Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Ríkið á ekki að niðurgreiða launakostnað einkafyrirtækja

Það eru orð í tíma töluð að tímabært sé að fyrirtækin á almenna markaðinum sjái sjálf um að standa undir launakostnaði fyrirtækja sinna.  

Forstjórar og aðrir yfirmenn, ásamt stjórnarmönnum einkafyrirtækja hika ekkert við að hækka sín eigin laun, en væla síðan um aðkomu ríkissjóðs þegar lægst launaða fólkið krefst mannsæmandi launa.

Ríkissjóður á ekki að niðurgreiða launagreiðslur á almennum vinnumarkaði og er full ástæða til að halda eftirfarandi orðum Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, til haga og hljóta allir að geta verið sammála honum í þessu efni:

„Ég tel að at­vinnu­rek­end­um í land­inu hafi tek­ist um of að velta ábyrgðinni á því að gera bet­ur við þá sem eru í lægstu launa­flokk­un­um í fangið á rík­inu. Það er ekk­ert eðli­legt við það að með þau bóta­kerfi sem við erum með og tekju­skatt­s­kerfið eins og það er í dag, þar sem að ríkið sér ekki eina krónu af laun­um upp í 240.000, að það sé áfram þannig að það sé vanda­mál rík­is­ins að bæta bet­ur hlut þessa fólks,“ sagði Bjarni og bætti við að sá tími hlyti að koma að at­vinnu­rek­end­ur taki að sér að greiða mann­sæm­andi laun til þeirra tekjuminnstu. „Það get­ur ekki bara verið vanda­mál rík­is­ins.“


mbl.is Ekki bara vandamál ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannslíf fyrir kauphækkun?

„Það er mat sér­fræðinga okk­ar að raun­veru­leg hætta sé á að ein­hver hafi skaðast vegna af­leiðinga verk­falls­ins, muni gera það eða jafn­vel láta lífið,“ sagði Páll Matth­ías­son, for­stjóri spít­al­ans, meðal ann­ars í föstu­dagspistli sem birt­ur var á heimasíðu sjúkra­húss­ins.

Þegar svona er komið, eins og fram kemur í pistli forstjóra Landspítalans, er mál að linni.  Hvað er hægt að réttlæta að mörgum mannslífum verði fórnað fyrir hvern tíuþúsundkall sem hægt verður að kreista í kauphækkanir með þessum þjösnalegu verkfallsaðgerðum?

Auðvitað er ekki réttlætanlegt að fórna einu einasta mannslífi í kjarabaráttu og þar sem engar líkur virðast vera á því að samningar náist um kjör opinberra starfsmanna fyrr en búið verður að semja á almenna vinnumarkaðinum verður hreinlega að stöðva verkfall heilbrigðisstarfsmanna með lagasetningu.

Auðvitað þaf að fylgja slíkri aðgerð trygging fyrir því að heilbrigðisstéttirnar fái sambærilega kjarabót og aðrir eftir að vinnudeilum lýkur.

Óbreytt ástand með þeirri lífshættu sem fylgir er algerlega óásættanlegt.


mbl.is Kom verulega á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðlindasjóðshugmyndin er stórgóð, þó hún sé ekki alveg ný

Hugmyndin um auðlegðarsjóð er bæði góð og nauðsynleg, enda ætti reynslan að hafa kennt Íslendingum að dýfur og skellir í efnahagslífinu hafa frekar verið regla en undantekning allan lýðveldistímann og ríflegur varasjóður hefði oft bjargað þjóðinni frá efnahagslegum hörmungum.

Þetta er þó ekki alveg ný hugmynd, því eins og sjá má hér að neðan var einmitt bloggað hérna um slíkan sjóð í janúar 2012:

 24.1.2012 | 16:06

Auðlindagjald fari ekki beint í eyðsluhítina

Nefnd um stefnumörkun í auðlindamálum leggur til að innheimt verði svokölluð auðlindarenta af öllum afnotum auðlinda landsins og er það að sjálfsögðu ekkert annað en sjálfsagt mál.

Sjálfsagt verða menn svo aldrei sammála um hversu hár slíkur skattur á að vera á hverjum tíma. Nefndin leggur hins vegar til að auðlindarentan renni beint í ríkishítina og verði að mestu leyti til ráðstöfunar í eyðslugleði þeirrar ríkisstjórnar sem að völdum situr hverju sinni.

Samkvæmt fréttinni gerir nefndin þó þessa undantekningu á því: "Um eiginlega sjóðssöfnun geti hins vegar verið að ræða þegar tekjur stafa af auðlindum sem augljóslega eru ekki endurnýjanlegar. Þannig yrði búið í haginn fyrir komandi kynslóðir sem ekki nytu góðs af sömu auðlindum."

Heillavænlegra væri að leggja allt auðlindagjaldið í sérstakan auðlindasjóð sem eingöngu yrði gripið til við sérstakar aðstæður, t.d. efnahagserfiðleika í kjölfar aflabrests, náttúruhamfara o.s.frv., eða bara ef til álíka hruns kæmi og gerðist á árinu 2008.

Engar auðlindir eru í raun endurnýjanlegar, því vatnsföll geta breyst eða þornað upp vegna náttúruhamfara, aflabrestur getur orðið nánast hvenær sem er eins og dæmin sanna í gegn um tíðina og enginn veit fyrir víst hvort eða hvenær heitavatnsæðar geta breyst eða kólnað.

Íslendingar þyrftu að læra af fortíðinni og safna varasjóðum til framtíðarinnar í stað þess að eyða öllum tekjum jafnóðum og þeirra er aflað, ásamt því að skuldsetja sig upp fyrir haus í eintómu neysluæði.


mbl.is Bjarni vill stofna varasjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúklingar fara ekki í verkfall, frekar en sjúkdómarnir

Heilbrigðisstarfsfólk er upp til hópa ákaflega hjálpsamt, innilegt í allri framkomu og stendur sig á allan hátt með stórkostlegri prýði í öllum sínum störfum.  Allir geta því verið sammála um að slík störf ber að launa að verðleikum og heilbrigðisstéttirnar ættu ekki að þurfa að standa í verkfallsaðgerðum sem verst bitna á veikustu skjólstæðingunum.

"Hjarta- og æðasjúkdómar fara ekki  í verkfall, þeir halda áfram fram í rauðan dauðann", segir Sveinn Guðmundsson, varaformaður Hjartaheilla í viðhangandi frétt. Ragn­heiður Har­alds­dótt­ir, for­stjóri Krabba­meins­fé­lags Íslands, segir í sömu frétt að verri þjón­usta bitni á lífs­gæðum fólks­ins sem þurfi að búa við kvíða og hug­ar­ang­ur þar sem það fái ekki þær meðferðir og rann­sókn­ir sem nauðsyn­leg­ar eru.

Í fréttaviðtölum viðurkenna læknar að ekki sé hægt að útiloka að ótímabærum dauðsföllum fjölgi vegna þess að viðkomandi sjúklingar fái ekki þá þjónustu sem þeir nauðsynlega þarfnast.  Fyrir langveika og aðra sem þjást af alvarlegum sjúkdómum er andlega kvölin oft verst og í svona verkfallsátökum líður fjöldi slíkra sjúklinga gríðarlegar sálarkvalir vegna óvissunnsr sem þeir búa við vegna þessara víðtæku og langvarandi verkfallsaðgerða heilbrigðisstéttanna.

Þessi þungbæra reynsla af verkfallöllum heilbrigðisstarfsmannna hlýtur að kalla á þær breytingar að í framtíðinni verði þessar stéttir felldar undir Kjaradóm, Kjararáð eða aðra til þess bæra stofnun að ákvarða laun þessara stétta eins og ýmissa annarra, t.d. lögreglumanna.


mbl.is Fleiri ótímabær andlát
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband