Óhugnanlegar fréttir og myndir hafa að undanförnu birst í fjölmiðlum af glæpastarfsemi sem stunduð er á flestum, eða öllum, svínabúum landsins sem slátra 200 grísum eða fleiri árlega. Í einhverjum tilfellum virðist álíka glæpastarfsemi stunduð í einhverjum kjúklingabúum. Glæpaverkin felast í ógeðlegri meðferð á skepnunum, sem flokkast ekki undir neitt annað en illmennsku og níðingsskap af verstu tegund.
Matvælastofnun á að hafa eftirlit með svína- og kjúklingabúunum en virðist taka af hreinni léttúð á glæpunum og gefa brotamönnunum endalausa fresti til að minnka níðingsskapinn í stað þess að kæra þá umsvifalaust fyrir lögbrotin, sem framin eru af greinilegum og staðföstum brotavilja.
Furðuleg afstaða stofnunarinnar speglast vel í eftirfarandi setningu í viðhangandi frétt: "Litið er á dýravelferðarmál sem viðkvæm persónuleg mál ræktenda og því hefur stofnunin ekki greint frá því á hvaða búum ástandið sé slæmt." Líklega eru þetta einu glæpirnir sem flokkast undir að vera viðkvæm persónuleg mál glæpamannanna sjálfra.
Vanti eitthvað upp á að lög landsins nái fullkomlega yfir þessa glæpi, verður að bæta úr því nú þegar og ef ekki er hægt að reka þessa tegund matvælaframleiðslu á heiðarlegan hátt og án dýraníðs verður einfaldlega að loka þeim og flytja svína- og kjúklingakjöt inn erlendis frá.
Strangar kröfur verður einnig að gera til þeirra búa erlendis sem afurðir yrðu fluttar frá til landsins og ekki leyfður innflutningur frá neinu búi sem ekki væri fyrirfram búið að fá vottun frá Íslenskum eftirlitsaðilum um að dýraníð og aðrir álíka glæpir væru ekki stundaðir á viðkomandi búum.
Orðspor greinarinnar í hættu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ömurlegt að sjá aðbúnaðinn hjá blessuðum skeppnunum. Efast um að ég snæði kjúkling eða svínakjöt í bráð.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.9.2015 kl. 20:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.