Athyglin beinist að vaxtaokrinu

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, vakti athygli á vaxtaokrinu sem viðgengist hefur hér á landi undanfarna áratugi, ekki síst á húsnæðislánum og í erindi sínu á þingi ASÍ benti hann á húsnæðislánakerfi Dana sem fyrirmynd sem athugandi væri að sækja fyrirmynd til.

Tími er til kominn að taka upp baráttu gegn vaxtaokrinu, en einblína ekki eingöngu á verðtrygginguna eins og hingað til hefur verið nánast eins og prédikun ofsatrúamanna í umræðunni um lánamál skuldaglaðra Íslendinga.

Ólafur Darri benti til dæmis á að álag Íbúðalánasjóðs á lán sé 1,4% og hafi fjórfaldast frá árinu 2004. Einungis þetta álag hækkar vaxtagreiðslu þess sem skuldar 20 milljóna króna húsnæðislán um 280 þúsund krónur á ári og þar með milljónum yfir lánstímann.

Það er fagnaðarefni ef þessi þarfa ábending Ólafs Darra verður til þess að breyta viðhorfinu til þess hve vaxtaokrið er, og hefur verið, lántakendum hrikalega óhagstætt og að það sé ekki eingöngu verðtryggingin sem valdið hefur greiðsluvandræðum skuldara hér á landi.


mbl.is Vill lækka vexti með aðferð Dana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Það er auðvelt að tækla þetta vandamál: Opna fyrir samkeppni á þessum markaði. Í dag er nánast vonlaust að stofna banka og í núverandi umhverfi er það gott fyrir þá sem fyrir eru á fleti. Hingað þarf að fá erlenda banka, erlend olíufélög erlend tryggingafélög o.s.frv. ásamt því að fækka opinberum reglum og afskiptum. Einnig þarf að leggja niður SÍ.

Í dag er það opinberi geirinn sem heldur niðri kjörum almennings. Hvernig stendur á því að það er ekki rætt? Af hverju ræðir Ólafur Darri það ekki? Af hverju ræðir Gylfi það ekki? Obbi hagfræðinga brást á árunum fyrir hrun og þeir ætla sér margir hverjir að halda áfram sömu vitleysunni.

Hvernig geta fyrirtæki ráðið fleira fólk til sín eða hækkað laun þegar ríki og sveitarfélög taka stóran skerf af tekjum fyrirtækja? Opinberi geirinn skapar ekki verðmæti sem eru forsenda þess að hægt sé að skapa störf. Þetta virðast alltof margir á vesturlöndum ekki skilja :-(  Það má því segja að Vesturlandabúar eigi skilið þetta efnahagsástand því þeir hafa kosið það yfir sig :-(

Ég minni á að hérlendis á árunum 1991-2001 voru skattar á fyrirtæki lækkaðir í þrepum úr 45% í 18%. Tapaði ríkið tekjum á þessari prósentulækkun? Nei, þvert á móti. Tekjur ríkisins ef þessum skattstofni þrefölduðust. Þetta litla dæmi segir allt sem segja þarf um skaðsemi hárra skatta sem tíðkast á Vesturlöndum. Af hverju tala hagfræðingar ekki daglega um þetta dæmi og fleiri? Hvar eru fjölmiðlamenn? Á þetta fólk ekki að veita almenningi upplýsingar og veita stjórnmálamönnum aðhald?

Helgi (IP-tala skráð) 20.10.2012 kl. 07:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband