Viðræðurnar voru gagnlegar

Alkunna er,  að þegar fundir stjórnmálamanna, ekki síst í milliríkjasamskiptum, skila engum niðurstöðum, er jafnan sagt að fundirnir hafi verið ganlegir og viðræðum verði haldið áfram, því brýnt sé að leysa viðkomandi vandamál og vonandi muni nást niðurstaða innan skamms.  Þegar þetta orðalag er notað, er venjulega hægt að reiða sig á, að ekkert hafi þokast með málin og þau í jafnmiklum hnút og áður, ef ekki verri.

Af þessum sökum segir Steingrímur J. að fundirnir með fjármálaráðherrum Bretlands og Hollands um helgina hafi verið gagnlegir, sem segir í raun ekkert annað en það, að ekkert hafi þokast með Icesave málið og þrælahaldararnir hafi ekki lagt frá sér svipurnar, líklega frekar látið glitta í gaddasvipur, sem þeir hafi hótað að beita á íslensku þjóðina fljótlega, verði ekki bakkað frá fyrirvörum Alþingis vegna Icesave skulda Landsbankans.

Össur Skarphéðinsson, grínari, átti fundi í síðustu viku með utanríkisráðherrum nýlendulandanna og voru þeir fundir ákaflega gagnlegir, að sögn Össurar, en skiluðu auðvitað engum árangri, öðrum en þeim, að nauðsynlegt væri að fá botn í þessa deilu sem fyrst.

Steingrímur J. á fund með æðsta handrukkara AGS á morgun og ef sá fundur verður eingöngu gagnlegur, en skili engri niðurstöðu, er ríkisstjórnin komin í pattstöðu með málið og verður að fara frá völdum.

Ofan á fjármálakreppuna kemur væntanlega stjórnarkreppa, sem verður þá helsta niðurstaða búsáhaldabyltingarinnar.


mbl.is Steingrímur J.: Gagnlegur fundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur stillti ríkisstjórninni upp við vegg

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, segir að Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, hafi stillt sér upp við vegg, vegna andstöðu hans við fyrirhugaðar breytingar á fyrirvörum Alþingis vegna samningsins um Icesave skuldir einkabanka. 

Þetta er auðvitað rétt, en vopnið snerist í höndum Jóhönnu, því með því að bakka ekki frá skoðunum sínum og segja sig heldur úr ríkisstjórninni, stillti Ögmundur ríkisstjórninni upp við vegg og hefur nú líf hennar í höndum sér, ásamt fylgismönnum sínum innan Vinstri grænna.

Ögmundararmur VG er farinn að brýna kutana, eins og sést á harði afstöðu Guðfríðar Lilju, vegna afsagnar Ögmundar og yfirlýsingu þeirra og fleiri vinstri grænna um, að Alþingi eigi og muni hafa síðasta orðið um allar breytingar á fyrirvörunum.

Greiði þessir þingmenn VG atkvæði á móti boðuðum breytingum á fyrirvörum Alþingis, mun ríkisstjórnin verða að segja af sér og um leið myndu vinstri grænir væntanlega klofna í tvo flokka, flokk Ögmundar og flokk Steingríms J. og óvíst hvor flokkurinn yrði stærri.

Því miður hefur ósamkomulag stjórnarflokkanna í nánast öllum málum orðið til þess að árið sem er að líða hefur ekki gagnast neitt í baráttunni við kreppuna, heldur þvert á móti orðið til þess að hún verður lengri og dýpri, en hún hefði þurft að verða.

Til hagsbóta fyrir þjóðina, má fara að vonast eftir því, að ríkisstjórnin fari frá á næstu vikum.


mbl.is Ögmundur: Var stillt upp við vegg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugsmálið fyrsta hræðir

Þorvaldur Gylfason, prófessor, spáir því að ekki muni allir stórlaxarnir, sem tengjast íslenska fjármálahruninu sleppa að þessu sinni, án þess að taka fram í hvaða annað skipti hann telur þá hafa sloppið.  Líklega er hann að vísa til Baugsmálsins fyrsta, sem rekið var fyrir dómstólum árum saman, án þess að ákærur næðust fram, nema í nokkrum smáöngum málsins.

Sækjandinn sat löngum einn í dómssalnum á móti her dýrustu lögfræðinga og endurskoðenda landsins, sem tókst að snúa öllum hlutum sakborningum í hag og tefja og toga alla málsmeðferð, svo árum skipti.  Sennilega hafði saksóknarinn ekki nógu mörgum og góðum rannsakendum til að hafa við lögfræðinga- og sérfræðingastóði Baugsmanna, a.m.k. var sýknað í mörgum atriðum, sem allir sem tengjast viðskiptum voru vissir um að myndu leiða til sakfellingar.

Ekki má heldur gleyma andrúmsloftinu sem ríkti í þjóðfélaginu, en almenningsálitið fór gjörsamlega af hjörunum í afstöðunni með Baugsliðinu og gegn dómsvaldinu, lögreglunni og ríkisstjórninni, sem sérstaklega var ásökuð um pólitískar ofsóknir gegn blásaklausum vinum alþýðunnar.

Vegna þessarar reynslu dómskerfisins af erfiðum hvítflibbabrotum, má gera ráð fyrir að rannsókn á málum tengdum fjármálahruninu verði erfið og muni taka mörg ár.

Sporin hræða.


mbl.is Stórlaxarnir munu ekki allir sleppa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband