Færsluflokkur: Bloggar
19.12.2012 | 19:43
Eftirlitsgjald á dömubindi og smokka
Skattahækkunargeðveiki ríkisstjórnarinnar hefur fyrir löngu gengið fram af öllu siðmenntuðu fólki í landinu og þó geðveiki sé ekkert grín og beri ekki að hafa í flimtingum, er ekki hægt að líkja skattastefnu stjórnarinnar við neitt annað en alvarlega andlega sjúkdóma.
Yfirgengileg hugmyndaauðgi stjórnarflokkanna við gjalda- og skattahækkanir er hreint út sagt ótrúleg og hefur bitnað illilega á hverjum einasta landsmanni, bæði beint í hækkuðu verðlagi og ekki síður vegna þess hve verðbólguaukandi þær eru og hækka þar með íbúðarlán og önnur verðtryggð lán um milljarða króna.
Þegar á þetta er bent í þinginu snúast stjórnarþingmenn til varnar skattahækkanasjúkdómi þessum með því að gera gys að málflutningi mótmælendanna, t.d. sagði Álfheiður Ingadóttir að stjórnarandstaðan væri einungis að berjast gegn hækkunum á brennivíni, tóbaki, bensíni og bifreiðasköttum. Hækkun skatta á þessa vöruflokka mun ein og sér hækka húsnæðislánin um marga milljarða króna á næstu misserum.
Nýjasta skattahækkanabrjálæðið á síðan að bitna á sjúklingum landsins með "eftirlitsgjaldi" á lækningatæki, sem er ekkert annað en skattheimta sem mun koma niður á sjúklingum í hækkun læknis- og lyfjakostnaðar.
"Eftirlitsgjald" þetta átti samkvæmt stjórnarfrumvarpinu m.a. að leggjast á hjólastóla, DÖMUBINDI og SMOKKA. Jafnvel þó á þennan fáránleika væri bent í Fjárhagsnefnd Alþingis var frumvarpinu laumað inn í þingið í skjóli nætur og ekki dregið til baka fyrr en þjóðfélagið allt var komið á annan enda úr hlátri vegna þessarar ótrúlegu vitleysu.
Hvernig eftirlitinu með notkun dömubindanna og smokkanna skyldi verða háttað var ekki útskýrt nákvæmlega í greinargerð frumvarpsins. Nefnd hefur sjálfsagt átt að setja um það nánari reglur.
![]() |
Gagnrýndu eftirlitsgjald á smokka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2012 | 18:57
Vesen "Bjartrar framtíðar" og Eurovision
Framboðslistar "Bjartrar framtíðar" fara að líta dagsins ljós á næstunni og munu efstu sæti á listum flokksins í öllum kjördæmum hafa verið ákveðin, þó leynd hvíli að mestu yfir framboðunum enn sem komið er.
Sex manna uppstillingarnefnd mun hafa unnið að því að stilla upp á listana og mun halda áfram að fylla á þá næstu vikurnar eftir því sem tekst að finna fólk sem tilbúið er í framboð fyrir flokkinn.
Að svo fámennur hópur skuli ákveða framboðslistana er afar merkilegt í ljósi stefnuyfirlýsingar flokksins, en í henni má meðal annar lesa eftirfarandi setningar:
"Beint lýðræði fái meira vægi, ekki einungis með atkvæðagreiðslum heldur ekki síður aukinni þátttöku almennings á öðrum stigum ákvarðanatökunnar."
"Tækninýjungar séu notaðar til þess að einfalda stjórnsýsluna, auka þátttöku fólks í umræðu og ákvörðunum og bæta aðgengi þess að upplýsingum."
"Almennt ríki minna vesen."
"Ísland vinni Eurovision."
Líklega veldur það miklu minna veseni að láta fámenna klíku raða upp á framboðslistana, heldur en að auka þátttöku almennings í ákvaranatökunni og bæta aðgengi fólks að upplýsingum um listana og hvernig að uppröðuninni er staðið.
Sennilega meinar "Björt framtíð" heldur ekkert með loforðinu um að "Ísland vinni Eurovision".
![]() |
Forysta í öllum kjördæmum ákveðin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.12.2012 | 19:27
"Sterkur" listi með hálfdautt bakland
Steingrímur J. er yfir sig ánægður með afgerandi stuðnig 199 manna í einu víðfeðmasta kjördæmi landsins til að skipa fyrsta sæti á lista VG, en alls kaus 261 af þeim 722 sem á kjörskrá voru.
Ekki verður annað sagt en að Steingrímur sé nægjusamur maður og lítillátur, þó ekki beri hann eða fas hans slíkt með sér, fyrst hann ræður sér ekki fyrir kæti yfir þessari kosningu og þeim "afgerandi" stuðningi sem hann telur að sér hafi verið veittur til áframhaldandi starfa í stjórnmálum.
Miðað við þann áhuga sem skráðir félagar í VG í Norðausturkjördæmi sýna í þessu forvali, eða réttara sagt áhugaleysi, hlýtur að teljast vafasamt að flokkurinn fái nokkurn þingmann kjörinn í Alþingiskosningunum í vor í kjördæminu og yrði það makleg málagjöld vegna svika Steingríms J. og flokksins við flest stefnumál sín á líðandi kjörtímabili.
Þó lítil eftirsjá verði af skoðunum Steingríms J. hefur oft verið gaman að hlusta á ræður hans, sérstaklega á meðan hann var í stjórnarandstöðu. Komist hann á þing í vor má vænta þess að aftur gæti orðið hlustandi á skammarræður hans um væntanlega ríkisstjórn.
Steingrímur J. er hin sanna ímynd stjórnarandstöðuþingmanns, en algerlega misheppnaður meirihlutaþingmaður og hvað þá ráðherra.
![]() |
Steingrímur: Sterkur listi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.12.2012 | 20:06
Lélegur brandari endurnýttur
"Besti" flokkurinn ætlar að taka formlegan þátt í framboði útibús Samfylkingarinnar fyrir þingkosningarnar í vor og munu nokkrir borgarfulltrúar flokksins og vinir þeirra taka sæti á framboðslistum Bjartrar framtíðar.
Jón Gnarr sagði í sjónvarpsviðtali að hann myndi taka sæti á lista, enda væri besti vinur sinn í framboði fyrir Bjarta framtíð, eða eins og Gnarrinn sagði: "Er ekki Óttar Proppé þar?"
Reykvíkingum þótti framboð "Besta" flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar síðustu ákaflega fyndið og hlógu í nokkra daga fram yfir kosningar, eða þar til að brandarinn líkamnaðist í meirihlutasamstarfi í kringum borgarstjórastól handa Jóni Gnarr.
Nú verður grínið endurnýtt fyrir Alþingiskosningar og fróðlegt verður að sjá hve margir hafa ekki skilið brandarann og eru því ekki orðnir leiðir á honum ennþá.
Líklega mun Jón Gnarr lýsa því yfir að fimmta sætið í Reykjavíkurkjördæmi norður verði baráttusæti flokksins í kjördæminu og það ætli hann sér að vinna og verða forsætisráðherra í kjölfarið.
Þetta mun Jóni vafalaust þykja bráðfyndið og sjálfsagt einhverjum fleirum líka.
![]() |
Jón Gnarr í 5. sæti í Reykjavík norður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.12.2012 | 23:24
Harmleikur í fjósum og víðar
Hryllilegar myndir og frásagnir hafa verið að birtast undanfarna daga af aðbúnaði í fjósum á tveim sveitabæjum á vesturlandi og hafa ekki síst myndirnar valdið hrolli og viðbjóði hjá öllum sem séð hafa.
Ótrúlegt er að ekki skuli hafa fyrr verið gripið til stöðvunar mjólkurkaupa af þessum búum, en fram hefur komið að athugasemdir hafa verið gerðar við aðbúnaðinn mánuðum saman, án þess að úrbætur hafi verið gerðar eða athugasemdum sinnt.
Enginn bóndi fer svona með bústofn sinn nema einhver mannlegur harmleikur sé rót vandans og því ber að dæma varlega í svon málum, en eftir sem áður ber yfirvöldum að grípa inn í slíka atburðarás umsvifalaust, þegar séð er í hvað stefnir en ekki bíða í marga mánuði eða ár með aðgerðir og láta skepnurnar líða vítiskvalir allan þann tíma.
Hvað sem að baki býr verður að stöðva slíka meðferð á dýrum strax og sést í hvað stefnir þegar ámóta mál komast til vitneskju réttra yfirvalda og öllum ber skylda til að tilkynna um slíkt umsvifalaust þegar grunur vaknar um svo hroðalega illa hirtan bústofn.
Sama á auðvitað við um dýranýð í þéttbýli, sem alls ekki er óþekkt meðal gæludýraeigenda og annarra dýrahaldara.
![]() |
Þetta er hörmulegt mál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.12.2012 | 19:13
Andasæringar í sjúkratryggingakerfið
Nú þegar andasæringar hafa endanlega sannað gildi sitt er hér með skorað á Ólínu Þorvarðardóttur að endurbæta tillögu sína um að "græðarar" verði teknir inn í sjúkratryggingakerfið og bæta inn í hana íslenskum andasæringamönnum, ásamt því að gleyma ekki Vúdú og afrískri særingarhefð, eins og áður hefur verið minnt á á þessum vettvangi.
Andasæringar hljóta að flokkast með athöfnum "græðara" sem beita handayfirlagningu og öðrum slíkum aðferðum til að "græða" fólk og græða á því. Eins og fréttin ber með sér tekst særingarmönnum að reka illa anda úr fólki, jafnt börnum sem fullorðnum, a.m.k. ef viðkomandi trúa á slíkt, alveg eins og handayfirlagningar virka á þá sem á þær trúa og treysta.
Ef Ólína vill virkilega gera góðverk á þeim sem vilja leita sér "græðslu" utan heilbrigðiskerfisins er algerlega óþolandi að hún skuli fara í aðferðamismunun í tillögugerð sinni.
Allir sem virkilega hafa áhuga á að græða fólk og á því eiga kröfu til jafnstöðu, eins og sannir jafnaðarmenn myndu orða það.
![]() |
Illur andi hljóp í börnin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
7.12.2012 | 09:44
Leggja "græðarar" nám sitt að jöfnu við háskólanám?
"Græðarar" leggja nú í mikla herferð, með dyggri aðstoð Ólínar Þorvarðardóttur þingmanns, til að fá starfsemi sína niðurgreidda úr ríkissjóði og reyna að telja þingheimi og almenningi trú um að störf þeirra jafnist á við það besta úr heimi læknavísindanna, þó ekki geti þeir bent á neinar rannsóknir því til staðfestingar.
Til þess að fá fullgildingu félags "græðara" þarf t.d."höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnari" að sækja níu helgarnámskeið árlega í þrjú ár og telst þá að mati sjálfs sín og félagsins fullfær um að "græða" sjálfan sig og aðra, hvort sem þeir eru tengdir eða ótengdir viðkomandi fjölskylduböndum.
Þessi helgarnámskeið virðast "græðarar" leggja að jöfnu við margra ára háskólanám í sálfræði, tannlækningum eða skurðlækningum og heimta á þeim grundvelli jafnstöðu við læknavísindin hvað aðkomu sjúkratrygginga varðar.
Ekki rifjast upp af þessu tilefni að t.d. Ólína Þorvarðardóttir hafi nokkurn tíma lagt til auknar niðurgreiðslur tannlækninga, hvorki barna né fullorðinna, eða að þjónusta sálfræðinga verði talin hluti hins niðurgreidda heilbrigðiskerfis.
Tillöguflutningur þessi á Alþingi um "græðara" hlýtur teljast með botnfalli undarlegra þingályktunartillagna sem fram hafa komið frá stofnun lýðveldisins.
![]() |
Hefur enga virkni umfram lyfleysu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.12.2012 | 09:10
Skítaflétta
Stjórnendur og ýmsir lykisstarfsmenn Glitnis hljóta að teljast óvenju minnislausir menn, enda muna þeir ekkert hver lánaði hverjum hvað, hver skrifaði undir hvað, hver sagði hvað, hver sagði hverjum að gera hvað og jafnvel muna þeir ekki hver skrifaði hvað, né hvað þetta eða hitt þýddi, sem sumir sögðu við suma í síma eða augliti til auglitis.
Þetta minnisleysi er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að þetta voru launaháir menn, svo mjög meira að segja að alþjóð blöskraði, og sögðust hafa þessi háu laun vegna gríðarlegrar ábyrgðar sem á þeim hvíldi og því hefði mátt reikna með að þeir væru ekki haldnir svo gríðarlegum minnisglöpum og nú virðist vera að koma í ljós.
Þar sem minnið brestur um fleira sem í fréttinni stóð, verður að láta staðar numið hér, enda ekki munað hvort öll fréttin hafi verið lesin eða skilin.
![]() |
Dagur spurninga dómara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
1.12.2012 | 09:46
Biðjast afsökunar á skrípalátunum
Björn Valur Gíslason og Lúðvík Geirsson, þingmenn ríkisstjórnarflokkanna, eru þekktir fyrir óvandaða og oft ruddalega framgöngu á Alþingi og liggur við að segja megi að þeir hafi toppað sjálfa sig í bjálfaganginum í gærkvöldi, þegar þeir gengu um þingsalinn með spjald sem á stóð "Málþóf" undir ræðu Illuga Gunnarssonar, sem var að ræða fjárlög ársins 2013.
Önnur umræða um frumvarpið hafði hafist deginum áður og því eins fjarri öllu lagi að kalla umræðurnar málþóf, þó þessir tveir hafi ekki nennt að gegna skyldum sínum í þinginu þetta kvöld, sem reyndar var föstudagskvöld og ekki á hreinu hvort sú staðreynd skýri á einhvern hátt þetta furðulega uppátæki stjórnarþingmannanna.
Þegar mesta ruglið var runnið af þingmönnunum sáu þeir sóma sinn í að biðjast afsökunar á þessum tiltekna fíflagangi, en ættu auðvitað að biðsjast fyrirgefningar á flestu sem þeir hafa aðhafst í þingsölunum allt kjörtímabilið.
Ef til vill skýrist framkoma þessara manna af þeirri staðreynd að þeim var báðum hafnað af kjósendum flokka sinna í prófkjörum og því brjótist heift þeirra og hefnigirni út á þennan hátt, enda síðasti þingvetur beggja.
Vonandi eiga slíkir persónuleikar sem þessir ekki afturkvæmt á þingið eftir kosningarnar í vor.
![]() |
Þingmenn báðust afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.11.2012 | 18:52
Lygileg vinnubrögð í kvótamálinu
Breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu hefur verið að velkjast í ríkisstjórn og stjórnarflokkunum allt kjörtímailið og frumvörp til breytinga verið lögð fram á hverju þingi frá myndun núverandi volaðs stjórnarmeirihluta.
Í vor tókst ekki að ná samstöðu um þann frumvarpsbastarð sem þá var lagður fram, frekar en á fyrri þingum, en boðað var að nýtt og endurskoðað frumvarp yrði lagt fram á haustþingi.
Þingið hefur nú verið starfandi í nokkrar vikur og ekkert hefur bólað á nýjustu afurð fiskveiðihugsuða ríkisstjórnarinnar fyrr en síðasta mögulega dag til að leggja fram þingmál, eigi þau að fást tekin til umræðu á Alþingi fyrir jól.
Þrátt fyrir að vera með málið á allra síðustu stundu hefur ekki einu sinni tekist að afla fylgis við það meðal þingmanna stjórnarflokkanna, hvað þá að nokkur einasti maður annar hafi séð frumvarpsdrögin og enn síður lýst yfir stuðningi við það.
Þó vinnubrögðin í þessu máli séu lygilegri en nokkur lygasaga eru þau samt sem áður algerlega í takti við aðra vinnu þess stjórnarmeirihluta sem þjóðin verður að þjást undir fram á vorið.
![]() |
Samfylking fundar um kvótafrumvarp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)