Hagar er orðið síbrotafélag

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest úrskurð Samkeppniseftirlitsins um að Hagar skuli greiða 15 milljóna króna sekt, vegna brota á samkeppnislögum.  Brotið fólst í því, að Hagar ætluðu að ná undir sig þrotabúi BT verslananna fyrir lítið sem ekkert verð og sameinaði fyrirtækið Högum, án þess að tilkynna það og sækja um leyfi fyrir samrunanum til Samkeppniseftirlitsins.  Skömmu síðar var samruninn dæmdur ólöglegur af samkeppnisástæðum og þá hættu Hagar við kaupin á BT, enda ekki eins gróðavænlegt að halda þeim rekstri aðskildum frá drottnunarfélaginu Högum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem Hagar fá dóm fyrir brot á samkeppnislögum og er þess skemmst að minnast að félagið fékk 315 milljóna króna sekt á árinu 2008 fyrir að misnota markaðráðandi stöðu sína í tilraun til að brjóta Krónuna á bak aftur, enda hafa Bónusfeðgar aldrei þolað neina samkeppni og hafa yfirleitt komist upp með að drepa af sér alla samkeppnisaðila með bellibrögðum.

Á máli lögfræðinnar myndi þetta kallast staðfastur brotavilji.

Þegar sýndur er staðfastur brotavilji, ætti það að kalla á hörð varnarviðbrögð.

Uppskipti á Högum er eina leiðin til að koma á eðlilegri samkeppni á smásölumarkaði.


mbl.is Hagar og Sena brutu samkeppnislög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töf rannsóknarskýrslu afsakanleg

Töf á skilum skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er skiljanleg í ljósi þess, sem fram kom á fundi nefndarinnar í dag, en þar fór nefndin yfir starf sitt og þar kom m.a. fram að rætt hefði verið við yfir 300 manns og formlegar skýrslur af meira en 100 einstaklingum og enn á eftir að ræða við fleiri.

Allir geta séð, að það er óhemju mikil vinna, að koma saman skýrslu um þetta yfirgripsmikla mál, þannig að allur sannleikur komi í ljós og unnt verði að meta ábyrgð hvers og eins, þeirra sem tengjast bankahruninu á einhvern hátt.  Treysta verður því, að lagt verði mat á hvaða áhrif hver hafði á atburðarásina, svo sem ríkisstjórn, seðlabanki, bankaráð, bankastjórar og eigendur bankanna, svo einhverjir séu nefndir.

Margir hafa talið, að nefndin ætti að minnsta kosti að skila áfangaskýrslu þann 1. nóvember, en nefndin svarar því á eftirfarandi hátt:  "Meðal þess sem var skoðað var að skila bráðabirgðaskýrslu 1. nóvember en það var blásið af, m.a. vegna þess hversu tengd málin eru og sömu leikendur í þeim flestum."

Þetta er rökrétt afstaða nefndarinnar, í því ljósi, að sumar niðurstöður nefndarinnar fara væntanlega í frekari rannsókn hjá Fjármálaeftirlitinu og/eða Sérstökum saksóknara.

Betra er að sýna örlitla þolinmæði, en að eitthvað verði órannsakað, eða illa skoðað.


mbl.is Rætt við yfir 300 manns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknarskýrslan verði öllum aðgengileg

Störf Rannsóknarsnefndar Alþingis hafa reynst mun umfangsmeiri, en í fyrstu var talið og því þarf að framlengja frest hennar til að skila skýrslu sinni til 1. febrúar 2010.  Þetta hlýtur að benda til þess að enginn asi sé á störfum nefndarinnar og vandað sé til verka og er það auðvitað vel og þess virði að bíða þrem mánuðum lengur en áætlað var.

Samþykkja þarf ný lög um nefndina, til þess að unnt sé að framlengja störf hennar og mun það í undirbúningi hjá Alþingi, en það vekur athygli, að þingið skuli þurfa að skipa sérstaka þingmannanefnd, til þess að komast að niðurstöðu um hvernig Alþingi skuli fjalla um skýrsluna, þegar þar að kemur.

Af því tilefni er haft eftir forseta þingsins:  "Ásta Ragnheiður sagði, að á vettvangi forsætisnefndar og formanna þingflokkanna hefði verið fjallað um hvernig standa á að þinglegri meðferð á skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Samstaða sé um mikilvægi þess að sá farvegur verði markaður fyrir fram áður en skýrslan verður gerð opinber."

Ekki þarf síður að marka stefnu um hvernig skýrslan verður birt almenningi, því ekki verður þolað að skýrslan í heild, eða hlutar hennar verði meðhöndluð sem leyniplagg, sem ekki megi gera opinbert.

Skýlaus krafa er að hvert einasta atriði, sem nefndin verður áskynja um, verði opinberað.

Um annað verður enginn friður í þjóðfélaginu.


mbl.is Rannsóknarskýrslu seinkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bónus gefur engum neitt

Það hefur verið vitað í a.m.k. fimmtán ár, að vegna kúgunar Bónuss á birgjum, hefur vöruverð hækkað óeðlilega mikið í landinu.  Stafar þetta af því, að Bónus gerir þá kröfu til birgja að fá vörur til sín á að minnsta kosti 20 - 25% lægra verði en aðrar verslanir og til að mæta því, hækka birgjarnir vöruverð til allra annarra sem því nemur.  Þar sem Bónusveldið hefur 50 - 60% markaðshlutdeild á matvörumarkaði, þarf að hækka vöruverðið til allra hinna, svo hægt sé að standa undir afsláttunum til Bónuss.

Bónus líður engum að selja vörur á lægra verði og því hamlar þetta allri samkeppni, þar sem aðrir kaupmenn þurfa sína álagningu til þess að standa undir rekstri og Bónus getur alltaf verið lægri, án þess að slá af sinni álagningu.  Fólk heldur að Bónus stuðli að lægra vöruverði með lágri álagningu, en það er alger misskilningur, þar sem verslunin gefur ekki eftir eina krónu af sinni álagningu, heldur nær niður verði til sín, með því að pína birgjana til að hækka það til annarra.

Þetta er Jón Gerald Sullenberger að upplifa núna og er að komast að því að Bónusveldið heldur öllu varðandi verslun og viðskipti á smásölumarkaði í heljargreipum.  Margir birgjar hafa farið flatt á því að lenda upp á kant við þá háu herra, sem stjórna Bónusveldinu.

Þessu verður að breyta og það verður ekki gert, nema með því að jafna samkeppnismöguleikana, t.d. með banni á verðmismunun birgja til verslana.


mbl.is Alvarlegt fyrir nýsköpun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórglæparannsókn á útrásarfyrirtæki

Fyrrum stjórnendur eins af þeim fyrirtækjum sem kom við sögu á útrásarglæpaárunum eru nú til rannsóknar hjá öllum helstu glæparannsóknastofnunum Bretlands, þar á meðal hjá Soca, sem venjulega rannsakar alvarlega skipulagða glæpastarfsemi, svo sem fíkniefnasmygl eða peningaþvætti. 

Áður hafði komið fram að breska samkeppniseftirlitið og efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office, (SFO) væru að rannsaka hvort fyrirtækin JJB og Sports Direct hefðu átt með sér ólöglegt verðsamráð. 

Þetta vekur upp spurningar um, hvort ekki sé verið að rannsaka svipaða hluti hjá fleiri fyrirtækjum og stjórnendum, sem komu við sögu í öðrum raðskuldafyrirtækjum, sem útrásarmógúlar yfirtóku og flæktu í raðskuldavefi sína á liðnum árum.


mbl.is JJB Sports í rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband