10.8.2009 | 15:41
Pólitískur samningur
Því hefur verið haldið fram af stjórnarþingmönnum, að ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans, sé ekki fyrst og fremst spurning um að uppfylla lagalegar skyldur, heldur sé hann til þess gerður, að leysa pólitískan vanda milli Íslands og Evrópusambandsins, þ.e. til þess að koma í veg fyrir að málið fari fyrir dómstóla, vegna þess að tilskipun ESB um tryggingasjóði innistæðueigenda sé meingölluð. ESB geti alls ekki hugsað sér að fá þetta mál fyrir dóm, vegna þess að bankakerfi Evrópu gæti verið í hættu og þess vegna "verði" Alþingi að samþykkja þessa ríkisábyrgð.
Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, hefur ekki látið mikið á sér bera í þessari umræðu, tók sér reyndar sumarleyfi á meðan hennar fulltrúar í Fjárlaganefnd Alþingis bögglast með málið vikum saman, til að reyna að berja í brestina á þessum ömurlegasta samningi Íslandssögunnar.
Það er ekki öll nótt úti enn," sagði Jóhanna á Alþingi og átti þar við, að ennþá væri möguleiki á að snúa þeim þingmönnum VG, sem ennþá láta þjóðarheill sig einhverju varða. Auðvitað er það ríkisstjórninni til háborinnar skammar, að ætla sér að treysta á stjórnarandstöðuna, til að bjarga sér fyrir horn í hverju stórmálinu á fætur öðru.
Pólitíska samninga á að gera á milli pólitískra fulltrúa, en ekki setja embættismannanefndir í slíka vinnu, enda bera þeir enga pólitíska ábyrgð. Samningagerð milli Íslands, Hollands og Breta um þetta Icesave rugl, á að fara fram á milli æðstu ráðherra þjóðanna og að því verkefni ætti Jóhanna, meintur forsætisráðherra, að fara að snúa sér. Með sér ætti hún auðvitað að hafa löggilta túlka og skjalaþýðendur.
"Það er kominn tími til að ríkisstjórnin fari að tala máli okkar Íslendinga við þá sem við er að semja," sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins við umræðurnar í þinginu í dag.
Það eru orð að sönnu.
Ekki öll nótt úti enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.