Þaulseta

Atli Gíslason, einn af vinnumönnum ríkisverkstjórans, segir stjórnarþingmenn tilbúna að sitja fram að kosningum til þess að hægt verði að afgreiða brýn mál úr þinginu.  Nú eru liðnir tveir mánuðir frá því að stjórnarskipti urðu og nýji ríkisverkstjórinn og vinnuflokkur hennar lofaði að koma alls kyns umbótamálum hratt og vel í framkvæmd.  Ekkert gerðist fyrsta mánuðinn, annað en að fá samþykkt hefndarlögin gegn Davíð Oddssyni og enn þann dag í dag er verið að leggja fram frumvörp, sem samþykkja þarf fyrir kosningar.

Stjórnarþingmenn þyrftu að fara að taka hendurnar úr vösunum og klára áríðandi mál og hætta að hóta þjóðinni því að þeir muni halda ruglinu áfram fram að kosningum.  Það eina góða við það er reyndar að því lengur sem þeir sýna ráðaleysið, því minna fylgi munu þeir fá í kosningunum.

Best sést vandræðagangurinn á því að frumvarpið um stjórnlagaþingið og stjórnarskrárbreytingarnar hefur tekið miklum breytingum frá því að það var lagt fram, aðallega vegna ábendinga Sjálfstæðismanna.  Mikið má nú þakka fyrir að sá frumvarpsbastarður var ekki keyrður í gegnum þingið í upphaflegri mynd sinni.  Forseti Alþingis á að sjá sóma sinn í að forgangsraða málum þingsins nú þegar og þá þarf ekki langan tíma til að afgreiða forgangsmálin.

Þjóðarinnar og þingsins vegna verður þessum skrípaleik að fara að linna.


mbl.is Geta setið fram að kosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband