Er ekki allt sem er löglegt líka siðlegt?

Mikil umræða á sér stað í þjóðfélaginu vegna eigna ýmissa einstaklinga erlendis og ekki síst þeirra peningaeigna sem vistaðar eru á svokölluðum aflandseyjum og skattaskjólum.

Samkvæmt þeim lögum sem gilda í landinu, sem og víðast annarsstaðar, er leyfilegt að geyma sjóði sína nánast hvar sem er og vitað er að flestir reyna að komast hjá því að greiða hærri skatta en nokkur möguleiki er að komast af með.  

Ekkert er í raun hægt að segja við því að nýttar séu allar löglegar leiðir til að minnka skattgreiðslur einstaklinga og fyrirtækja, en skattsvik eru hins vegar algerlega óþolandi og gegn þeim þarf og á að berjast með öllum tiltækum ráðum.

Umræðan undanfarið virðist ganga út á að gera allta tortryggilega sem eignir eiga utan landsteinanna og látið eins og um ótýndan glæpalýð sé að ræða, þrátt fyrir að viðkomandi hafi í einu og öllu farið eftir gildandi lögum um þessi efni.

Sem betur fer virðist skilningur ríkisstjórna loksins vera að aukast á því að almenningur sættir sig ekki við að hægt sé að komast hjá skattgreiðslum með því að fela eignir í svonefndum skattaparadísum og þegar er byrjað að semja þjóða á milli um að loka fyrir slíka möguleika, en betur þarf að vinna til að girða algerlega fyrir alla möguleika fyrirtækja til þess að flytja hagnað landa á milli til að fela slóð hans í skattaskjólið.

Ekki á að úthrópa þá sem fara eftir lögunum, heldur berjast fyrir breytingum í þá veru að girt sé fyrir öll skattaundanskot og önnur lögbrot varðandi þessi mál.  

Það sem er löglegt í hverju landi á hvernum tíma, hlýtur að teljast siðlegt jafnframt, a.m.k. á meðan lögunum er ekki breytt.


mbl.is Eiga verðbréf í skattaskjólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Minnir mig á fræga tilvitnun í Njálu.  Helmingur hennar er skrifaður á Lögreglustöðina, alla lögreglubíla osfrv:

"Með lögum skal land byggja..."

Hinn helmingurinn, þessi sem er ekki skrifaður á lögguna á hér við.

Málið er að allt þetta sem er verið að fjargviðrast útaf virðist vera fullkomlega löglegt.  Og ástæðan fyrir því er falin í seinni hluta hinnar frægu tilvitnunar.

Og hér er það besta: ef þeir reyna að breyta lögunum til þess að geta löglega átt peninga á Íslandi, þá verður allt brjálað.  Það má ekki.

Á meðan fólk er ekki sátt við að efnaðir menn eigi peninga á Íslandi, verður fólk bara að sætta sig við að efnaðir menn eigi pening í útlöndum, vegna þess að einhversstaðar verða þeir að geyma þá.

Ásgrímur Hartmannsson, 2.4.2016 kl. 15:50

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Ágætt hjá þér Á. Hartmannsson.  Okkur kemur það ekkert við hvar menn geima peningana sína. 

En okkur kemur það við ef þeirra aflað á svarta markaðnum. 

Þangað ættu öfundsjúkir rana snuðrarar að beina ergi sínu.   

En stundum er þeim það ekki nógu skemmtilegt.     

Hrólfur Þ Hraundal, 2.4.2016 kl. 17:37

3 identicon

Ég var að hugsa, kemur fyrir. Árið 2006 fékk ég laun og borgaði skatta hér á landi, ca 40%. Átti þá eftir nokkra 60 þúsund kalla (hvern þeirra 100 þús. fyrir skatt) og dollarinn var á ca, kr. 60.- Fór í bankann minn og bað þá að kaupa hlutabréf í t.d. Apple. Þeir lögði til að ég stofnaði hlutafélag um þessa eign mína, staðsett í LUX. Flott og fínt hugsaði ég og gerði þetta. Hvert hlutabréf kostaði þá t.d. US$ 1.-, þannig átti ég 1000 hlutabréf úti í heimi. Svo líða árin og og ég taldi aldrei þessa eign mína fram á skattframtölum hér, frekar en sjónvarpstækið eða videotækið sem kostuðu of fjár og meira en þessi 60 þús. kall. Nú allt í einu árið 2016 kíkti ég á hlutabréfamarkaðinn og sé að hvert bréf kostar nú $10.- og hver dollar kr. 135.- Hvað á ég að gera? Samkvæmt Árna Páli er ég glæpamaður, hef aldrei skilað ársreikningi fyrir þetta félag. OK, ef ég vildi nú taka mig á og segja skattmann frá þessu, verð ég krafinn um skatt eða fengi ég sekt.

Svarið er örugglega nei. Og þótt ég seldi þetta í dag og fengi íslenskar krónur, ca 1.350.000 og greiddi skatt í viðkomandi skattaskjóli, mun ég líklega ekki borga skatt hér á landi.

Um hvað snýst öll þessi vitleysa stjórnarandstöðunnar?

Annars er þetta dæmi algjörlega tilbúið, ég á ekki krónu erlendis, ekki einu sinni hjá Barcleys þótt ég hafi átt þar hlaupareikning meðan ég var í erlendu námi.

Gott væri að frá upplýsingar frá t.d. Samfó eða VG en ég vil ekki deila fangaklefa á Hrauninu með slíku fólki.

Örn Johnson´43 (IP-tala skráð) 2.4.2016 kl. 21:01

4 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Það væri hægt að bæta því við að þú myndir fá 20% afslátt af gengisskráningu Seðlabanka Íslands ef þú myndir kaupa þér Ríkisskuldabréf, á hæstu vöxtum í hinum vestræna heimi, ef þú kæmir með peningana heim!

Er eitthvað vit í því?

Sindri Karl Sigurðsson, 3.4.2016 kl. 01:06

5 identicon

Löglegt er oft siðlaust. Eigandi íbúðar ræður ekki lengur við að borga af henni og hún er sett á uppboð. Fógeti slær hana vildarvini sínum með hraði en öðrum á staðnum er ekki gefinn kostur á að bjoða í hana. Eða fulltrúar banka eru mættir á staðinn og bjóða aðeins jafnmikið og eigandinn skuldar bankanum, langt undir raunvirði íbúðarinnar. Fyrrrverandi eigandi situr eftir með allar aðrar skuldir ógreiddar.

aðalsteinn geirsson (IP-tala skráð) 3.4.2016 kl. 06:19

6 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Nú keppast þessir meðvirku, jafnvel taka sjálfan sig sem dæmi, flott, alveg frábært meðvirkt dæmi til að réttlæta siðleysi SDG ofl. Ég get hengt mig upp á það, að allir þið meðvirku hefðuð gert allt sem í ykkar valdi stæði á þeim tíma, og skipt eins mörgum krónum í erlendan gjaldeyri, hefðuð þið haft sömu vitneskju og SDG hafði. Enda gerði SDG það, setti féð sitt á Tortóla. Ég hugsa að ég hefði gert hið sama, en bara passað mig á því að verða aldrei þjóðkjörinn, og allra síst forsætisráðherra, mærandi Ísl.krónu sem sterkasta gjaldmiðil heims, en vill ekki sjá hana sjálfur 

Jónas Ómar Snorrason, 3.4.2016 kl. 08:33

7 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Ég ætla ekki að hengja mig fyrir þig Jónas en þú ert að öllum líkindum einn af þeim sem tröllríða um héröð og dreifir skeinipappír með glerflísum í hvert hús, sendir síðan næsta fjölskyldumeðlim til að lækna sárið og hikar ekki við að rukka 2fallt fyrir.

Sindri Karl Sigurðsson, 3.4.2016 kl. 10:33

8 identicon

Það er löglegt fyrir fullfríska að standa ekki upp fyrir lasburða í strætó. Krabbameinssjúklingar verða gjaldþrota vegna meðferðarkostnaðar meðan bankamenn ríkisbankans strá gulldufti yfir desertinn sinn. Það er margt löglegt sem þó er siðlaust, hegðun sem við viljum ekki sjá og almennt telst óhæfa þó lögin banni ekki. Sá hugsunarháttur að sé það löglegt þá sé það siðlegt og í góðu lagi hefur orðið til þess að setja hefur þurft lög á hegðun. Það þurfti lög til að heilir hættu að leggja í stæði fatlaðra. Nokkuð sem í heilbrygðu samfélagi þætti svo siðlaust að lög þyrfti ekki til. Siðferði Íslendinga hefur greinilega ekki lagast neitt síðan útrásarvíkingarnir töldu að allt sem ekki væri bannað mætti.

Það er illa farið fyrir þjóð sem ekki getur vænst meira af forsætisráðherra en að hann fari að lögum.

Davíð12 (IP-tala skráð) 3.4.2016 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband