10.4.2011 | 12:31
Steingrímur byrjaður að draga úr dómsdagsspánum
Ein helsta röksemd Steingríms J., ríkisstjórnarinnar og annarra talsmanna samþykktar þrælalaganna var sú, að stór hætta væri á því að Moody's myndi lækka lánshæfismat Íslands og þar með yrði nánast lokað fyrir aðgang ríkisins að erlendum fjármálamörkuðum.
Nú, á fyrsta degi eftir kosningar, þar sem þjóðin hafnaði með afgerandi hætti að selja sig í skattaáþján vegna brota óheiðarlegra fjármógúla, dregur Steingrímur J. í land með fyrri fullyrðingar en staðfestir það sem NEIsinnar héldu fram allan tímann, þ.e. að Moody's og lánshæfiseinkunnir þess hefðu ekki mikil áhrif á næstunni.
Samkvæmt fréttinni sagði Steingrímur t.d. þetta, á blaðamannafundi í morgun: "Íslenska ríkið mun ekki eiga í neinum erfiðleikum með að greiða skuldir sínar. Gjaldeyrisforðinn nægir fullkomlega fyrir afborgunum á næstu árum."
Það er auðvitað hárrétt afstaða hjá Steingrími J., að hætta nú bölmóðinum og hrakspánum um framtíðina og fara að segja þjóðinni sannleikann um þau baráttutæki sem þjóðin hefur yfir að ráða í glímunni við endurreisn efnahagslífsins, byrja að tala kjark í þjóðina og máli hennar gagnvart innlendum og erlendum yfirgangsöflum.
Þjóðaratkvæðagreiðslan er að baki og þar með ætti að leggja til hliðar allar umræður um Icesave, enda mun það mál einfaldlega hafa sinn eðlilega gang, hvort sem það fer fyrir dómstóla eða ekki og Bretar og Hollendingar munu fá nánast allt sitt úr búi Landsbankans vegna Neyðarlanganna.
Framtíð lands og þjóðar er björt, en það mun þurfa að hafa fyrir hlutunum, eins og jafnan áður.
![]() |
Ísland getur greitt skuldir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.4.2011 | 07:24
Mögnuð niðurstaða kosninga
Ástæða er til að óska þjóðinni til hamingju með niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um þrælalögin sem felld voru með afgerandi hætti, svo afgerandi, að varla mun verða reynt frekar að troða þeim ofan í kok landsmanna með ógnunum og ofbeldi af hálfu Breta, Hollendinga, ESB og íslensku ríkisstjórnarinnar.
Afstaða kjósenda var eindregin gegn lögunum í öllum kjördæmum, nema Reykjavík suður og verða það að teljast ein af merkum niðurstöðum kosningannna, að þær sýna að hugsunarháttur manna breytist nokkuð, því nær sem dregur 101 Reykjavík.
Eftir þessa niðurstöðu mun þjóðin vonandi leggja niður allar deilur um þetta mál og snúa sér óskipt og sameinuð að uppbyggingu og endurreisn atvinnulífsins og taka á þeim erfiðleikum sem þessari niðurstöðu fylgir, ef þeir þá einhverjir verða. Viðbrögð forystumanna ríkisstjórnarinnar í sjónvarpssal við úrslitunum gefa þó ekki góðar vonir um baráttuvilja og - þrek ráðherranna.
Þessi úrslit kosninganna munu án vafa vekja heimsathygli og almenningur í öðrum löndum mun taka þeim sem hvatningu til aðgerða gegn hvers kyns tilraunum til að velta skuldum glæpsamlega rekins fjármálakerfis yfir á skattgreiðendur. Vonadi breytir þetta einnig því hugarfari ráðamanna, að sjálfsagt sé að gera skattgreiðendur að vinnu- og afplánunardýrum fyrir glæpagengi.
Risinn er nýr dagur, með nýjum áskorunum og markmiðum.
![]() |
Yfir 58% hafna Icesave-lögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.4.2011 | 08:11
Sjálfstæði - Þorskastríð - Icesave
Árið 1944 var samstaða þjóðarinnar um að lýsa yfir sjálfstæði Íslands alger og allir Íslendingar tilbúnir til að takast á við að berjast fyrir lýðveldið Ísland, þrátt fyrir fyrirséða erfiðleika, fátækt og basl, sem því yrði samfara til að byrja með. Sjálfstæðinu var lýst yfir í óþökk Dana, sem áður voru herrar landsins og tók þá nokkra áratugi að fyrirgefa "svik" Íslendinga.
Eftir miðja síðustu öld færðu Íslendingar út landhelgina í nokkrum skrefum, fyrst úr fjórum mílum í fimmtíu og síðar úr fimmtíu í tvöhundruð mílna fiskveiðilögsögu. Í bæði skiptin var það gert í algerri óþökk annarra þjóða, t.d. Þjóðverja, Hollendinga, Belga, Breta o.fl. Í bæði skiptin sendu Bretar flota sinn á Íslandsmið til verndar togurum sínum og við lá að þeir stórslösuðu og jafnvel dræpu íslenska varðskipsmenn í tilraunum sínum við að sökkva skipunum undan þeim, en svo er forsjóninni fyrir að þakka að það tóks ekki, en skipin voru hins vegar stórlöskuð eftir þau átök.
Í Þorskastríðunum stóðu Íslendingar þétt saman gegn yfirgangi og ofbeldi Breta og tóku á sig ýmsa efnahagslega erfiðleika sem fylgdu þessari réttindabaráttu. Bretar, sem áður voru helsti innflytjandi fisks frá Íslandi, settu löndunarbann á Íslensk fiskiskip og settu þar með gríðarlega efnahagslega pressu á afkomu Íslendinga, sem þó létu ekki kúga sig til uppgjafar og þrátt fyrir mun lægra útflutningsverð fundust aðrir markaðir fyrir fiskinn og þá aðallega í vöruskiptum við Sovétríkin sálugu.
Í dag gefst Íslendingum enn á ný tækifæri til að sýna hvað í þeim býr, þegar þeir standa frammi fyrir þvingunum og hótunum um efnahagslegar refsiaðgerðir, verði þeir ekki við ólöglegum kröfum erlendra kúgunarþjóða, þar sem Bretar eru í broddi fylkingar eins og áður og hafa meðal annars beitt hryðjuverkalögum í þeim tilgangi að koma íslensku efnahagslífi endanlega á kné.
Í kosningunum í dag velur þjóðin um að sýna stolt sitt, sjálfstæði og baráttuvilja fyrir réttindum sínum með því að seja NEI við að selja sig í skattaþrældóm fyrir Breta og Hollendinga til næstu ára- eða áratuga vegna skulda óreiðumanna, sem skattgreiðendur bera enga ábyrgð á. Kjósendur hafa einnig þann valkost að segja JÁ í þessari atkvæðagreiðslu, en með því er umheiminum sýnt fram á að sá baráttuandi sem áður einkenndi þessa þjóð er henni horfinn úr brjósti og ný kynslóð sé ekki tilbúinn til að leggja á sig nokkurt erfiði þjóð sinni og landi til varnar á örlagastundu.
Valið í dag stendur á milli þess að sýna umheiminum að hér búi ennþá sjálfstæð og stolt þjóð, sem ekki lætur troða á rétti sínum, eða baráttusnauðar undirlægjur sem öllu eru tilbúnar að fórna vegna ótta við einhverja erfiðleika sem þjónkunarsinnar erlendra kúgara hóta að beita þá, gangi þeir ekki skilyrðislaust að fjárkúgunarkröfunum.
Þessu verður best svarað með því að merkja við NEI á kjörseðlinum.
![]() |
Stefnir í mikla kosningaþátttöku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.4.2011 | 07:34
Íslendingar sýni ábyrgð og fyrirmynd
Ef ríkisábyrgð á ólöglegar kröfur vegna glæpsamlegs reksturs Landsbankans verður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun mun verða skrifaður stór og áhrifamikill kafli í Íslandssöguna.
Þá munu Íslendingar sýna umheiminum að þeir láta ekki fjárkúgara ógna sér til að selja sjálfa sig og börn sín í skattaþrælkun vegna tilbúinna krafna, sem koma rekstri ríkisins og velferðarkerfi þjóðarinnar ekkert við.Íslenskur almenningur lét bankagengin blekkja sig með fagurgala til að taka erlend lán, með "afar hagstæðum kjörum" til íbúða- bíla- og neyslukaupa allskonar og eru enn að glíma við afleiðingar þeirra mistaka.
Sá sami almenningur mun varla fara að samþykkja að taka á sig ábyrgð á nýjum erlendum kröfum, sem honum kemur ekki á nokkurn hátt við, með áhættu upp á mörg hundruð milljarða og jafnvel þó ekkert af höfuðstólnum félli á skattgreiðendur, þá yrðu þeir a.m.k. látnir greiða tugi milljarða í vexti af gegnistryggðum höfuðstól, sem þeir skulda ekki.
Almenningur í öðrum löndum lítur til Íslands í þeirri von að héðan komi fordæmi fyrir aðra í baráttunni gegn þeirri einkennilegu áráttu stjórnmálamanna að taka þátt í því að skella mistökum og glæpum fjármálageirans í veröldinni á skattgreiðendur og líta á þá eins og hver önnur vinnu- og afplánunardýr fyrir glæpagengi.
Að endingu skal tekið heilshugar undir þessi orð Evu Joly: Augu heimsins hvíla nú á íslensku þjóðinni, sem hefur hingað til hafnað öllum Icesave-kröfum; kröfum um að ganga í skilyrðislausar ábyrgðir fyrir fjármálageirann. Það er mín von að þessi jákvæði baráttuandi muni hafa yfirhöndina í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
![]() |
Augu umheimsins á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
7.4.2011 | 12:59
Harður, en góður dómur
Baldur Guðlaugsson, fyrrv. ráðuneytisstjóri, hefur verið sakfelldur í Héraðsdómi fyrir innherjasvik með sölu hlutabréfa sinna í Landsbankanum, skömmu fyrir fall hans, enda taldi dómarinn að Baldur hefði búið yfir upplýsingum sem almenningi voru huldar um stöðu bankans og að hluthöfum hans yrði ekki bjargað, þegar og ef bankinn færi á hausinn.
Baldur er í raun smápeð í þeirri ótrúlegu fjármálaskák sem tefld var í aðdraganda bankahrunsins og sú upphæð sem hans "viðskipti" snerist um, séu algerir smáaurar miðað við fjármálagerninga aðalleikara þeirrar refskákar allrar. Því verður þessi dómur að teljast nokkuð harður, en þó góður og sanngjarn og gefur vísbendingu um að ekki verði tekið neinum vettlingatökum á þeim sem stærri og meiri brot frömdu á árunum fyrir bankahrun.
Vegna þess hve hægt hefur gengið í rannsóknum meintra sakamála, tengdum banka- og útrásargengjunum, hefur almenningur haft á tilfinningunni að réttvísin myndi ekki ná fram að ganga gagnvart þessum kónum, en dómurinn í dag mun auka bjartsýni á að réttlætið muni ná fram að lokum.
Dómurinn í dag, sem vonandi verður staðfestur í Hæstarétti, gefur tóninn um langa fangavist þeirra sem dæmdir verða að lokum fyrir "bankaránin innanfrá" og þá munu ýmsir sem hátt hafa hreykt sér fram að þessu, þurfa að beygja hné og höfuð í skömm sinni, án þess þó að viðurkenna nokkurn tíma sekt sína.
Niðurstaðan er sem sagt sú, að dómurinn er vísbending um að þeir sem komu þjóðinni á kaldan klaka muni að lokum fá makleg málagjöld.
![]() |
Baldur í 2 ára fangelsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
6.4.2011 | 20:48
Neikvæður áróður JÁsinna
Þær marktæku skoðanakannanir sem birst hafa fram að þessu, hafa allar sýnt að meirihluti kjósenda myndi segja JÁ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave og selja þar með sjálfa sig og aðra Íslendinga í skattalegan þrældóm næstu ár, jafnvel áratugi, til greiðslu á vöxtum og hluta höfuðstóls ólöglegra krafna Breta og Hollendinga vegna glæpsamlegrar bankastarfsemi, sem almenningur gat ekki og hafði ekki nokkra aðkomu að.
Síðustu daga hafa dunið á landsmönnum gífurlegur hræðslu- og ógnaráróður JÁsinna, en eins og áður virkar slík baráttutækni alveg öfugt, enda hafa hlutföll svarenda algerlega skipst samkvæmt nýjustu skoðanakönnun MMR, sem gerð var fyrir Stöð 2 og með sama áframhaldi mun barátta JÁsinna skila stórsigri þeirra, sem ekki hafa viljað láta neyða sig til meiri skattaþrælkunar, en þarf til að koma ríkissjóði út úr sínum eigin fjárlagavanda. Þykir flestum nóg um þær álögur allar, enda sér enginn fram á að núverandi ríkisstjórn leysi úr kreppunni með aðgerðum sem greitt gætu fyrir atvinnuuppbyggingu og hagvexti.
Þó ekkert sé öruggt ennþá með hvernig þessar kosningar fara, þá er a.m.k. búið a sanna enn einu sinni, að kjósendur láta ekki stjórna sér með skrumi og hótunum.
![]() |
57% ætla að segja nei |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.4.2011 | 14:16
Allar kauphækkanir beint í Icesave - annars óbreytt laun?
SA og ASÍ hafa sameiginlega gefið út þá yfirlýsingu, að verði þrælasamningurinn um Icesave ekki samþykktur á laugardaginn, þá verði ekki um neina kjarasamninga að ræða, a.m.k. ekki nema þá til skamms tíma með afar litlum, sem engum, kauphækkunum.
Þetta er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo, að reikna eigi með að allar launahækkanir næstu ára skuli ganga nánast beint til Breta og Hollendinga verði þrælasalan samþykkt, en að öðrum kosti fái launþegar engar kjarabætur, enda geti þeir þá lifað af óbreyttum tekjum, losni þeir við að borga þrælaskattinn til hinna erlendu drottnara.
Aldrei í sögunni hafa aðrar eins yfirlýsingar komið frá aðilum vinnumarkaðarins í tengsum við kjarasamninga.
Stórfurðulegt er að lítið vandamál virðist hafa verið að samstilla ASÍ og SA í þessu efni.
Hafa þessi samtök einhverjar samþykktir félaga sinna á bak við þessar hótanir?
![]() |
Fundur í kvöld eða fyrramálið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.4.2011 | 18:37
Jón Gnarr bullar í gegn um sjálfan sig
Jón Gnarr, hinn algerlega óhæfi borgarstjóri Reykjavíkur, virðist hafa farið mikinn á borgarstjórnarfundi í dag og ásakaði þar m.a. þúsundir foreldra í borginni um að hafa hvorki vit á barnauppeldi eða skólamálum, en þóttist hins vegar sjálfur vera mikill snillingur á þeim sviðum, eins og honum finnst hann vera á flestum öðrum. Ekki eru þó margir sem sammála eru honum um að hann hafi sýnt hæfileika sína í einu eða neinu öðru en uppistandi og grínleik.
Eitt "gullkornið" sem hraut út úr þessum mislukkaða borgarstjóra á fundinum var eftirfarandi, eftir að hafa hellt sér yfir einn borgarfulltrúann með gagnrýni sem var á algjörum misskilningi byggð, samkvæmt fréttinni: "Jón sagðist biðjast velvirðingar hefði hann farið ranglega með. Hann vildi þó segja, að hann væri að minnsta kosti maður til að tala fyrir sig sjálfur og þurfi ekki að tala í gegnum Davíð Oddsson og Agnesi Bragadóttur."
Ómögulegt er að skilja af þessum orðum, hverjir það eru sem tala í gegn um Davíð Oddsson og Agnesi Bragadóttur, því varla eru það þeir borgarfulltrúar sem ræða málin úr ræðustóli borgarstjórnar, svo sneiðinni hefur þá væntanlega verið beint til foreldra leik- og grunnskólabarna borgarinnar, sem þó hafa í eigin persónu haldið tilfinningaþrungnar ræður á opnum borgarafundum og skilað áskorunarlistum með þúsundum nafna í mótmælaskyni við illa grundaðar tillögur hins volaða meirihluta í borgarstjórninni.
Skyldi vera til of mikils mælst, að borgarstjórinn í Reykjavík segi einhvern tíma eitthvað af viti, þegar hann kýs að tjá sig opinberlega, en verði sér og borginni ekki alltaf til skammar og aðhláturs.
![]() |
Pólitísk skemmdarverk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
5.4.2011 | 08:51
"Bæjarins bestu" að öðlast heimsfrægð
Minnsti veitingastaður landsins og einn sá elsti er um það bil að öðlast heimsfrægð, en Victoria Haschka, matar- og ferðapistlahöfundur, fer fögrum orðum um þennan íslenska þjóðarrétt og mekka hans, pylsuvagninn við hafnarbakkann í Reykjavík.
Áður höfðu "Bæjarins bestu" öðlast sínar 15 mínútur af frægð í heimspressunni, þegar Bill Clinton þáði þar veitingar í heimsókn sinni hingað til lands um árið, en að vísu þurfti hann að fara í hjartaþræðingu skömmu síðar, en engar sannanir hafa fundist fyrir því að SSpylsan hafi átt þar nokkra sök.
Þessi ágæti pylsuvagn er búinn að þjóna Reykvíkingum í áratugi og pylsurnar þar hafa eitthvert alveg sérstakt "leynibragð", sem engum öðrum tekst að jafna og því á staðurinn sinn trausta viðskiptahóp, eins og biðröðin sem þar er alla jafna sýnir glöggt.
Vonandi mun þetta frábæra pylsuveitingahús fá að standa óhreyft á sínum stað í marga áratugi ennþá og veita gleði, birtu og yl inn í hjörtu bæjarbúa.
Hátíðlegri en þetta getur umsögn um veitingastað varla orðið.
Takk fyrir mig.
![]() |
Íslenska pylsan slær í gegn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.4.2011 | 16:51
Vandamál veraldarinnar leyst á kostnað Íslendinga?
Guardian fjallar í dag um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort veita skuli ríkisábyrgð á kröfur Breta og Hollendinga á hendur Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta, með tilheyrandi vaxtakostnaði upp á tugi milljarða sem lenda myndi á íslenskum skattgreiðendum, fyrir utan áhættu á tuga- eða hundraðamilljarða viðbótargreiðslum vegna höfuðstóls.
Blaðið segir stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi naga á sér neglurnar í ótta sínum um að íslenskir kjósendur sýni þá skynsemi að fella lögin í kosningunum, enda vilja þau síst af öllu að málið fari fyrir EFTAdómstólinn, þar sem líklegasta niðurstaðan yrði sigur Íslendinga, enda engin ESBlög sem geri ráð fyrir slíkum ríkisábygðum. Ef einhvern tíma og einhversstaðar hefði verið gert ráð fyrir ábyrgð skattgreiðenda á tryggingasjóðum, þá þyrfti auðvitað ekki að neyða Íslendinga til að samþykkja slíkt núna.
Í fréttinni segir m.a: "Afgerandi lagalegri niðurstöðu í þá veru yrði ekki fagnað á alþjóðavettvangi þar sem að hún myndi varpa ljósi á það hversu gríðarlega illa fjármagnaðir innistæðutryggingasjóðir í Bretlandi, Hollandi og í raun í öllum heiminum eru."
Því verður seint trúað, að íslenskir skattgreiðendur taki sjálfviljugir á sig tuga- eða hundraðamilljarða kostnað til þess eins að setja fordæmi um að allir skattgreiðendur veraldarinnar verði hnepptir í slíkan skattaþrældóm fyrir glæfralega bankastarfsemi, sem nánast alls staðar hefur þrifist undanfarin ár.
Íslendingar hljóta að vera nógu ábyrgir þjóðfélags- og alheimsþegnar til að segja risastórt NEI, þann 9. apríl n.k.
![]() |
Bretar og Hollendingar sagðir óttast dómstólaleiðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)