11.1.2013 | 14:40
Barnaníðingar ættu að sæta réttargæslu
Eftir umfjöllun Kastljóss um áratuga barnaníð sama einstaklingsins, sem hefur komist upp með níðingsverk sín allan þennan tíma þrátt fyrir nokkuð "almenna" vitneskju um framferðið, hefur þjóðfélagið nánast verið á hvolfi vegna þessa máls og annarra álíkra sem nú komast í hámæli hvert af öðru.
Nýjasta dæmið um barnaníðinginn sem settur hefur verið í gæsluvarðhald vegna gruns um kynferðisglæpi gagnvart börnum sýnir svart á hvítu að tiltölulega stutt fangelsisvist breytir engu um "kenndir" þessara manna og þeir halda flestir, eða allir, áfram iðju sinni að afplánun lokinni. Barnagirnd er alvarlegur geðsjúkdómur og ætti að meðhöndlast sem slíkur og þeir sem haldnir eru slíkum sjúkdómi eiga frekar heima á geðsjúkrahúsum en í fangelsum og meiri líkur á að hægt verði að "lækna" þá af geðveikinni á slíkum stofnunum en í fangelsunum.
Allir sem uppvísir verða af barnaníði ættu að dæmast til ótímabundinnar vistar á réttargeðdeild og ekki eiga þaðan afturkvæmt fyrr en ótvírætt þykir að þeir hafi læknast af geðveiki sinni, hvort sem talið yrði að það tæki fimm ár eða fimmtíu. Glæpir slíkra manna eru lítið skárri en morð og geðsjúklingar sem fremja morð eru vistaðir á réttargeðdeildum en ekki í fangelsum og þurfa í sumum tilfellum að vistast þar í áratugi.
Mikil reiði hefur brotist út í þjóðfélaginu vegna þessara mála og vilja sumir taka lögin í sínar hendur og bæði dæma og refsa þeim sem hugsanlega eru alvarlega andlega sjúkir glæpamenn og ganga lausir í þjóðfélaginu. Dæmi um slíkt má nú sjá á Facebook, þar sem einhverjir virðast ætla að ganga í skrokk á grunuðum barnaníðingum, en þessi skilaboð mátti lesa þar í gær: "Margir hafa líst yfir reiði sinni síðustu daga vegna barnaperra sem virðast ganga lausir. Við höfum því nokkrir ákveðið að ganga í málið. Hefurðu upplýsingar um barnaperra sem gengur laus ?? Sendu okkur skilaboð og við göngum í málið, engin læti ekkert fjölmiðlakjaftæði. Við ætlum ekki að segja það beint út hér, hvernig við göngum í málið. Sendu okkur bara skilaboð, ef okkur finnst þetta verðskulda "heimsókn", þá verður það gert."
Þó ótrúlegt sé, hafa nú þegar nokkrir aðilar gerst "vinir" þessara reiðu manna á Facebook og vekur það upp ugg um hvert stefnir í því hefndaræði sem gosið er upp meðal ýmissa. Þetta veit ekki á gott og eru ekki rétt viðbrögð við gerðum alvarlega geðveikra manna.
Annar barnaníðingur handtekinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.