast undan því að greiða nokkurntíma af lánunum.

Nú um áramótin mun Rauðsól renna saman við 365 hf. og skuldir Rauðsólar yfirteknar af 365 hf., en til þessarra skulda var einmitt stofnað við kaup á 365 miðlum.

Ekki kæmi á óvart, þó fljótlega yrði stofnað nýtt fyrirtæki, sem yrði látið kaupa 365 miðla af 365 hf. og skuldirnar síðan skildar eftir í "gamla" félaginu og það síðan lýst gjaldþrota og lánadrottnarnir látnir taka skellinn.

Þetta yrði þá með sama sniði og þegar Rauðsól keypti, því þá voru fimm milljarða króna skuldir skildar eftir í "gamla félaginu" og það sett í gjaldþrot.

Nú er nýjasta félagið með um fimm milljarða skuldir, svo væntanlega er tími kominn til að taka einn sprett enn á skuldaflóttanum.

Þessir kappar eru langhlauparar en ekki spretthlauparar og hafa ótrúlegt úthald og endalaust traust stuðningsaðila, sem og dyggan aðdáendahóp áhorfenda. 

 

 


mbl.is Hlutabréf í 365 einskis virði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband