Batnandi kjör eru eitur í beinum VG

Hækkun á tekjuskatti, fjármagnstekjuskatti, bensín- áfengis- og tóbaksgjaldi, virðisaukaskatti, sykurskatti, nýr eignarskattur, stóriðjuskattur, kolefnisskattur, rafmagnsskattur, heitavatnsskattur, hækkun þjónustugjalda hjá því opinbera og allir aðrir skattar og gjöld, sem vinstri menn geta látið sér detta í hug að hækka, eða finna upp, er allt sagt vera gert í nafni jöfnuðar og réttlætis. 

Með því að tönglast á jöfnuði og réttlæti, er reynt að afla fylgis við skattabrjálæðið, því auðvelt er að fá fólk til að samþykkja að láta "breiðu bökin" borga meiri skatta, svo framarlega sem menn halda að þeir sleppi sjálfir.

Nánast allir þeir skattar og gjöld, sem skattabrjálæðisstjórnin fyrirhugar að hækka, lenda alls ekki á "breiðu bökunum" heldur öllum almenningi, sem alls ekki er í stakk búinn til þess að taka þessar hækkanir á sig, eins og ástandið er í þjóðfélaginu.

Nú réttlætir fjármálajarðfræðingurinn niðurfellingu sjómannaafstáttarins með því að kjör sjómanna hafi batnað og því sé nú lag til að afnema þessa 55 ára viðurkenningu á því, að fjarvistir frá heimilum og takmörkuð afnot af þeim gæðum, sem landkrabbar njóta, ásamt framlagi sjómanna til þjóðarbúsins, sé einhvers metin.

Batnandi kjör eru eitur í beinum vinstri manna og allur bati skal hátt skattlagður í anda jafnréttis og jöfnuðar. 


mbl.is Sjómenn búa við betri kjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturhvarf til fortíðar

Á árum áður voru hjón samsköttuð og í mörg ár var helsta baráttumál feminista og annarra baráttusamtaka fyrir kvenréttindum, að hver einstaklingur skyldi skattlagður sérstaklega og konur vildu fá skattálagningu miðað við sínar eigin tekjur, án þess að þeim væri blandað saman við tekjur makans.

Þetta náðist fram að lokum og skattkerfið allt var einfaldað með upptöku staðgreiðslukerfisins, sem var réttlátt, sanngjarnt, gegnsætt og auðskilið kerfi, sem leiddi til þess að fólk nánast hætti að fá bakreikninga vegna skatta, eins og algengt var áður en staðgreiðslukerfið var tekið upp.

Nú boðar sú skattaóða ríkisstjórn, sem nú er við völd, eyðileggingu á staðgreiðslukerfinu, með upptöku þrepaskipts skatts, sem er nógu flókinn út af fyrir sig og verður illskiljanlegur öllum venjulegum skattgreiðendum, sem munu eiga mun verr með að gera sér fyrirfram grein fyrir þeim sköttum, sem á þá verða lagðir.

Ekki bætir úr, að nú á að fara að taka aftur upp samsköttun hjóna og þá með svo flóknum reglum, að skattkerfið verður alger ófreskja, sem jafnvel mun flækjast fyrir skattasérfræðingum að skilja.

Gott dæmi um þetta er þessi klausa úr skattafrumvarpinu:  "Sé tekjuskattsstofn annars samskattaðs aðila hærri en 7.800.000 kr. skal það sem umfram er skattlagt með 27% skatthlutfalli allt að helmingi þeirrar fjárhæðar sem tekjuskattsstofn þess tekjulægri er undir 7.800.000 kr., þó reiknast 27% skatthlutfall aldrei af hærri fjárhæð en 2.700.000 kr. við þessar aðstæður."

Þó kerfið verði strax illskiljanlegt, skal því spáð hér og nú, að innan örfárra ára verði skattkerfið orðið svo flókið, að það verði orðið baráttumál allra skattgreiðenda, að einfalt staðgreiðslukerfi verði tekið upp aftur. 

Enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.


mbl.is Tekið tillit til tekna maka í hátekjuskatti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattleggjum súrefnið, það er stöðugur tekjustofn

Skattabrjálaða ríkisstjórnin hefur nú boðað, að sjómannaafsláttur skuli felldur niður í áföngum og réttlætir það með því, að ekki sé sanngjarnt að ein stétt njóti meiri skattfríðinda, en önnur, enda sé sjómannaafslátturinn í raun ekkert annað en launauppbót til sjómanna frá ríkinu.

Sjómannaafslátturinn hefur verið við lýði í um það bil fimmtíu og fimm ár og var ekki fyrst og fremst hugsaður sem launauppbót, heldur var ríkið að koma til móts við sjómenn vegna langrar og erfiðrar fjarveru frá fjölskyldum sínum og þeirri þjónustu sem ríkið veitir landkröbbunum, en sjómenn fara á mis við ýmsa þjónustu, sem er niðurgreidd af ríkinu, en hinir njóta til fulls.

En þar sem þetta er réttlætt með því, að ein stétt skuli ekki njóta fríðinda umfram aðrar, ættu þingmenn að líta sér nær og skattleggja þær sextíu þúsund krónur, sem þeir fá greiddar skattfrjálsar í hverjum mánuði og eru sagðar eiga að koma á móti ýmsum útlögðum kostnaði þeirra.  Sanngjarnt og eðlilegt hlýtur að vera, að þeir greiði fullan skatt af þessari upphæð, a.m.k. þeim hluta, sem þeir geta ekki framvísað kostnaðarreikningum fyrir.

Í fréttinni kemur einnig fram, að nú skal skattleggja rafmagnið og heita vatnið, sem almenningur notar til að lýsa upp heimili sín og halda þeim heitum yfir kaldasta árstímann.

Þá er nánast búið að skattleggja allar lífsnauðsynjar, aðrar en súrefnið sem fólk andar að sér algerlega ókeypis.  Það er hlýtur að vera óþolandi fyrir skattaóða ríkisstjórn, að vita af slíkum tekjustofni óskattlögðum.

Það er einfalt að reikna út meðalársnotkun súrefnis á mann og skattleggja samkvæmt því.

 


mbl.is Boðar afnám sjómannaafsláttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband