Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Hvað um viðskiptabann ESB?

Bretar hafa áhyggjur af því að hugsanleg aukning fisksölu Íslendinga til Kína í kjölfar fríverslunarsamningsins milli landanna kunni að leiða til þess að minna verði flutt af fiski frá Íslandi til Bretlands og annarra Evrópulanda og verð muni hækka í kjölfarið.

Eins og kunnugt er hafa breskir hagsmunaaðilar barist eins og ljón fyrir því að sett verði viðskiptabann á Ísland vegna makrílveiðanna og yrði það gert myndi fiskútflutningur væntanlega algerlega leggjast af til Bretanna og annarra Evrópubúa og það myndi að sjálfsögðu hafa mikil áhrif á fiskverð í Evrópu til hækkunar.

Er ekki kominn tími til að Bretar, Skotar og aðrir boðberar viðskiptastríðs gegn Íslandi fari að átta sig á afleiðingum slíkrar styrjaldar fyrir þá sjálfa og láti af stríðsdansinum. 


mbl.is Óttast minna framboð á fiski frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósannindi Össurar staðfest enn og aftur

Össur Skarphéðinsson, fljótlega fyrrverandi utanríkisráðherra sem betur fer, hefur alltaf haldið því fram að "samningar" við ESB um sjávarútvegsmál yrðu leikur einn og það yrði nánast stórríkið væntanlega sem myndi gangast undir sjávarútvegsstefnu - og stjórn Íslands.

Oft hefur verið bent á að ekki sé um neinar "samningaviðræður" við ESB að ræða, heldur eingöngu innlimunarviðræður sem snúist um hvernig og hvenær Ísland taki upp stefnu ESBstórríkisins væntanlega í hverjum málaflokki fyrir sig.  Þetta hafa forystumenn ESB verið ófeimnir við að segja, þó Össur og samverkamenn hafi haldið sínum blekkingaleik endalaust að þjóðinni.

Lok meðfylgjandi fréttar segir nánast allt sem segja þarf um "samningana" um sjávarútvegsmálin:  "Þess má geta að framkvæmdastjórn Evrópusambandið hefur þegar sett fram þær grundvallarkröfur sem gerðar eru til Íslands í sjávarútvegsmálum gangi landið í sambandið en í greiningarskýrslu sem fylgdi áliti framkvæmdastjórnarinnar á umsókn Íslands í febrúar 2010 kemur fram að Íslendingar verði að fallast á meginregluna um fulla yfirstjórn Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum og að fiskiskip frá ríkjum sambandsins hafi frjálsan aðgang að miðunum við Ísland í samræmi við sameiginlega sjávarútvegsstefnu þess."

Hvenær skyldi Össur koma fram fyrir þjóðina og játa ósannsögli sína varðandi innlimunaráformin í stórríkið væntanlega. 


mbl.is Tvö opnunarskilyrði í sjávarútvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spara krónur og skera niður loforð

Það fer vel á því að Bjarni Ben. og Sigmundu Davíð skuli byrja formlegar stjórnarmyndunarviðræður með því að kaupa sér nesti til fundarins í lágvöruverðsverslun og sýna með því forsmekk að þeirri ráðdeild sem ríkja þarf í ríkisrekstrinum í framtíðinni og þar mun þurfa að velta hverri krónu a.m.k. tvisvar áður en henni verður eytt.

Líklega mun lengsti tíminn í viðræðum formannanna fara í að útfæra tillögur Sjálfstæðisflokksins varðandi skuldavanda heimilanna, enda litlar líkur á því að leið Framsóknarflokksins verði fær fyrr en í fyrsta lagi að tveim til þrem árum liðnum.  Formaður Framsóknarflokksins hefur aldrei getað nefnt nokkur tímamörk á því hvenær og hvernig hann ætlar að standa við kosningaloforðin í þessu efni, en sagt eftir kosningar að hann sé "opinn fyrir öllum tillögum að útfærslu á lausn skuldavandands".

Um leið og krónurnar verða sparaðar mun tími formannanna fara í að skrapa gullhúðina utan af kosningaloforðum Framsóknarmanna og setja "gjafirnar" í ódýrari umbúnað.

 


mbl.is Fóru saman í Krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Sigmundur að reikna NÚNA?

Sigmundur Davíð hamraði á því alla kosningabaráttuna að Framsóknarflokkurinn væri búinn að vera með sömu, vandlega útfærðu lausnina á skuldavanda heimilanna í fjögur ár, en aðrir flokkar hefðu einfaldlega ekki skilið út á hvað hún gekk og hversu sáraeinföld hún væri.

Að kosningum loknum kom í ljós að nokkuð stór hluti þjóðarinnar trúði því að Framsóknarflokkurinn væri í raun og veru með lausn á málinu á takteinum og myndi byrja að sáldra silfrinu yfir þjóðina strax á næstu vikum.  Það eina sem þyrfti að gera væri að tryggja flokknum sæti í ríkisstjórn og þá yrði flokkurinn ekki lengi að efna kosningaloforðin.

Viku eftir kosningar og fjórum dögum eftir að hann fékk umboð til stjórnarmyndunar segir Sigmundur Davíð m.a. í viðtali við mbl.is:   "Dagurinn hefur farið í að skoða tölfræði og tækifæri. Það var uppörvandi vinna. Vonandi hafa aðrir líka átt jákvæðan dag".

Lágu tölfræðin og tækifærin virkilega ekki ljós fyrir áður?  Var þetta ekki allt á hreinu fyrir fjórum árum? 


mbl.is Sigmundur lá yfir tölfræði í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupmenn hætti okrinu strax

Kaupmenn hafa að undanförnu rekið mikinn áróður fyrir því að hægt væri að lækka matarkörfu heimilanna um jafnvel tugi prósenta, ef ríkisstjórnin aflétti ýmsum tollum, vörugjöldum og öðrum álögum af innfluttum matvörum.

Þegar gengi íslensku krónunnar lækkar eru kaupmenn fljótir að hækka allar sínar vörur og bera þá venjulega við að birgðir séu litlar og því komi hækkanirnar strax inn í verðlagið.  Þegar krónan styrkist lækkar verð lítið sem ekkert og þá er því borið við að birgðir séu svo miklar og þess vegna skili lækkanir sér ekki út í verðlagið og þar að auki reikni kaupmenn alltaf með að krónan veikist fljótlega aftur.  Þegar það svo gerist er útsöluverð umsvifalaust hækkað aftur og enn og aftur er veikingu krónunnar kennt um.  Með þessu móti hafa kaupmenn aukið álagningu sína gríðarlega mikið á undanförnum árum.

Kaupmenn ættu að draga úr áróðri sínum um að þeir myndu lækka útsöluverð ef ríkissjóður minnkaði álögur sínar og hunskast til að lækka verð í verslunum sínum umsvifalaust vegna styrkingar krónunnar.

Geri þeir það ekki telst áróður þeirra ómerkileg brella og þeir sjálfir marklausir. 


mbl.is Skilar sér ekki í buddu neytenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjóræningjar hæðast að Sigmundi Davíð

Birgitta Jónsdóttir, Sjóræningi, lætur eins og minnihlutastjórn Framsóknarflokksins sé hugsanlegur kostur við stjórnarmyndun, enda séu Sjóræningjarnir tilbúnir að verja slíka stjórn vantrausti, a.m.k. í eitt ár.

Allir vita, sem vilja vita, að tillögur Framsóknarflokksins um skuldalækkanir íbúðalána munu ekki komast til framkvæmda á næstu árum, verði þær nokkurn tíma að veruleika, enda mun í fyrsta lagi taka langan tíma að ná samningum við kröfuhafa gömlu bankanna um eftirgjöf á eignum sínum til ríkissjóðs og í öðru lagi mundi líka taka langan tíma að ganga frá skuldalækkununum, enda nokkuð flókið mál sem ekki hefur verið útskýrt af Sigmundi Davíð, eða öðrum Framsóknarmönnum, hvernig á að útfæra.

Þetta er því lúmskt útspil Sjóræningjanna til að sýna fram á að tillögur Framsóknarflokksins eru óframkvæmanlegar á einu ári og því er tillagan um minnihlutastjórnina einungis háð og spott í garð Framsóknarflokksins.

 


mbl.is Minnihlutastjórn möguleg?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband