Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

Læknadeiluna í kjaradóm

Stöðugt bætast í hóp þeirra sem halda því fram að verkfallsaðgerðir lækna muni áður en langt um líður leiða til ótímabærs dauða sjúklinga sem svo alvarlega eru veikir að þeir þyrftu að vera í stöðugri meðferð á sjúkrahúsum, eða eru í hreinni lífshættu á þeim biðlistum sem sífellt lengjast vegna deilunnar.

Það er vægast sagt ógeðfellt að læknar skuli (eða þurfi) að beita fársjúku fólki fyrir sig í kjaradeilu og vegna mikilla krafna þeirra, sem þeir hafa ekki verið til viðræðu um að minnka hið minnsta í margra mánaða verkfallsaðgerðum, er óþolilmæði almennings sífellt að aukast og samúð með læknunum að minnka að sama skapi.

Nokkrar starfsstéttir eru undir kjaradóm settar með kaup sín og kjör, ekki síst þær sem annast öryggi og velferð borgaranna t.d. lögreglan og fleiri opinberir starfsmenn.

Allir eru sammála um að læknar og aðrar heilbrigðisstéttir eigi að hafa góð laun, en skilja erfiðleika þess að umbylta launakerfi þeirra á einu bretti þegar allir samningar í landinu eru lausir.

Af þessum sökum vaknar sú spurning hvort samningsaðilar þessarar deilu geti ekki sammælst um að vísa henni til kjaradóms og jafnvel að kjaramál heilbrigðisstéttanna muni heyra undir þann dómstól framvegis.


mbl.is Tímaspursmál hvenær við missum líf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankastjórarnir og forstjórar kortafyrirtækjanna beri ábyrgðina

Þegar búið er að afhjúpa svindl bankanna og kortafyrirtækjanna í viðleitni sinni til að hrekja Kortaveltuna út af markaði og geta hirt ein öll eggin frá gullhænunni.

Í raun var þetta gert á kostnað viðskiptavina fyrirtækjanna, sem látnir eru greiða okurverð fyrir þjónustuna enda milljarðahagnaður af kortafyritækjunum árlega.

Á þessum gríðarlega hagnaði héngu kortafyrirtækin Borgun og Valitor (sem voru í eigu bankanna) og gerðu allt sem mögulegt var, flest ólöglegt, til að halda Kortaveltunni frá gullgreftrinum.

Nú hafa bankarnir og kortafyrirtækin tvö verið sektum um rúmar sextánhundruðmilljónir króna og lofa nú öllu fögru um framtíðina og þar á meðal að lækka árlegar greiðslur viðskiptavina sinna um heilar fjögurhundruðmilljónir.

Bankastjórarnir og forstjórar kortafyrirtækjanna sitja eftir sem áður sem fastast í stólum sínum og þurfa ekki að þola nein persónuleg óþægindi vegna þessara ólöglegu starfsemi sinnar.

Það er einkennilegt að litið skuli svo á að fyrirtækin sjálf séu gerendur glæpsins, en þeir sem stjórna þeim skuli teljast saklausir sem ungabörn eftir sem áður.


mbl.is Sparar neytendum 400 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleikann um kröfur lækna á borðið

Eiríkur Guðmundsson, læknir, sparar ekki stóru orðin þegar hann fjallar um "áróðursmaskínu stjórnvalda" og segir hana og reyndar fjármálaráðherrann ljúga svívirðilega um kröfur lækna í kjaradeilu þeirra við ríkið.

Hann þvertekur fyrir að læknar fari fram á 40-50% launahækkun og fer þó ekki neðar með fullyrðingar sínar um lygina og útskýrir ekkert um hvað kröfurnar snúast og er hann þó í samninganefnd lækna.

Til þess að sýna og sanna í hverju lygar "áróðursmaskínunnar" eru  fólgnar verða læknar að birta kröfur sínar og sýna alþjóð þar með um hvað kröfur þeirra um "launaleiðréttingu" snúast.

Það er talsvert alvarlegt mál að ásaka viðsemjendur sína um lygar, undirróður og önnur óheilindi í umfjöllun um kjarasamninga og eftir þessar geysihörðu ásakanir komast læknar hreinlega ekki hjá því að leggja spilin á borðið og skýra mál sitt svo ekkert fari á milli mála um kröfur þeirra.

Láglaunafólkið í landinu, sem flestir styðja að fái kjarabætur umfram hálaunahópana að þessu sinni hlýtur að bíða þess í ofvæni að læknar sýni  á spilin og sanni að þeir séu einungis að fara fram á kjarabætur sem ekki koma til með að setja þjóðfélagið á hliðina.


mbl.is „Áróðursmaskína stjórnvalda“ í gang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Læknar eru ekki láglaunastétt og ættu að fara aftar í forgangsröðina

Í heilan mánuð hafa læknar verið með sjúklinga og jafnvel alla þjóðina í gíslingu vegna gríðarlegra krafna um launahækkanir sér til handa, allt að 50% eftir því sem fréttir herma.  

Baráttan gengur út á að kúga ríkisvaldið til undanhalds með því að gefa í skyn að það væri yfirvöldum að kenna, en ekki læknunum sjálfum. ef sjúklingar tækju að deyja unnvörpum vegna skorts á læknisþjónustu.  

Jafnvel þó þeir veikluðustu lifðu kjaradeiluna af tæki við margra mánaða eða ára bið efir nauðsynlegum aðgerðum og þeim engin samúð sýnd sem munu þurfa að líða þjáningar og angist í biðinni eftir læknishjálp.

Öll þjóðin vill viðhalda frábæru heilbrigðiskerfi í landinu og því hafa aðgerðir læknanna notið stuðnings mikils hluta þjóðarinnar, þó úr hafi dregið undanfarið vegna óbilgirni læknanna, sem ekki hafa verið til viðræðna um að slaka hið minnst af kröfum sínum allan þennan tíma, en herða stöðugt ólina um háls sjúklinga sinna til að neyða stjórnvöld til uppgjafar.

Jafn mikill og stuðningur þjóðarinnar er við að viðhaldið verði hinu góða heilbrigðiskerfi í landinu er rík krafa í þjóðfélaginu til að hinir lægts launuðu fái sérstakar hækkanir í næstu kjarasamningum og þá auðvitað meiri hækkanir en hinir sem betur mega sín.

Læknar eru ekki  láglaunastétt og sama gildir um alla aðra í þjóðfélaginu, þ.e. að hafa orðið fyrir gríðarlegri kjaraskerðingu í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 og hafa ekki samkeppnisfær laun við kollega sína í nágrannalöndunum.

Þeir lægra launuðu ættu að vera í forgangi í þeirri kjaraleiðréttingu og læknar ættu að sjá sóma sinn í að bíða á meðan með sínar ítrustu kröfur.


mbl.is Mun færri bóka sig í aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband