Vanir menn

Jón Ásgeir Jóhannesson lýsti því yfir fyrir skömmu að hann væri farinn úr landi og myndi einbeita sér að rekstri erlendis, enda Ísland allt of lítið land fyrir stórhuga menn.  Nú hefur hann, ásamt fleiri toppum frá Baug Group stofnað nýtt félag í Bretlandi, sem eins og þeir segja:  "Við munum fylgjast með markaðnum  og bíða.  Þetta snýst um að hafa rétta reynda fólkið á staðnum til að grípa tækifærið".  Í frétt Retail Week liggur ekki fyrir hvernig á að fjármagna fyrirtækjakaup, eða hvort þeir ætli sér að yfirtaka eitthvað af eignum Baugs sem nú eru í höndum bankanna. Það er ekki von að nú sé vitað hvernig á að fjármagna ný fyrirtækjakaup, því enginn virðist skilja hvernig öll gömlu fyrirtækjakaupin voru fjármögnuð.  Eru þó skilanefndir, rannsóknarnefnd, fjármálaeftirlit og sérstakur saksóknari með fjölda manna á launum (og Evu Joly) við að reyna að fá botn í málið.

Vitað er að tugir eða hundruð hlutafélaga tengjast eigendum Baug Group og nánast óskiljanlegt að ekkert þeirra sé í stakk búið til að "grípa tækifærið".  Einnig er athyglisvert að ekki er vitað hvort þeir "ætli sér að yfirtaka eitthvað af eignum Baugs sem nú eru í höndum bankanna".  Einhver hefði getað látið sér detta í hug að bankarnir myndu sjálfir hafa eitthvað um það að segja hverjir yfirtækju þær eignir sem eru í þeirra höndum, að ekki sé talað um lánadrottna Baug Group.

Hitt er annað mál að þetta eru þaulvanir menn, enda hafa þeir verið verðlaunaðir af sjálfum konungi (afsakið forseta) Íslands fyrir snilld sína í útflutningi á hugviti.  Baugur Group fékk í hendur sérhannaðan verðlaunagrip og skjal, auk þess sem verðlaunahafi fékk leyfi til að nota merki verðlaunanna á kynningarefni sitt í fimm ár frá afhendingu.  Frá afhendingu verðlaunanna eru nú liðnir rúmir ellefu mánuðir og verðlaunahafinn orðinn gjaldþrota.  Skyldi vera heimilt að yfirfæra merkið á nýtt félag úr því að aðstandendurnir eru þeir sömu?

Sennilegt er að engum þyki lengur akkur í því að hampa Útflutningsverðlaunum forseta Íslands. 

 


mbl.is Stjórnendur Baugs í nýjum rekstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistillGuð eða einhver hjálpi þeim sem lenda í klónum á þeim. Vanir menn, hljómar eins og úr bíómynd þar sem söguhetjurnar eru víðáttuheimsk, veruleikafyrrt  viðundur.

panna (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 08:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband