4.7.2014 | 19:36
Bjór og brennd vín í búðirnar
Andrúmsloftið sem virðist ríkja á samfélagsmiðlunum, eftir að vitnaðist að Costco hefði áhuga á að opna verslun í Reykjavík, er á þann veg að sjálfsagt sé að breyta lögum í þá veru að áfengi verði selt í matvörubúðum ásamt nánast ótakmörkuðum innflutningi á fersku kjöti.
Af og til hafa verið settar fram hugmyndir og jafnvel flutt um það frumvörp á Alþingi að leyft verði að selja bjór og létt vín í matvörubúðum, en allar slíkar hugmyndir hafa jafnan verið kaffærðar og þeim mótmælt harðlega, enda slíkar tilslakanir á áfengislöggjöfinni aldrei fengist samþykktar.
Hugmyndir um að matvöruverslanir selji aðeins bjór og létt vín leiðir auðvitað af sér að ÁTVR yrði að halda áfram rekstri sinna verslana, en selja þar aðeins sterkt áfengi sem vonlaust er að borgaði sig, enda bjór og létt vín orðin uppistaða áfengissölunnar nú orðið.
Verði á annað borð leyft að selja bjór og annað áfengi í matvöruverslunum ætti auðvitað að ganga alla leið og loka verslunum "ríkisins", en láta frjálsa markaðinn alfarið um áfengissöluna eins og gert er víðast hvar í veröldinni.
Umræðan um ferska kjötið ætti svo að vera á vitrænni nótum en að tala um að hollusta íslensks kjöts sé meiri en erlends, en slíkt er auðvitað fjarri öllum sanni enda lifir fólk ágætu lífi víðast hvar af þeim matvælum sem framleidd eru í viðkomandi löndum.
Það sem í raun er um að ræða varðandi kjötið er hvort reka skuli landbúnað á Íslandi eða ekki, a.m.k. í þeirri mynd sem verið hefur fram til þessa. Þá umræðu á ekki að rugla með þrugli um heilbrigðismál, enda yrði aldrei leyft að flytja inn kjöt sem ekki væri heilbrigðisstimplað í bak og fyrir.
Vínið verði ekki selt í samstarfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er hið versta mál, við gætum færst nær því að vera siðmenntuð þjóð. Sem er auðvitað ótækt, og sér það hver maður af hverju.
Ásgrímur Hartmannsson, 4.7.2014 kl. 19:59
Í öll þau ár sem ég hef búið á Spáni, þá hef ég aldrei séð vín á spánverja, hvorki konu né manni. Spánverjar eru siðaðir.
Á norðurlöndum er siðgæðið annað, því miður.
Valdimar Jóhannsson (IP-tala skráð) 4.7.2014 kl. 23:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.