Alvaran blasir við Steingrími J.

Sá fjöldi sem sækir íbúafund um sjávarútvegsmál í Fjarðarbyggð hlýtur að koma Steingrími J. og öðrum stjórnarþingmönnum í skilning um þá miklu alvöru sem býr að baki öllum þeim mótmælum sem á ríkisstjórninni dynja vegan hins brjálæðislega veiðileyfagjalds sem hinn skattaóði Steingrímur vill drepa greinina með, ásamt með vanhugsuðum breytingum á sjálfu stjórnkerfi fiskveiðanna.

Það ætti auðvitað að varða við lög að leggja fyir Alþingi svo illa unnin frumvörp að flutningsmaðurinn sjálfur skuli láta fylgja þeim að þau séu "hrá" og verði "auðvitað lagfærð" af þingnefnd áður en þau komi til endanlegarar afgreiðslu Alþingis.

Alþingi ætti að sjá sóma sinn í því að hafna frumvörpunum alfarið, senda þau til föðurhúsanna og fela þverpólitískri nefnd þingmanna að semja algerlega ný frumvörp um framtíðarskipan fiskveiða og vinnslu, þ.e. frumvarp sem tryggir hámarksarð greinarinnar í þágu þjóðarinnar allrar, en ekki fyrst of fremst ríkissjóðs.

Þingið á ekki að vera stimpilpúði fyrir ráðherrana og á alls ekki að taka við öðrum ein frumvarpsbarstörðum og Steingrímur J. hendir í það vegna grundvallarhagsmuna lands og þjóðar.


mbl.is Fjölmenni á fundi um sjávarútvegsmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupæðið bregst ekki frekar en fyrri daginn

Í hvert sinn sem ný verslun opnar, a.m.k. á Reykjavíkursvæðinu, brýst út mikið kaupæði og þúsundir manna flykkjast í viðkomandi verslun og valda nánast vöruskorti verslunarinnar næstu vikur á eftir og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða leikfanga-, fata-, eða byggingavöruverslanir.

Í dag opnaði Bauhaus risaverslun og samkvæmt venju myndaðist örtröð þúsunda viðskiptavina sem virtust halda að verslunin ætti einungis að vera opin einn dag, eða jafnvel aðeins í örfáa klukkutíma.

Bauhaus er hér með óskað til hamingju með þessa verslun sína og kaupgleðina sem ekki brást þeim, frekar en öðrum sem opnað hafa nýjar verslanir á undanförunum árum.


mbl.is 8.000 komu í Bauhaus í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sanngjörn og heiðarleg stjórnarandstaða

Furðuleg uppákoma varð í þinginu í gær, þegar stjórnarandstaðan bauðst til að flýta afgreiðslu þeirra mála sem fyrir Alþingi liggja og lítill ágreiningur er um, til þess að mögulegt væri að koma þeim til umfjöllunar þingnefnda í næstu viku. Þessa tillögu setti stjórnarandstaðan fram til að liðka fyrir þingstörfum, en þá brá svo undarlega við að þingmenn stjórnarmeirihlutans snerust öndverðir við tillögunni og höfnuðu henni algerlega.

Þessi einkennilega afstaða stjórnarþingmannanna varð til þess að umræður um stórt og mikið deilumál stóðu langt fram á nótt og var langt frá því lokið, þegar þingforseti samþykkti loksins viturlega tillögu minnihlutans um vinnubrögð í þinginu, frestaði umræðum um breytingar á stjórnarráðinu og tók á dagskrá þau mál sem minni ágreiningur er um.

Sem betur fer hafði þingforsetinn ekki neitt samráð við Björn Val Gíslason, þingflokksformann VG, um þessa dagskrárbreytingu enda er nánast fullvíst að hann hefði staðið gegn henni, enda þekktur fyrir flest annað en að vera samvinnuþýður, sanngjarn eða málefnalegur þingmaður.

Þingforseti varð maður að meiri að fara að sanngjarnri og heiðarlegri tillögu stjórnarandstöðunnar um vinnubrögð þingsins, enda hafa þau verið alveg ótæk hingað til.


mbl.is Ekki haft samráð við þingflokksformenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna skammast, en ætti að skammast sín

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, er í krafti embættis síns æðsti handhafi framkvæmdavaldsins í landinu, en eins og allir vita á að vera skýr aðskilnaður á milli löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds í landinu.

Sem launaður starfsmaður framkvæmdavaldsins á Jóhanna ekkert með að ráðskast með fundi Alþingis, hvorki daglegan fundartíma né dagsetningu þingslits að vori. Þetta leyfir hún sér hins vegar að gera og hefur í hótunum við þingmenn um að þeir verði "látnir sitja eftir" fram í júlí, láti þeir ekki að hennar vilja um hvenær og hvernig mörg af arfavitlausum þingmálum ríkisstjórnarinnar verða afgreidd á þinginu.

Undanfarna daga hefur Jóhanna rifist og skammast í þingmönnum fyrir að vilja ræða og betrumbæta stjórnarfrumvörp, sem hrannast upp í þinginu illa unnin og "hrá", eins og ráðherrarnir hafa sjálfir viðurkennt að þau séu, enda eigi að lagfæra þau í meðförum þingnefnda og þingsins sjálfs. Til þess að svo megi verða þarf þingið góðan tíma til þess að fjalla um málin og kalla til þá sérfræðiaðstoð sem til þarf í hverju máli.

Frekar en að skammast í þinmönnum ætti Jóhanna Sigurðardóttir að skammast sín.


mbl.is Jóhanna skammaði Ragnheiði Elínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki lækka skuldirnar af húsnæðislánum erlendis

Margir láta eins og hvergi sé við vanda að etja vegna efnahagserfiðleika annarsstaðar en á Íslandi eftir banka- og efnahagskreppuna sem brast yfir heiminn eftir fall Leman bankans haustið 2008 og leiddi m.a. af sér hrun bankanna hér á landi.  

Kreppan sem fylgdi í kjölfar bankahrunsins olli skuldurum hér á landi gífurlegum erfiðleik um, ekki eingöngu skuldurum húsnæðislána, heldur ekki síður hinum sem skulduðu há neyslulán, svo sem bíla-, yfirdráttar- og kreditkortaskuldir.  Lán með gengisviðmiði hafa verið dæmd ólögleg, en þeir sem tóku verðtryggð lán, flest með okurvöxtum, glíma við vandann sem fylgdi lækkun húsnæðisverðs eftir hrunið.

Lækkun á húsnæðisverði er hins vegar fylgifiskur efnahagserfiðleikanna í öllum löndum og lántakendur alls staðar eru í miklum vandræðum vegna þess, þar sem skuldirnar lækka ekki og margir hafa því misst húsnæði sitt vegna þess að það hefur ekki lengur staðið undir veði vegna áhvílandi lána.

Í meðfylgjandi frétt kemur m.a. fram um þessa erfiðleika:  "Samkvæmt tölum sem Seðlabanki Íslands birtir í mánaðarlegum hagvísum sínum lækkaði íbúðaverð um 3,4% að raunvirði í Bretlandi á síðasta ári og á sama tíma lækkaði raunverð íbúða um 7% í Bandaríkjunum. Í Finnlandi lækkaði íbúðaverð um 2,4% á síðasta ári og um 5,3% í Svíþjóð."

Þarna er ekki minnst á lönd eins og Grikkland, Írland og Spán, þar sem íbúðaverð hefur lækkað miklu meira en í þeim löndum sem nefnd eru í fréttinni og erfiðleikar skuldara eru því meiri sem efnahagserfiðleikarnir hafa leikið lönd þeirra grárra.

Nógu erfitt er fyrir íbúalánaskuldara þessara landa að glíma við sín "gengistryggðu lán, þó þeir sleppi við þá erfiðleika sem vaxtaokrið veldur íslenskum skuldurum til viðbótar öðrum erfiðleikum sem þeir glíma við og er reyndar eitt mesta böl sem íslendinga hrjáir.


mbl.is Íbúðaverð hækkaði um 1,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskiljanlegt slagorðaglamur forsetaframbjóðanda

Sífellt gjaldfellur forsetaembættið eftir því sem fleiri "bjóða sig fram" til að gegna embættinu, án þess að hafa nokkuð það til að bera sem prýða þarf góðan forseta.

Sumir frambjóðendur tala í slagorðum og klisjum, sem erfitt er að skilja, eins og t.d. sá nýjasti, Andrea J. Ólafsdóttir, sem flutti þjóðinni þennan boðskap þegar framboð var tilkynnt: "Hún sagði Alþingi ekki geta leyst stór mál sem gangi þvert á flokkslínur og þurfi því aðstoð til. Ein leið til þess er að láta verkin tala í þágu meirihluta þjóðarinnar. Fólkið verði að koma þinginu til aðstoðar með beinni aðkomu. „Ég tel að það geti gerst í gegnum forsetaembættið, með traustum forseta sem er tilbúinn að vera lýðræðislegt verkfæri meirihlutans."

Svona þvælu leyfa frambjóðendur sér að kasta fram án nokkurra útskýringa á því hvað þeir eru að meina, eða hvernig í ósköpunum forsetaembættið skuli t.d. notað  til að "láta verkin tala í þágu meirihluta þjóaðinnar".

Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að "forsetaframbjóðendur" tali ekki til kjósenda eins og þeir séu  alger fífl. 


mbl.is „Þar sem er vilji er vegur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Banna fuglaveiðar til að semja svo um þær við ESB?

Enn einn ótrúlegur angi af samningum ríisstjórnarinnar um innlimun landsins í ESB er að komast í dagsljósið, en það er hugmynd Svandísar Svavarsdóttur um fuglaveiðibann í þeim tilgangi að setja inn í innlimunarsamninginn að Íslendingum verði frjálst að leyfa fuglaveiðar í trássi við reglur stórríkisins.

Svandís ber því reyndar við að hún vilji friða blessaða fuglana frá veiðimönnum vegna þess að ýmsir fuglastofnar séu að svelta í hel vegna ætisskorts og verður það að teljast furðuleg umhyggja fyrir skepnunum að vilja forða þeim veiðimönnum til þess eins að drepast svo úr hor.

Innlimunarruglið tekur sífellt á sig furðulegri myndir.


mbl.is Stjórni áfram svartfuglsveiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin í stríði við þjóðina

Enn ein skoðanakönnunin staðfestir að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar eru algerlega andvígir innlimun Íslands í væntanlegt stórríki ESB og aðeins þriðjungur gæti hugsað sér að afsala fullveldi landsins í hendur erlends valds.

Þessi síðasta könnun sýnir einnig að þeir sem eru andvígir innlimunninni eru mun ákveðnari í afstöðu sinni og ólíklegri til að skipta um skoðun en hinir, sem minna er annt um fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar.

Stuðningsmenn allra flokka, annarra en Samfylkingarinnar, vilja standa vörð um hag lands og þjóðar til framtíðar og þar á meðal eru kjósendur Vinstri grænna, sem láta þó Samfylkinguna teyma sig á asnaeyrunum í innlimunarferlinu.

Hvenær skyldi Samfylkingin láta af þessu stríði gegn Íslenskri þjóð og hagsmunum hennar?


mbl.is Mikill meirihluti vill ekki í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk réttarhöld - ópólitískur dómur

Ákærurnar gegn Geir H. Haarde voru pólitískur skollaleikur sem byggðist á hatri og hefndarhug andstæðinga hans og Sjálfstæðisflokksins á Alþingi og til þess hugsaðar að reyna að niðurlægja formamann flokksins og skaða flokkinn sjálfan til framtíðar.

Allur undirbúningur málsins og meðferð fyrir Alþingi byggðist ekki á neinu öðru en illvilja þeirra þingmanna sem að því stóðu og hatri þeirra og ofstæki á pólitískum andstæðingum.

Þrátt fyrir þennan pólitíska grunn málsins voru það mistök Geirs H. Haarde að segja að sektardómurinn fyrir að halda ekki sérstakan ráðherrafund um efnahagsþrengingarnar á árinu 2008 hafi litast af pólitískum áhrifum, enda dæma dómstólar landsins eingöngu eftir laganna bókstaf og það var auðvitað gert í þessu tilfelli eins og öðrum.

Yfirlýsing Geirs er þó skiljanleg í ljósi þeirra vonbrigða sem yfir hann helltust við uppkvaðningu dómsins og bættust þar með við það andlega álag sem hann hefur verið þjakaður af vegna þessara persónulegu og pólitísku árása sem hann varð að þola af hendi þrjátíuogþriggja fyrrum starfsfélaga sinna á Alþingi.

Lærdómurinn sem hlýtur að verða dreginn af þessu máli hlýtur að verða sá, að ákæruvald verði tekið af Alþingi, enda hefur það sýnt og sannað að það kann ekki með það vald að fara.


mbl.is Landsdómi ekki beitt í hefndarskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eru prófarkalesararnir?

Íslensk málnotkun líður fyrir sífellt minni tilfinningu á tilbrigðum tungumálsins og fjölbreytileika. Þetta leiðir til notkunar færri orða og hugtaka og kennsla í málfræði virðist vera síminnkandi í íslenska skólakerfinu.

Ein afleiðing þessa er afkáraleg beyging orða og nægir þar að nefna orðin diskur og fiskur því til staðfestingar. Nú er orðið landlægt að segja "disknum" í staðinn fyrir "diskinum" og eins virðist vera að fara fyrir "fiskinum", eins og sjá má í meðfylgjandi frétt, en þar er sagt að "fisknum" hafi verið mokað um borð í báta í netarallinu.

Ef ekki eru gerðar kröfur til blaðamanna lengur um góða kunnáttu í sínu eigin tungumáli, verður a.m.k. að gera kröfur til þess að prófarkalesarar hafi hana og "ritskoði" fréttir illa talandi fréttamanna.

Líklega er orðið of seint að bjarga þessum orðum frá misþyrmingu og að fast sé að verða í málinu að fisknum sé einfaldlega leyft að rotna á disknum.


mbl.is Fisknum mokað um borð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband