29.11.2017 | 14:15
Náttúran verður ekki barin niður með lurk, en...............
Ótrúlegur fjöldi kvenna hefur stigið fram að undanförnu og skýrt frá kynferðislegu áreiti og í mörgum tilfellum ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir af hendi karlmanna og virðist nánast engin kona hafa sloppið algerlega við slíkt í störfum og leik.
Ótrúlegur fjöldi karlmanna, á öllum aldri og öllum störfum, virðist halda að í lagi sé að káfa á, strjúka óeðlilega og klípa konur hvenær sem færi gefst og miðað við frásagnirnar er eins og þeim þyki þetta vera eðlileg framkoma og samskipti milli kynjanna.
Flestar sögurnar sem birst hafa lýsa algerlega óþolandi hugsunarhætti og framkomu og þrátt fyrir að með slæðist frásagnir af misskildum gullhömrum um klæðaburð eða líkamsvöxt og ýmislegt sem flokka mætti sem kynjalausa stríðni, dregur það ekkert úr alvarleika þessa máls í heild og nauðsyn algerrar uppstokkunar í hugmyndaheimi margra karlmanna um almenna kurteisi og siðsemi í mannlegum samskiptum.
Það er hreinlega ótrúlegt að nokkrum karlmanni geti fundist þessi grófa framkoma eðlileg og því er óskiljanlegt að samt sem áður sé þetta eins algeng framkoma og frásagnir kvennanna sýna. Að káfa á brjóstum og rössum á ekkert skylt við saklaust daður eða lýsingu á hrifningu og þó margir karlmenn séu óöryggir og feimnir við konur, afsakar það ekkert svona framkomu. Ofbeldi og nauðgun er toppurinn á þessu kynbundna ofbeldi og ætti alltaf að kæra til lögreglu og algerlega verður að vera tryggt að þolendur fái aðstoð og vernd yfirmanna, eigi slíkt ofbeldi sér stað á vinnustað viðkomandi.
Í gamla daga var sagt að mannleg náttúra yrði ekki lamin niður með lurk, en það sama ætti alls ekki að eiga við um þá sem ekki geta hamið hana og beita aðra ofbeldi til að uppfylla fýsnir sýnar eða drottnunargirni.
Sagt að þær verði bara að þola þetta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.