Úr einum vasa í annan

Viðskiptaráðherra boðar að Icesave skuld Landsbankans gæti lækkað um tugi milljarða króna og ríkissjóður þyrfti því að greiða minni upphæð til Breta og Hollendinga, en annars væri útlit fyrir.

Snilldarbragðið á bak við þessa lækkun um nokkra tugi milljarða er, að Seðlabankinn kaupi veð af Seðlabanka Luxemburgar fyrir 185 milljarða króna.  Þetta er enn eitt dæmið um þá snilld, sem felst í því að samþykkja ríkisábyrgðina, því skuldbindingin sem henni fylgir, lækkar í hvert sinn sem reiknimeisturnum ríkisstjórnarnefnunnar tekst að millifæra peninga bakdyramegin úr ríkissjóði til að lækka Icesave reikninginn.

Ekki verður annað séð, en að verið sé að færa úr einum vasa í annan. 

Báðir vasarnir eru reyndar götóttir, þannig að ekkert situr eftir í þeim.


mbl.is Icesave-skuldbindingar gætu lækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn smáaurabusiness

Dómstólar hafa nú, nánast samfellt í tíu ár, verið að fjalla um hin ýmsu mál, sem tengjast Gaumi, Baugi, Jóhannesi í Bónus, syni hans, dóttur, tengdadóttur og alls kyns félögum þeim tengdum, viðskiptum innbyrðis og í ótal hringi.

Öll eiga þessi mál það sammerkt að þau eru flókin, fjalla um gífurlegar upphæðir og verjendum málanna tekst ávallt að velta þeim og snúa í dómskerfinu árum saman, með þeim árangri að yfirleitt er aðeins dæmt í minni háttar öngum málanna, enda virðast dómarar hérlendis ekki botna upp eða niður í útrásarfjárglæfraviðskiptum.

Mál, sem nú er til meðferðar fyrir dómsstólum snýst um hvort eigendum Gaums takist að koma söluhagnaði af hlutabréfafærslum milli eigin félaga undan skattlagningu, en flækjan fólst í því, að reyna að lauma bréfunum inn í félag sem skráð er í einni skattaparadísinni.

Niðurlag fréttarinnar segir allt sem segja þarf, um hvernig útrásargarkarnir komu sér undan skattlagningu söluhagnaðar, eða eins og þar segir:  "Gaumur hélt því fram að dótturfélag þess, Gaumur Holding AS, hefði í raun verið eigandi hlutabréfanna í Arcadia þegar þau voru lögð inn í A Holding. Héraðsdómur segir hins vegar, að gögn málsins sýni með fullnægjandi hætti að Gaumur hafi verið kaupandi hlutabréfanna í Arcadia en að hugmyndir hafi komið fram þegar liðið var á árið 2001 að það yrði skattalega hagstæðara að Gaumur Holding væri talinn eiga  hlutabréfin þannig að ekki kæmi til skattgreiðslna á Íslandi þegar þau yrðu lögð inn í A Holding. Staðfesti dómurinn því, að forsendur ákvörðunar ríkisskattstjóra hefðu verið réttmætar."

Þessar tilfæringar eru örugglega aðeins smá sýnishorn af tiltölulega einföldum brellum, sem notaðar voru á gullaldarárum útrásarinnar, enda fer ekki miklum sögum af skattgreiðslum þessara mógúla hérlendis.

Þessir braskarar stunduðu heldur engann smáaurabusiness, enda hafa þeir tapað hátt í eittþúsund milljörðum króna, án þess að það virðist hafa raskað ró þeirra mikið.


mbl.is Fallist á kröfu Gaums að hluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svandís í bulllosun

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherranefna, fer mikinn í Kaupmannahöfn og bullar þar algerlega kvótalaust, að því er virðist, og mengar umhverfi sitt þar með ótrúlega merkinarlausu þvaðri um forystuhlutverk sitt, ættjarðarinnar og kvenna við björgun andrúmsloftsins.

Margar misgáfulegar perlurnar hrukku þar af hennar vörum, samkvæmt fréttinni, t.d.  "Hún sagði að í samvinnu við ESB myndi Ísland vinna að markmiði um að minnka losun um allt að 30% til 2020, miðað við 1990, að því gefnu að metnaðarfullt alþjóðlegt samkomulag í loftslagsmálum náist."

Annað gullkorn var þetta:  "Umhverfisráðherra sagði að Ísland stefndi að því að verða loftslagsvænt ríki. Nú þegar sæju endurnýjanlegir orkugjafar Íslendingum að fullu fyrir rafmagni og hita og stefnt væri að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis fyrir bíla og skip."

Af mörgum gullmolunum var þessi kannski verðmætastur:  " Virkja þyrfti konur á öllum sviðum ákvarðanatöku og aðgerða. Jafnrétti kynjanna í þessu samhengi væri ekki aðeins spurning um réttlæti og sanngirni, heldur væri það nauðsynlegt til að ná árangri."

Af mörgu fleiru væri að taka í þessu slagorða- og áróðursþvaðri ráðherranefnunnar, en framangreint látið nægja, til að sýna staglið og innistæðulaust orðagjálfur, sem ekkert er á bak við.

Ef setja þarf kvóta á eitthvað, þá er það bullið í íslenskum ráðherranefnum.

 


mbl.is Ísland minnki losun um 30%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband