Færsluflokkur: Bloggar

Æsifréttir í stað ígrundaðrar yfirferðar um stórt mál

Undanfarna daga hafa umræður um bókhaldskerfi ríkisins og úttekt Ríkisendurskoðunar á innleiðingu þess og rekstraröryggi tröllriðið fjölmiðlum landsins og verið aðalumfjöllun Kastljóss síðustu þrjá daga og boðað er framhald næstu daga.

Það sem mest er sláandi við þessa umfjöllun er hve vinnubrögð Ríkisendurskoðunar hafa verið slæleg, þ.e. að stofnunin skuli hafa verið komin með drög að rannsóknarniðurstöðu í nóvember 2009, en þá er eins og málið hafi algerlega dagað uppi innan stofnunarinnar og skýrslan hvorki verið send þeim sem andmælarétt höfðu og hvað þá að áfanganiðurstaðan hafi verið kynnt Alþingi eða ríkisstjórn.

Hins vegar er augljóst að þeir sem fjalla um málið í Kastljósinu virðast ekki hafa minnstu innsýn í bókhald og bókhaldskerfi og allra síst hvernig slíkt kerfi fyrir ríkisfyrirtæki, stofnanir ríkissins og ríkissjóð sjálfan þurfa að virka og hvílíkt risakerfi þarf til að halda utan um allar upplýsingar sem þörf er á fyrir slíkt batterí.

Umfjöllun um svona mál þurfa allra síst á æsifréttamennsku að halda, heldur þarf að ræða þau öfgalaust og af skynsemi. Það gerði reyndar Gunnar H. Hall fjársýslustjóri í Kastljósi kvöldsins.


mbl.is Gallar á kerfinu hafa verið lagfærðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórn sem slítur til sín fjármuni í stórum stíl

Slitastjórnir gömlu bankanna hafa rakað til sín milljörðum króna frá bankahruninu og er eftirfarandi setning úr meðfylgjandi frétt dæmigerð fyrir þennan ótrúlega fjáraustur stjórnanna í sjálfar sig: "Tveir stjórnarmenn í slitastjórn Glitnis og lögmannsstofa þeirra fengu 280 milljónir króna í greiðslur frá þrotabúinu í fyrra. Steinunn Guðbjartsdóttir fékk 100 milljónir króna og Páll Eiríksson 80 milljónir króna en lögmannsstofan 100 milljónir króna."

Venjulegt fólk áttar sig ekki á hvernig í ósköpunum þessi nýji "bankaaðall" fer að því að réttlæta slíkar upphæðir og engu er líkara en slitastjórnirnar hafi tekið við af gömlu bankaklíkunum sem tæmdu bankana innanfrá og áttu stóran þátt í þeim efnahagserfiðleikum sem þjóðin hefur þurft að glíma við frá árinu 2008 og ekki sér fyrir endann á ennþá.

Rannsóknarnefnd var sett á laggirnar til að rannsaka og skrásetja aðdraganda bankahrunsins og ekki virðist vera minni ástæða til að setja á fót rannsóknarnefnd til að fara í saumana á störfum slitastjórnanna og hvernig þær hafa komist upp með að "slíta" til sín þessa óheyrilegu fjármuni. 


mbl.is Fengu 280 milljónir í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kaupa morð

Pakistanskur ráðherra hefur lofað hverjum þeim sem drepur þann sem gerði kvikmyndina "Sakleysi Islam" ríflega tólf milljóna króna greiðslu og finns ekkert sjálfsagðara en að Al-Queda og önnur hryðjuverkasamtök taki þátt í kapphlaupinu um þessi "verðlaun".

Ekki er þetta í fyrsta sinn sem áhrifamenn innan múslimatrúarinnar heita verðlaunum fyrir morð á þeim sem þeim finnst hafa móðgað rétttrúaða múslima, að ekki sé minnst á ef þeim finnst lítið gert úr spámanninum sjálfum eða gert grín að honum. Salmann Rushdi hefur þurft að fara huldu höfði árum saman vegna slíkra "morðverðlauna" sem til höfuðs honum voru sett af trúarleiðtoga múslima í Íran og teiknari "múhameðsmyndanna" dönsku hefur heldur ekki getað um frjálst höfuð strokið af sömu ástæðu.

Aldrei hefur frést af því að þeir sem óska eftir slíkum morðkaupum hafi verið sóttir til saka og ekki einu sinni að slíkt hafi verið reynt. Þeir sem auglýsa eftir morðingjum til að vinna fyrir sig glæpaverkin hljóta þó að vera samsekir þeim sem í gikkinn taka eða sveðjunni beita, ef ekki sekari þar sem "verðlaunaféð" er líklegt til að freista alls kyns glæpalýðs og þar með orsaka morð, sem jafnvel hefði ekki verið framið án "verðlaunanna".

Er ekki kominn tími til að lýsa eftir þeim glæpamönnum sem hvetja aðra til morða og annarra illverka og jafnvel borga stórfé fyrir slíka glæpi.


mbl.is Leggur fé til höfuðs kvikmyndagerðarmanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa íslenskir sjúklingar skaðast vegna niðurskurðar?

Talið er að einhver fjöldi sjúklinga á Akershus sjúkrahúsinu í Noregi hafi skaðast og jafnvel látist vegna manneklu á sjúkrahúsinu á árinu 2011 og hefur framkvæmdastjóri sjúkrahússins beðist afsökunar á skaðanum sem þetta ástand hefur valdið.

Skýringin sem gefin er á þessu máli er að sjúklingum hafi fjölgað en starfsmannafjöldi staðið í stað og manneklan orðið til þess að mistök hafi verið gerð og sjúklingar ekki fengið þá þjónustu sem þurft hefði.

Á Íslandi hefur orðið mikill niðurskurður í heilbrigðisgeiranum sem bitnað hefur á öllum sviðum hans, t.d. í lélegu viðhaldi véla og tækja og fækkun starfsfólks á sjúkrahúsunum, bæði lækna og annars hjúkrunarfólks.

Skyldi nokkur athugun hafa verið gerð á því hér á landi hvort þessi niðurskurður hafi valdið álíka skaða hér og reyndin er í Noregi, hvort sem um er að ræða of nauma læknisþjónustu eða jafnvel ótímabær dauðsföll?


mbl.is Biður sjúklingana afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vakning grunnskólabarna

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur tekið upp þá "sjálfsögðu og eðlilegu" þjónustu við grunnskólabörn að senda borgarstarfsmenn heim til þeirra til þess að vekja þau á morgnana og væntanlega sjá til þess að þau fái sér hollan og góðan morgunverð áður en þau fara í skólann.

Skýringin sem gefin er á þessari morgunvinnu borgarstarfsmannanna er að blessuð börnin geti ekki vaknað við vekjaraklukku og hvað þá að foreldrarnir geti komið þeim fram úr rúmunum og í skólann.

Þetta verður að teljast úrvalsþjónusta, enda börnunum þá óhætt að hanga í tölvunni ennþá lengur fram á nóttina í þeirri öruggu vissu að borgarstarfsmenn hafi ekkert betra að gera á morgnana en að aka á milli borgarhverfa til að koma krökkunum á fætur eftir allt of stuttan nætursvefninn.

Engum dettur væntanlega i hug að þessi umhyggja "stóra bróður" gangi algerlega út í öfgar og að skattpeningum borgarbúa gæti verið varið í þarfari hluti.


mbl.is Borgin vekur börnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru allir stúdentar í Nígeríu í lífshættu?

Flóttamaðurinn, Samuel Unuko, frá Nígeríu sem dvalið hefur hér á landi í níu mánuði, eftir að hafa komið til landsins með falsað vegabréf og virðist þá hafa verið á flótta frá Svíþjóð, þar sem honum virðist hafa verið hafnað um landvist af ástæðum sem ekki hafa komið fram í fréttum sem tengjast málinu.

Samuel segist vera í bráðri lífshættu í heimalandi sínu vegna þess að hann hafi tekið þátt í mótmælum á námsárum sínum gegn stjórnvöldum í Nígeríu, en hætt allri slíkri þátttöku eftir að "einhverjir" fóru að ætlast til þess að hann beitti ofbeldi, án þess þó að fram komi gegn hverjum ofbeldið átti að beinast.

Sé þessi ákveðni flóttamaður í eins bráðri lífshættu og hann vill vera láta, hlýtur sú spurning að vakna hvort nánast allir námsmenn í Nígeríu séu í stöðugri hættu á því að yfirvöld láti myrða þá og pynta, jafnvel þá sem engu ofbeldi beita. Væri það raunin hlýtur að vera orðið afar fámennt í stétt menntafólks í Nígeríu, en fréttir af fjöldamorðum stúdenta og menntafólks hafa þó farið furðu hljótt, sé um þau að ræða á annað borð.

Eitthvað hlýtur að vera ósagt í þessu máli og lágmark að fréttafólk upplýsi um ástæðurnar sem ollu því að honum var hafnað um landvist í Svíþjóð og hvort mann sé í raun og veru eftirlýstur í Nígeríu og að hans bíði dauðadómur þar.


mbl.is Óttast valdamikið fólk í Nígeríu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konungleg brjóst og önnur

Ekki þykir nokkurt einasta tiltökumál þó kvenfólk liggi í sólbaði hálfnakið og a.m.k. berbrjósta hvar sem því verður viðkomið um alla Evrópu og jafnvel víðar um heiminn og hefur slíkt tíðkast í áratugi.

Því verða þau læti sem myndbirting af Kate Middelton þar sem hún sólbaðar sig berbrjósta að teljast með ólíkindum og ótrúlegt að slíkar myndir selji slúðurblöð í risaupplögum, þó það sé greinilega raunin.

Hitt er svo annað mál, að ágangur ljósmyndara og slúðurfréttafólks gagnvart þekktu fólki, er kominn út yfir allan þjófabálk og óþolandi fyrir þetta fólk að geta hvergi verið óhult fyrir þessum fréttalýð, sem jafnvel hrekur fólkið út í opinn dauðann með átroðningi sínum, eins og dæmið af Diönu prinsessu sannar.

Varla þykir nokkrum konungleg brjóst vera merkilegri en þau alþýðlegu.


mbl.is Sérútgáfa með Kate berbrjósta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver þarfnast óvina, sem á svona vini?

Sjávarútvegsráðherra Noregs segist vera í nánu sambandi við sjávarútvegsstjóra ESB um til hvaða efnahagsþvingana skuli gripið gegn Íslendingum vegna makrílveiðanna innan íslensku lögsögunnar, en bæði Norðmenn og ESB gera tilkall til yfirráða veiðanna á þeim miðum.

Að Norðmenn skuli yfirleitt taka þátt í slíku samsæri gegn íslenskum hagsmunum er stóralvarlegt mál, en þó ekki einsdæmi því Norðmenn studdu dyggilega við bakið á ESB við kúgunartilraunirnar gegn Íslandi vegna Icesave.

Með svona vini eins og Norðmenn og ESB er engin þörf fyrir óvini.


mbl.is „Erum að íhuga refsiaðgerðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Múslimar og málfrelsi eiga enga samleið

Um leið og einhver vesturlandabúi dirfist að segja eða skrifa eitthvað um spámann Islam sem múslimar telja ekki sæmandi verður allt vitlaust í löndum þeirra og ekki er hikað við að misþyrma og drepa hvern þann kristinn mann sem höndum verður komið yfir.

Múslimar leyfa sér hins vegar að kalla kristna menn öllum illum nöfnum, ofsækja þá og lýsa réttdræpa án þess að t.d. vesturlandabúar reyni eini sinni að snúast til varnar. Þvert á móti er undirlægjuhátturinn slíkur að það það er talið eðlilegt að líða þessi illvirki og segja þau einungis runnin undan rótum öfgamanna, þegar rótin er sjálfur Kóraninn og boðskapur hans.

Sjálfsagt þykir að múslimar reisi sér moskur og sína eigin skóla víða á vesturlöndum og er svo komið að þeir er farnir að krefjast þess að sharialög gildi í "þeirra" hverfum víða í borgum vesturlanda og líklega verður þess skammt að bíða að umburðarlyndið verði svo mikið að á slíkt verði fallist innan fárra ára. Líklega taka múslimar á vesturlöndum öll völd í "sínum" málum áður en yfir líkur, hvað sem vesturlandamenn segja um það.

Moska hefur verið vígð í Reykjavík og sennilega verða þær fleiri innan skamms. Fjármagn til reksturs safnaðanna mun ekki skorta, a.m.k. ekki á meðan Saudi Arabía heldur áfram að ausa úr olíusjóðum sínum til útbreiðslu Islam um veröldina.

Eins og dæmin sýna er full ástæða til að óttast það sem framtíðn ber í skauti sér í þessum efnum, jafnt hér á landi sem annarsstaðar.


mbl.is Mótmæli breiðast út á meðal múslima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir skulu vera jafnari en aðrir

Julian Assange hefur orðið fyrir því áfalli að breska fjölmiðlanefndin hefur vísað frá kvörtun hans um að fjölmiðlar í Bretlandi hafi brotið á rétti hans með því að birta myndir af honum dansandi á íslenskum næturklúbbi.

Allir þekkja til Assange, en í fréttinni er þó bent á þetta: "Hann hefur barist fyrir rit- og tjáningarfrelsi og er stofnandi vefsíðunnar Wikileaks."   Í þessari hörðu baráttu fyrir tjáningarfrelsinu virðist ekki vera frelsi til að fjalla um Assange sjálfan eða gerðir hans.

Sjálfur hefur Assange birt milljónir tölvugagna og -pósta sem höfundar þeirra eða móttakendur hafa ekki gefið neitt leyfi til að birta, en kvörtunin til fjölmiðlanefndarinnar byggðist á því að myndirnar af Assange hefðu verið birtar án hans leyfis og í hans óþökk.

Samkvæmt þessu virðist  Assange ætlast til að rit- og tjáningarfrelsi annarra en hans sjálfs verði ýmsum takmörkunum háð og að hann sjálfur eigi að vera jafnari en aðrir, eins og sagði í frægri sögu.


mbl.is Brutu ekki á Assange með því að sýna hann dansa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband