Færsluflokkur: Bloggar
16.8.2011 | 20:06
Útreikningar óskast
Hagsmunasamtök heimilanna hafa skotið því til úrskurðar Umboðsmanns Alþingis hvort ólöglega hafi verið staðið að útreikningi verðbóta á lán frá því að verðtrygging var tekin upp árið 1976.
Röksemd fyrir kvörtuninni kemur fram í þessari málsgrein fréttarinnar: "Andrea J. Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, sagði í viðtali við RÚV að ekki væri heimild í lögum til að verðbæta höfuðstól lána. Eingöngu væri heimild til að verðbæta afborganir, þ.e. greiðslur. Ekki væri heldur heimild til þess í núgildandi lögum að bæta verðbótum ofan á höfuðstólinn."
Þar sem ekki verður séð í fljótu bragði hvernig það breytir upphæð afborgunar, hvort reiknaðar séu verðbætur á höfuðstólinn áður en afborgun er reiknuð, eða hvort afborgunin er fyrst reiknuð út frá upphaflegum höfuðstól og síðan verðbætt, væri upplýsandi að einhver reikningsglöggur maður sýndi hvernig mismunur gæti myndast eftir reikningsaðferðinni.
![]() |
Umboðsmaður kannar útreikninga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
16.8.2011 | 16:22
Er meiri kreppa í evrulöndunum en á Íslandi?
Í þeirri miklu kreppu sem hrjáir íslenskt efnahagslíf um þessar mundir er þó spáð 2% hagvexti á árinu 2011, hvort sem það svo gengur eftir eða ekki. Nýjar tölur frá Evrópu sýna að hagvöxtur evrulandanna hefur aðeins verið 0,2% á öðrum ársfjórðungi þessa árs.
Það sem sérstaka athygli vekur í fréttinni er ekki síst þetta: "Endurspeglar þetta nýjar tölur frá tveimur stærstu hagkerfum Evrópu, Þýskalandi og Frakklandi, en í Þýskalandi mældist einungis 0,1% hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi og í Frakklandi var enginn vöxtur í fjórðungnum. Er ástandið á evru-svæðinu ólíkt því sem er að gerast í Bandaríkjunum og Japan þar sem hagvöxtur hefur verið að aukast."
Þetta er stórfrétt, þar sem Frakkland og enn frekar Þýskaland hafa verið aðaldriffjaðrir efnahagslífsins á evrusvæðinu og á þau hefur verið treyst, fyrst og fremst, sem bjargvætti skuldugra ríkja á evrusvæðinu, enda flestum málum er snúa að efnahagsráðstöfunum á evrusvæðinu ráðið á einkafundum Þýskalandskanslara og Frakklandsforseta.
Hér á landi hefur kreppunni verið kennt um lítinn hagvöxt á árinu 2011. Hvað skyldi þá skýra þennan litla hagvöxt evrulandanna og reyndar allra ESBríkjanna?
![]() |
Minni hagvöxtur á evru-svæðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2011 | 11:28
Eykst dópnotkun vegna skattahækkana?
Gríðarlegar hækkanir hafa orðið á áfengissköttum undanfarin rúm tvö ár og er nú svo komið að bjór og áfengi er orðið svo dýrt hjá Steingrími J., að sala í ríkinu dregst stöðugt saman, en brugg og smygl eykst að sama skapi.
Nú virðast vera að koma í ljós enn aðrar afleiðingar þessa skattahækkanabrjálæðis, en það er gífurlega mikil aukning dópneyslu, eða eins og segir í upphafi fréttarinnar: "Fækkun hefur orðið í flestum brotaflokkum á tímabilinu janúar til júlí árin 2009, 2010 og 2011. Einn flokkur sker sig þó úr því fíkniefnabrotum hefur fjölgað um 33% á umræddu tímabili."
Eina rökræna skýringin á þessari fjölgun þeirra sem teknir eru með fíkniefni er sú, að orðið sé mun fyrirhafnarminna og ekki síst miklu ódýrara að verða sér úti um dóp og búið sé að verðleggja áfengið út úr þeirri samkeppni.
Kannski er þessi verðstefna Steingríms J. vísbending um hvaða vímugjafa hann telur heppilegasta fyrir landsmenn.
![]() |
Fíkniefnabrotum fjölgar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.8.2011 | 20:01
Bændur í ánauð sláturleyfishafa?
Sláturleyfishafar, sem eru í raun með einokun á slátrun búfjár í landinu, neita að greiða bændum uppsett verð fyrir það lambakjöt, sem bændur þurfa að selja þeim í haust.
Þetta hlýtur að vera eina dæmið um það, að kaupandi vöru geti ákveðið sjálfur hvaða verð hann greiðir fyrir þá vöru sem hann kaupir, því venjan er sú að seljendur verðleggja vörur sínar og síðan ræður eftirspurnin hvort kaupendur sætta sig við uppsett verð.
Sláturleyfishafar hafa svo frjálar hendur um verðlagningu sína til verslana, sem aftur hafa frjálsa álagningu og geta því lagt á landbúaðarvörur, eins og aðrar, eins mikið og kaupendur láta bjóða sér. Að vísu eru kaupendur matvara í erfiðri aðstöðu gagnvart seljendum, þar sem allir neyðast til að borða, en þeir geta þó fært sig á milli vöruflokka, þegar verðlagning einstakra vara gengur fram úr öllu hófi.
Þó flestum þyki verð á landbúnaðarvörum vera of hátt nú þegar, er þessi einokunarstaða sláturleyfishafa eins og draugur úr fortíðinni, þegar kaupfélögin réðu logum og lofum á þessum markaði.
Einkennilegast af öllu er, að bændur skuli sætta sig við þetta fyrirkomulag á verðlagningu þeirra eigin framleiðslu.
![]() |
Féllust ekki á kröfur bænda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2011 | 16:32
Vaxtaokrið er verra en verðtryggingin
Lífeyrissjóður veslunarmanna tilkynnti um lækkun vaxta, frá og með morgundeginum, á lánum sem bera fasta vexti, úr 4,9% í 4,5%, um leið og tekið er fram í yfirlýsingunni að sjóðurinn hafi ávallt lánað sjóðfélögum sínum húsnæðislán á hagstæðum kjörum.
Fastir vextir af verðtryggðum lánum upp á 4,9% eru ekki "hagstæð kjör" og það eru 4,5% vextir ekki heldur. Hér á landi hefur þvílíkt vaxtaokur tíðkast um áratugaskeið, að sumum gæti þótt þetta vera tiltölulega lágir vextir þó þetta séu í raun okurvextir, þó vissulega sé þetta minna okur en ýmsar aðrar lánastofnanir stunda, nú sem áður.
Eðlilegir vextir af verðtryggðum lánum ættu alls ekki að vera mikið hærri en 2-2,5%, enda væru slíkir vextir algerlega eðlilegt endurgjald fyrir slík lán, enda höfuðstóllinn tryggður með verðtryggingunni. Íslendinar hafa hins vegar látið bjóða sér algert vaxtaokur, enda lánaóðir flestir og verið meira en viljugir til að taka öll þau lán, sem í boði hafa verið, án þess að velta vaxtakjörunum nokkurn tíma fyrir sér.
Enginn berst fyrir eðlilegum vaxtakjörum í landinu, en hins vegar liggja fáir á liði sínu í skömmunum út af verðtryggingunni og láta eins og hún sé allt að keyra um koll í húsnæðislánum landsmanna. Henni er meira að segja kennt um að höfuðstóll lána skuli ekki lækka mikið á fasteignalánum, enda þótt þar sé um endurgreiðslufyrirkomulagið að ræða, þ.e. annuitetslánin, en ekki verðtrygginguna sem því veldur.
Óskandi væri að baráttunni yrði beint að raunverulega vandamálinu, sem er vaxtaokrið og verðbólgan, en ekki eingöngu rætt um verðtrygginguna, enda ekki vandamál sem slík, ef verðbólga er lítil. Þar að auki vex kaupmáttur meira en neysluverðsvísitalan í eðlilegu efnahagsumhverfi og algerlega ófært að miða eingöngu við kreppuárin frá 2008.
Kreppunni mun linna áður en yfir lýkur, a.m.k. fljótlega eftir að skipt verður um ríkisstjórn í landinu.
![]() |
Lækka vexti á lánum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.8.2011 | 13:04
Andstaða við evruna eykst - í evruríkjum
ESBríkin, flest, hafa átt við efnahagserfiðleika að etja undanfarið og þó þeir hafi verið mismiklir eftir löndum, hefur nokkuð stór hluti evrulandanna átt bágast og það svo, að evran sjálf á orðið í vök að verjast og ekki útséð um það ennþá hvað um hana verður.
Ef skoðanakönnun sem gerð var í Hollandi er lýsandi fyrir afstöðu almennings í þeim evrulöndum sem betur standa um þessar mundir, er greinilegt að hratt fjarar undan samstöðunni um gjaldmiðilinn, að ekki sé talað um afstöðuna til aðstoðar við skuldugustu og verst stöddu evrulöndin.
Samkvæmt skoðanakönnun fyrir dagblaðið AD í Hollandi vilja 54% aðspurðra að Grikkjum verði vikið af evrusvæðinu og rétt tæpur helmingur vill að evran verði aflögð og gömlu gjaldmiðlarnir verið teknir í notkun aftur.
Eins kemur fram í frétt Reuters af málinu, að meirihluti vill ekki að Ítalíu og Spáni verði bjargað, lendi löndin í skuldakreppu, álíka þeirri sem hrjáð hefur mörg önnur evrulönd. Í Reutersfréttinni kemur þetta fram um þessa afstöðu: "A Maurice De Hond poll published on Sunday showed that 60 percent of those surveyed wanted the Netherlands to stop lending money to other euro zone countries. A week ago, 55 percent said support should not be extended to Spain and Italy if they needed it."
Svo láta ESBsinnar á Íslandi eins og öll umræða um efnahagsástandið í Evrópu og vandamálin með evruna séu hreinn uppspuni andstæðinga þess að Ísland verði innlimað sem útkjálkahreppur í þetta vandamálasamband.
![]() |
Vilja Grikki af evrusvæðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2011 | 19:03
Skuldabandalag Evrópu til bjargar evrunni
Nýjasta hugmyndin til bjargar evrunni er að stofna skuldabandalag ESBríkja, sem fælist í því að hvert ríki fyrir sig hefði ekki lengur heimild til skuldabréfaútgáfu, heldur yrðu framvegis boðin út sameiginleg skuldabréf evruríkja sem Seðlabanki Evrópu myndi annast.
Með þessu kerfi yrði það ákveðið í Brussel hvað hvert ESBríki gæti skuldsett sig mikið og í raun jafngilti þetta að ríkin afsöluðu sér fjárhagslegu sjálfstæði sínu til kommisaranna í Brussel, sem aftur taka fyrst og fremst við skipunum frá Merkel og Sarkosy, eða þeirra sem gegna störfum kanslara Þýskalands og forseta Frakklands.
Viðhangandi frétt endar svo: "Haft er eftir heimildarmanni innan úr stjórnarráði Þýskalands að það sé algert forgangsmál að viðhalda evrusvæðinu með öllum aðildarríkjum þess. Án slíkra sameiginlegra skuldabréfa kann að vera of seint að bjarga evrusvæðinu, er haft eftir honum og ennfremur að bráðum yrði ekki lengur hægt að reyna að bjarga evruríkjum í vanda með björgunarpökkum upp á marga milljarði evra."
Hvað af þeim vanda, sem steðjar að efnahagslífi Evrópu og ekki síður evrunni, skyldu íslenskir ESBsinnar ekki skilja?
![]() |
Útiloka ekki lengur skuldabandalag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2011 | 08:48
Eftirspurnin skrúfar upp húsaleiguna - auðvitað
Húsaleiga á höfuðborgarsvæðinu hefur farið hækkandi undanfarna mánuði og virðist það koma ýmsum á óvart, t.d. starfsmanni Leigulistans, svo og fulltrúum Öryrkjabandalags Íslands og Félagsstofnunar stúdenta.
Þetta ætti hins vegar ekki að koma á óvart, sé tekið mið af því hve seint og illa gengur að ráða fram úr vanda margra íbúðaeiegnda, t.d. með endurútreikning erlendra lána, 110% leiðina svokölluðu, lánalengingar o.s.frv. Vegna þessa seinagangs hafa margir misst íbúðir sínar og þar með þurft að leita á leigumarkaðinn.
Einnig hefur verið í gangi mikill áróður gegn íbúðakaupum og að miklu betra sé fyrir fólk að leigja sér íbúðarhúsnæði en kaupa það, því með kaupum sé fólk að festa sig í ævilöngum þrældómi í þágu lánastofnana. Enginn virðist sjá neina sambærilega galla á því að fólk festi sig í ævilöngum þrældómi fyrir leigusalana.
Festi fólk kaup á fasteign, eignast það hana að lokum, þó eignamyndun verði hæg fyrri helming lánstíma húsnæðislánanna. Með leigu eignast leigjandinn auðvitað aldrei neitt í íbúðinni og hefur þar að auki takmarkað öryggi fyrir framtíðarbúsetu sinni.
Þegar eftirspurn eftir ákveðinni þjónustu eða vöru eykst skyndilega, hækkar verðið óhjákvæmilega. Það á við um húsaleigu eins og annað.
Framboð og eftirspurn ræður upphæð á húsaleigu, eins og annarri verðmyndun.
Málið er ekki flóknara en það.
![]() |
Ráða ekki við húsaleiguna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
13.8.2011 | 01:56
Guðjón er ÞJÁLFARINN
Guðjón Þórðarson hefur margsannað að hann er besti knattspyrnuþjálfari landsins, enda nær hann nánast undantekningalaust frábærum árangri með þau lið, sem hann þjálfar.
Í sumar tók hann að sér þjálfum ungs liðs BÍ/Bolungavík og hefur á skömmum tíma gert úr því lið, sem enginn getur fyrirfram verið viss um að vinna. Þetta sannaðst eftirminnilega í gær, þegar liðið vann spútniklið ÍA á heimavelli þess, 2-1, en ÍA er lang efst í riðlinum og hefði, með sigri, getað tryggt sér rétt til að leika í efstu deild á næsta ári.
Þetta er sætari sigur fyrir BÍ/Bolungavík fyrir það, að Akranes er heimabær Guðjóns og hann er fyrrverandi þjálfari Skagaliðsins og náði frábærum árangri með liðið á sínum tíma.
Enginn þjálfari landsliðs karla í knattspyrnu hefur náð eins góðum úrslitum í landsleikjum og Guðjón gerði á sínum ferli, sem landsliðsþjálfari, og nú er svo ástatt með landsliðið að enginn reiknar lengur með að það vinni leiki sína. Núna er markið ekki sett hærra en svo, að vonast til að niðurlæging liðsins verði sem minnst í hverjum leik.
Landsliðsþjálfarastaðan losnar í haust og ætti Guðjón Þórðarson að vera sjálfsagður til að taka þar við. Vafalaust tækist honum á skömmum tíma að laga orðspor liðsins umtalsvert.
Fyrsta takmark hans ætti að vera að koma íslenska liðinu upp fyrir það færeyska á heimslistanum.
![]() |
Þórður: Sætt að vinna fyrir Guðjón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.8.2011 | 08:36
Belgía og Frakkland næst?
Vegna þess hruns sem orðið hefur að undanförnu á hlutabréfamörkuðum heimsins, hafa ríkisstjórnir og seðlabankar gripið til ýmissa ráða til að róa fjárfesta og skapa ró á fjármálamörkuðum.
Nýjasta útspilið í þeim efnum er bann fjögurra Evruríkja við skortsölu hlutabréfa, en það eru Ítalía, Spánn, Belgía og Frakkland. Tvö fyrstnefndu ríkin hafa átt við mikla efnahagserfiðleika að stríða, ekki síst Spánn, Belgía hefur verið nefnd í sambandi við hugsanlega neyðaraðstoð, en að Frakkland skuli vera á þessum lista vekur alveg sérstaka athygli.
Frakkland hefur, ásamt Þýskalandi, verið leiðandi ríki innan ESB og þegar stórar ákvarðanir þarf að taka varðandi evruna og björgun illa staddra evruríkja, setjast ráðamenn í þessum tveim löndum jafnan saman á einkafundum og ráða ráðum ríkjanna og aðrir minni spámenn verða síðan að fylgja þeirri stefnu sem leiðtogar Frakklands og Þýskalands ákveða.
Undanfarið hafa hlutabréf franskra banka hríðfallið á mörkuðum og bannið við skortsölunni því örvæntingarráð til að reyna að koma í veg fyrir frekari lækkanir þeirra.
Aukist efnahagsörðugleikarnir í Frakklandi á næstunni er útséð um hvað verður um evruna sem gjaldmiðil og þá fyrst myndi verulega fara að hrikta í undirstöðum ESB og óvíst að sambandið stæðist slíkt áfall.
Hvenær skyldi "samninganefnd" Íslands um innlimun landsins í þetta ógæfusamband verða kölluð heim?
![]() |
Lækkun þrátt fyrir bann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)