27.9.2012 | 09:55
Siðblindir útrásarvíkingar - siðlaust kerfi Seðlabankans
Ýmsir útrásarvíkingar, sem fengið hafa tugi eða hundruð milljarða króna afskrifaðar af skuldum sínum á unandförnum árum, eru nú farnir að flytja peninga til landsins úr "leynisjóðum" sínum, sem varðveittir hafa verið erlendis og þá væntanlega með þannig frágangi mála að kröfuhafar hafa ekki haft möguleika á að ná til þeirra.
Tvennt er algerlega óboðlegt við þessa þróun mála. Í fyrsta lagi er algerlega óþolandi að þessir fjármálasóðar, sem áttu sinn stóra þátt í bankahruninu sem aftur leiddi til þeirra efnahagserfiðleika sem þjóðin hefur þurft að glíma við frá árinu 2008, skuli nú vera að hasla sér völl að nýju í íslensku atvinnulífi með "földum" fjármunum sem komið var úr landi á árum áður og þannig haldið frá skuldauppgjörum þeirra eftir hrunið sem þeir ollu sjálfir. Það sýnir ekkert annað en siðblindu á hæsta stigi og að þessir menn kunna ekki að skammast sín, en ef lágmarkskunnátta á því svið væri fyrir hendi, létu þessir kappar lítið fyrir sér fara og reyndu að gera sitt til að bæta fyrir þann skaða sem þeir ollu og að lágmarki að láta alla handbæra peninga renna til að greiða upp eldri skuldir sínar og fyrirtækja sinna.
Í öðru lagi er það hreinlega siðlaust af seðlabankanum að styðja þessa "innrás" útrásarvíkinganna með því að selja þeim íslenskar krónur með 20% afslætti og auðvelda þeim þannig að flytja þetta "leynifjármagn" til landsins, sem síðan er notað til að kaupa að nýju þau félög sem fengið hafa hvað mestar afskriftir skulda og valdið þjóðinni erfiðum og sársaukafullum þjáningum.
Þetta er skýrt dæmi um siðlaust kerfi, sem auðveldar siðblindum fjárglæframönnum að stunda glórulaus viðskipti og komast þannig yfir gjaldþrota fyrirtæki á ný og það á "spottprís".
Fá afslátt eftir afskriftir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.