Bónus fyrir að minnka tekjur Símans?

Síminn hefur sagt upp níu starfsmönnum fyrir brot á starfsreglum, en þeir unnu við að hringja í viðskiptavini Símans og bjóða þeim upp á breytingu á áskriftarleiðum.  Fyrir hverja breytingu sem þessum starfsmönnum tókst að koma í gegn fengu þeir greiddan bónus, en í fégræðgi sinni slepptu þeir því að hafa samband við viðskiptavinina en breyttu eftir sem áður áskriftarleiðunum og hirtu bónusgreiðslur fyrir.

Venjulega greiða fyrirtæki starfsmönnum bónusa fyrir vel unnin störf sem leiða til aukinna tekna fyrir fyrirtækið og auka þar með hagnað þess.  Að vísu mun það hafa tíðkast í bönkunum fyrir hrun að greiða himinháa bónusa, þó starfsmennirnir væru alls ekki að skapa bönkunum meiri tekjur og aukinn hagnað, heldur þvert á móti eintómar loftbólur sem sprungu að lokum með mesta bankahruni sögunnar.

Mjög líklega hafa þeir viðskiptavinir Símans sem fengu símhringingar og boð um breyttar áskriftarleiðir talið að verið væri að bjóða sér hagstæðari kjör og lægri símareikninga og ef það er raunin er Síminn eina fyrirtækið sem heyrst hefur um, sem greiðir starfsfólki sínu bónusa fyrir að lækka tekjur fyrirtækisins og minnka þar með hagnað þess.

Voru þessar úthringingar kannski ekki í þágu viðskiptavinanna, heldur til að hækka reikninga þeirra og þar með auka tekjur og hagnað Símans sjálfs?


mbl.is Sakar starfsmenn að brjóta starfsreglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstakur saksóknari tveggja ára

Um þessar mundir eru tvö ár síðan Sérstakur saksóknari tók til starfa, embættið fór rólega af stað og allir muna eftir myndum í fjölmiðlunum af þeim sérstaka, sitjandi á skrifstofu sinni með galtómar hillur á bak við sig, bíðandi efir gögnum til að vinna úr.

Smátt og smátt óx embættinu fiskur um hrygg og starfsmönnum fjölgaði, Eva Joly var ráðin sem sérstakur ráðgjafi og vegna fyrri starfa hennar gat hún komið á tengslum við ýmsa vana rannsakendur erlendis og samvinna komst á við Special Fraud Office í Bretlandi og ýmsar aðrar stofnanir erlendis, sem sérhæfðar eru í rannsóknum á fjármálasvikum.

Vafalaust er unnið mikið og gott starf hjá embætti þess sérstaka, en þó er farið að gæta óþolinmæði í þjóðfélaginu vegna þess að ekkert er farið að sjást fyrir dómstólum af málum frá embættinu, nema eitt "smámál" þ.e. ákæran á hendur Baldri Guðlaugssyni fyrir að hafa selt hlutabréf sín í Landsbankanum á óheppilegum tíma og snýst málið um það, hvort hann hafi vitað um slæma stöðu bankans eða ekki.

Vonandi heldur saksóknarinn sérstaki upp á tveggja ára afmælið með útgáfu ákæra á hendur þeim sem sannarlega ollu bankahruninu með því að ryksuga allt fjármagn úr bankakerfinu innanfrá og settu með því bankana á hausinn ásamt nánast öllum fyrirtækjum sem þeir komu nálægt, innanlands og utan.

Raunverulegu skúrkarnir ganga allir lausir og senda þjóðinni og réttarkerfinu langt nef úr lúxusvillum sínum í auðmannahverfum nágrannalandanna.

Þjóðin bíður eftir að réttlætinu verði fullnægt vegna þessara mála. Sakfelling Baldurs Guðlaugssonar fyrir hlutabréfasölu dugar ekki.


mbl.is Aðalmeðferð í máli Baldurs hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein ESBlygi Samfylkingar

Samfylkingin virðist ekki geta stutt áhuga sinn á inngöngu í ESB með einni einustu sannri röksemd, heldur er haldið að almenningi alls kyns hálfsannleika og í mörgum tilfellum hreinum lygum.  Lengi hefur Samfylkingin klifað á því að vextir myndu lækka gríðarlega við upptöku evru og halda sér við þá lygasögu, þrátt fyrir að margsinnis hafi verið bent á að vextir eru ekki eins í öllum ESB löndum og fara algerlega eftir trausti á viðkomandi ríki og mörg ár munu líða, ef það verður þá nokkurntíma, sem Ísland mun njóta vaxtakjara eins og Þýskaland.

Þrátt fyrir að Lilja Mósesdóttir hafi sýnt fram á þessar staðreyndir með tilvísun til mismunandi vaxtakjara í Evrópu og þess að erlendar lánastofnanir lána ekki lengur til vandræðalanda, eins og Ísland sannarlega er og verður um mörg ár ennþá og ekki síst á meðan núverandi ríkisstjórn situr, en traust á henni erlendis er minna en ekkert, þá heldur Magnús Orri Schram áfram að falsa staðreyndir varðandi vaxtakjörin í Evrópu og þeirra kjara sem Íslendingum mun koma til með að bjóðast.

Endalaust er klifað á þeirri fölsun að verðtrygging íslenskra lána sé svo skelfileg, að hún ein réttlæti upptöku nýs gjaldmiðils og að verðbólga yrði úr sögunni hérlendis um leið og nýr gjaldmiðill yrði tekinn upp, þrátt fyrir að talsverð verðbólga sé einnig í ESBlöndum og fari vaxandi um þessar mundir.  Mismunurinn er sá, að í Evrópu er vaxtastiginu haldið yfir verðbólgunni, þannig að fólk í þeim löndum er ekki að fá neitt gefins frá bönkunum þar, frekar en hér.

Nú er verðbólga lítil á Íslandi og ekki horfur á að hún verði mjög mikil á næstu árum, þannig að ef einhvern tíma er tækifæri til að gera breytingu á lánakerfinu, er það núna.  Það verður að teljast undarlegt að andstæðingar verðtryggingarinnar skuli ekki rísa upp og krefjast afnáms verðtryggðra lána, fyrst þeir eru svona sannfærðir um að verðtryggingin sé upphaf og endir alls vanda skuldara.

Hér hefur oft verið bent á að það sé vaxtaokrið, sem sé vandamálið, en ekki verðtryggingin og því vekur það mikla furðu að engin umræða sé nú um afnám verðtryggingar og alls engin um vaxtaokrið, sem hér hefur tíðkast áratugum saman.  Jafnvel hefur verðtryggingunni verið kennt um hvað dýrt sé að taka lán þegar vextirnir hafa jafnvel verið 8-10% ofan á verðtrygginguna og í sumum tilfellum ennþá hærri.

Ef einhver vilji er til þess að taka upp alvöru hagstjórn á Íslandi, þá er hægt að gera það núna með krónunni, verðtryggðri eða óverðtryggðri, en að sjálfsögðu kallar slíkt á gjörbreytta hugsun almennings og stjórnmálamanna varðandi eyðslu og lántökur.

Sú hugarfarsbreyting þarf að eiga sér stað hvort sem gengið verður í ESB eða ekki og hvort sem skipt verður um gjaldmiðil eða ekki.  Óðaverðbólga með Evru myndi leiða hagkerfið í þrot á örfáum árum og skulduga einstaklinga líka, enda yrðu allir vextir breytilegir og alltaf hærri en verðbólgan.

 


mbl.is Segir vexti lítið lækka með upptöku evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Ásgeir lætur ekki bjóða sér neinar almúgagistingar

Fréttir berast nú af því að skilanefnd Landsbankans hafi leyst til sín lúxusíbúð Jóns Ásgeirs í New York og hafi nefndin leyst svítuna til sín á tvo og hálfan milljarð króna.  Íbúðin mun vera um 400 fermetrar að stærð og því leggur fermeterinn sig á rúmar sex milljónir króna og má benda á að fermeterinn í lúxusíbúðum hér á landi nær varla 10% af þessari upphæð.

Einnig hefur komið fram, að íbúðin var öll í skuld og fyrst skilanefndin er að hirða hana núna upp í skuldirnar hefur ekki verið greitt af þeim, frekar en af öðrum lánum sem Bónusgengið hefur tekið í gegnum tíðina.  Þá vakna líka spurningar um það, hvort Jón Ásgeir hafi greitt skatta af þeim hlunnindum sem hann hefur notið vegna afnota af þessu lúxussloti undanfarin ár, en venjulegir íslenskir skattaþrælar eru miskunnarlaust látnir greiða skatta af öllum hlunnindum sem þeir eru taldir njóta til viðbótar við laun sín.

Hafi lánið, sem hvíldi á íbúðinni verið á tiltölulega góðum vöxtum, t.d. 4%, hafa vaxtagreiðslur verið um eitthundrað milljónir króna á ári og þar sem Jón Ásgeir bjó ekki að staðaldri í þessari íbúð, því fasta búsetu hefur hann í lúxusvillu í London, hefur hver gistinótt kostað ótrúlegar upphæðir.  Ef miðað væri við að Bónusgengið hefði gist í íbúðinni í mánuð árlega hefur hver nótt kostað rúmlega 3,3 milljónir króna vegna vaxtanna einna saman og er þá annar rekstrarkostnaður ekki meðtalinn, en hann er án vafa verulegur.

Sem betur fer á Bónusgengið aðra lúxusíbúð í New York, þannig að þó hún sé ef til vill ekki eins dýr og þessi, sem nú var tekin upp í skuldir, verður að reikna með og vona að sæmilega fari um gengið þar, því ekki er hægt að reikna með að fólk sem vant er svona lúxus geti gist á hótelum þegar það á leið um stórborgina, eins og hver annar almenningur.

Að vísu eru til rándýr hótel í New York sem margir raunverulegir auðkýfingar láta sér nægja í heimsóknum sínum til stórborgarinnar, en íslenskar snobbfígúrur láta auðvitað ekki bjóða sér svoleiðis hótelsvítur, þótt rándýrar séu.

Enda ekki ástæða til að láta bjóða sér annað en það flottasta og dýrasta, þegar maður þarf aldrei að borga krónu fyrir það sjálfur, en það er einmitt mottó íslenskra auðróna, eins og þeir hafa verið kallaðir, algerlega að ósekju auðvitað. 

 


mbl.is Íbúð Jóns Ásgeirs í hendur Landsbankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattahækkanir vegna Icesave III

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, minnir á í viðtali við mbl.is að daginn eftir samþykkt Icesave III þurfi að hækka skatta um 26,1 milljarð króna vegna þeirrar greiðslu sem ríkið þyrfti að inna af hendi strax á þessu ári í vaxtagreiðlsu venga ólögvörðu kröfunnar, sem með samþykktinni á lögunum yrði að lögvarinni skuld íslenskra skattgreiðenda.

Hræðsluáróðurinn núna gengur út á að allt of mikil áhætta sé við það að fara "dómstólaleiðina" með málið, þrátt fyrir að ALLIR viðurkenni núna að aldrei hafi verið gert ráð fyrir ríkisábyrgð á tryggingasjóðum innistæðueigenda, hvorki samkvæmt tilskipunum ESB né íslenskum lögum. Þetta hafa meira að segja háttsettir embættismenn Framkvæmdastjórnar ESB staðfest, ásamt öllum lögspekingum íslenskum og erlendum sem um málið hafa fjallað.

Því er algerlega óskiljanlegt hvað á að vera svona hræðilegt við "dómstólaleiðina", þar sem vægast sagt litlar líkur eru á því að hugsanleg dómsniðurstaða gæti orðið Íslendingum óhagstæð og þar að auki myndi dómur EFTAdómstólsins alls ekki vera aðfararhæfur hér á landi. Færi allt á versta veg og mál yrði rekið fyrir íslenskum dómstólum og tapast þar, er ótrúlegt að Bretum og Hollendingum yrðu dæmdir hærri vextir af kröfunni en þeir hafa samþykkt nú þegar.

Það er lágmarkskrafa að þeir sem tala fyrir samþykkt laganna í þjóðaratkvæðagreiðlsunni útskýri í hverju þeir telja þessa miklu áhættu felast og ekki síður verða þeir að segja skýrt og skorinort hvaða skatta á að hækka og hvaða nýja skatta þarf að finna upp til að greiða þessa kröfu, sem aldrei hefur verið á ábyrgð skattgreiðenda og jafnframt af hverju ætti að samþykkja ríkisábyrgð á hana núna, fyrst aldrei var gert ráð fyrir slíku áður.

Einnig verður að útskýra hvers vegna ætti að setja slíkt fordæmi, þar sem meirihluti íslenska bankakerfisins er nú í eigu útlendinga. Vilja þeir sem ætla að samþykkja Icesave III taka á sig ábyrgð á þessum bönkum til ófyrirséðrar framtíðar?

Öllu þessu verða þeir sem fjárkúgunina vilja samþykkja að svara undanbragðalaust.


mbl.is Icesave þýðir hærri skatta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjör á kaffistofu saksóknara

Settur saksóknari efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, Alda Hrönn Jóhannesdóttir, hefur kært Helga Magnús Gunnarsson, forvera sinn í starfi, vegna ærumeiðinga, en Helgi Magnús var í haust skipaður varasaksóknari í Landsdómsmáli gegn Geir H. Haarde.  Alda Hrönn kærði vegna ærumeiðinga í sinn garð sem einhver sagði henni að Helgi Magnús hefði viðhaft á göngum embættisins.

Ríkissaksóknar hefur vísað kærunni frá, enda hafi ekkert lögbrot verið framið með þessum meintu ummælum, sem Alda Hrönn heyrði ekki, en eins og oft gerist þegar einhver er baktalaður á göngum efnahagsbrotadeildar, þá kjaftar einhver frá enda frumskylda rannsóknarlögreglumanna, ekki síst efnahagsbrotadeildar, að fylgjast með því hvað hver segir um hvern á göngunum og koma því til skila til þess sem baktalaður er hverju sinni.

Þegar Helgi Magnús tekur aftur við stöðu sinni og Alda Hrönn verður aftur undirmaður hans hlýtur að mega reikna með að fjör færist í leikinn í húskynnum embættisins, bæði á göngunum og ekki síður á kaffistofunni, þar sem allir geta keppst við að segja hver öðrum hvað þessi og hinn sagði um viðkomandi á bak hans.  Umræðuefnin verða sjálfsagt óþrjótandi og kærurnar eftir því. 

Þetta mál varpar skýru ljósi á hvernig fullorðið fólk starfar í opinberum embættum og hvernig andrúmsloftið hlýtur af vera á vinnustöðunum. 

Svo er fólk undrandi á því, að lítið skuli ganga í rannsóknum sakamála í landinu.


mbl.is Kæru vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfi, raðmannorðsníðingarnir á DV og bílarnir

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hugleiðir að stefna DV fyrir persónuníð og meiðyrði og er það í sjálfu sér engin frétt, að þeim raðmannorðsníðingum skuli stefnt fyrir slíkar sakir því enginn fjölmiðill hefur verið dæmdur jafn oft fyrir mannorðsníð, svo oft reyndar að enginn kippir sér upp við það lengur.

Athygli vekja hins vegar ummæli Gylfa um bílategundir, en um þær segir hann m.a:  "Ég íhuga það nú mjög alvarlega að stefna DV fyrir persónuníð og meiðyrði vegna þessarar fréttar um mína persónuhagi. Ég get alls ekki unað því að almenningi sé með svo óábyrgum hætti talið trú á að ég aki um á Toyota Land Cruiser jeppa þegar hið sanna er að ég hef lengi verið annálaður Nissan Patrol aðdáandi."

Sem sannur Toyotaunnandi verð ég að íhuga alvarlega að leita réttar míns gagnvart Gylfa, því með þessum orðum sínum gæti hann verið að verðfella átta ára gamlan Rav4 jeppling minn, því ekki er hægt að skilja orð hans á annan veg en þann, að Toyota bílar séu bara druslur í samanburði við Nissan.

Þar sem enginn tekur mark á DV eru litlar líkur til þess að umfjöllun þess blaðs um Gylfa verði honum til tjóns og í því ljósi verður að velta fyrir sér hvort álit Gylfa á jepplingstegundinni minni verði til nokkurs skaða, ef miðað er við það álit sem Gylfi hefur keppst við að ávinna sjálfum sér undanfarið.

En manni getur nú sárnað, þegar gert er lítið úr bílnum manns.


mbl.is Íhugar að stefna DV fyrir persónuníð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræktun eldsneytis

Joule Unlimited, bandarískt líftæknifyrirtæki, hefur upplýst að það sé búið að finna upp tækni til að geta ræktað eldsneyti með sömu þáttum og fá gras til að vaxa. Það sem til þurfi sé eingöngu sól, vatn og koldioxíð og þannig verði hægt að rækta plöntu sem gefur frá sér eldsneyti eða etanól.

Í fréttinni kemur m.a. fram að: "Erfðafræðileg ræktun fyrirtækisins muni gera því kleyft að framleiða eldsneyti á áður óþekktu verði. Heimurinn geti í kjölfarið orðið óháður hefðbundnum orkulindum og tæknin tryggi að ekki muni þurfa að styðjast við olíu og bensín í framtíðinni."  Áður hafa birst fréttir af því að ræktun annarra plantna til að framleiða eldsneyti sé sívaxandi t.d. á repju og er meira að segja byrjað að gera tilraunir með slíka ræktun hérlendis í þeim tilgangi að framleiða olíu sem nota megi til að knýja bíla og skip.

Þessi tækni er auðvitað stórmerkileg, enda eru olíuauðlindir heimsins ekki óþrjótandi og því líklega aðeins tímaspursmál hvenær þær þorna upp og auðvelt er að ímynda sér öngþveitið sem skapast myndi á vesturlöndum og víðar, verði ekki komin fram tækni sem leysa myndi olíuna af hólmi.

Ef rækta ætti allt það eldsneyti sem veröldin mun þarfnast í framtíðinni hlýtur að þurfa til þess gríðarlegt landflæmi og vandséð hvar allt það ræktarland ætti að fyrirfinnast, enda mun mannkyninu fjölga svo ört á næstu átatugum, að skorta mun land til matvælaframleiðslu og hvað þá til eldsneytisræktunar.

Fólk mun þurfa að hugleiða vandlega hvort réttlætanlegt sé að taka dýrmæt og gjöful landssvæði til ræktunar á bíla-, skipa- og flugvélaeldsneyti á meðan helmingur mannkyns sveltur og mikil andstæða er meira að segja við því að auka matvælaframleiðslu með erfðabreytingu jurta, sem myndi auka vaxtahraða þeirra. 

Tækniframförum ber að fagna, en hugsa verður málin frá öllum sjónarhornum. 

 


mbl.is Framleiða eldsneyti úr sól, vatni og koldíoxíði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr til skammar eins og venjulega

Ekki þurfti að spyrja að því að um leið og Jón Gnarr stígur á erlenda grundu, þá þurfa Reykvíkingar að byrja að skammast sín fyrir að hann skuli gegna embætti borgarstjóra í Reykjavík.

Ekki bætir Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi og samstarfsmaður Jóns, um betur, heldur bætir í skömmina með óviðeigandi ummælum um stjórnmálin í gistilandi þeirra félaga um þessar mundir, Írland.

Samkvæmt fréttinni hrutu eftirfarandi molar úr munni þeirra félaga: "Írar ganga nú til þingkosninga og segir Einar Örn í samtali við blaðið að ef marka megi auglýsingaspjöldin vegna kosninganna sé lítil sköpun í stjórnmálunum á Írlandi.Athygli vekur að Jón tekur upp hanskann fyrir ríkisstjórn VG og Samfylkingar með þeim orðum að hún hafi ekki fengið þá viðurkenningu sem hún eigi skilið fyrir viðleitni sína til að rétta þjóðarskútuna af eftir fjármálahrunið."

Fram að þessu hefur það ekki þótt viðeigandi og alls ekki fyndið að vera með opinberar yfirlýsingar um stjórnmálaflokka og kosningabaráttu þeirra í opinberum heimsóknum erlendra fulltrúa og í anda smekkleysunnar bætir svo Jón Gnarr við lélegum brandara um ríkisstjórn Samfylkingar og VG, sem vonlaust er að reikna með að erlendir aðilar skilji.

Einu er algerlega hægt að treysta í sambandi við Jón Gnarr og félaga.  Hvar sem þeir koma eru þeir sjálfum sér og Reykvíkingum til háborinnar skammar. 


mbl.is Jón Gnarr í Dublin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfir í aurana, en kastar krónunum

Atli Gíslason, þingmaður VG, vill skipa 25menningana, sem talið er að hafi fengið flest atkvæði í ólöglegu stjórnlagaþigskosningunum, í stjórnlagaráð sem á að verða ráðgefandi fyrir Alþingi um breytingar á stjórnarskránni. Skýringin er sú að Atli vill ekki eyða mörg hundruð milljónum króna í nýjar kosningar og einnig verðir hægt að spara háar fjárhæðir með því að nýta aðstöðu Alþingis í sumar fyrir fundi þessa ráðgjafaráðs.

Í fréttinni er hins vegar haft eftir Atla: "Tilgangurinn er að breyta stjórnarskránni og menn eru almennt um það að það þurfi að endurskoða stjórnarskrána. Sú vinna er 90-95% búin. Það liggja fyrir tillögur frá fyrri stjórnarskrárnefndum, bæði um auðlindirnar og sitthvað fleira. Það er hlutverk forsætaembættisins og eitt og annað sem þarf að skoða betur. Það er búið að vinna óhemju vinnu í stjórnarskrárbreytingum allt frá árinu 2001, ef ég man rétt. Síðan komu fram tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur og fleira á vorþingi 2009. Hugmyndir liggja fyrir að mjög miklu leyti. Það er hægt að moða úr þeim."

Ekki er ástæða til að rengja Atla með að 90-95% vinnunnar við endurskoðun stjórnarskrárinnar sé þegar búin og að aðeins sé eftir að ganga frá nokkrum atriðum, enda búið að vinna við þessar breytingar frá árinu 2001, ef Atli man rétt.  Með þessar staðreyndir í huga, er alveg með ólíkindum að nokkrum skyldi yfirleitt detta í hug að eyða hundruðum milljóna í stjórnlagaþing, sem síðan stendur til að breyta í stjórnlagaráð.

Þetta kallar maður að spara eyrinn en kasta krónunni.  Auðvitað var ekki við öðru að búast af þessari endemis klúðursstjórn, sem landið er svo ólánssamt að hafa hangandi yfir sér um þessar mundir. 


mbl.is Atli: Horfi bara í aurana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband