10.2.2012 | 12:47
Lífeyris"sjóðir" eða lífeyristryggingafélög?
Umræða um lífeyrissjóðina hefur verið mikil og fjörgug eftir hrun, ekki síst vegna margra furðulegra fjárfestinga þeirra á árunum þar á undan, jafnvel "víkjandi lán" til bankanna en nafnið eitt á þessum lánum og eðli þeirra hefði átt að hringja öllum viðvörunarbjöllum og hefðu reyndar átt að setja í gang brunavarnarkerfin sem hefðu átt að vera byrjuð að sprauta vatni á eldana sem löngu voru farnir að loga í fjármálakerfinu.
Ekki síður hefur umræðan magnast um að félagar lífeyrissjóðanna ættu að hafa rétt til að kjósa sína fulltrúa í stjórnir sjóðanna, en hvorki vinnuveitendur né verkalýðshreyfingin hafa tekið slíkt í mál fram að þessu. Þeir sem hafa mikil völd láta ógjarnan af þeim, jafnvel þó þeir geri stór og mikil mistök, játi þau jafnvel, en axla sjaldnast ábyrgð sína og hvað þá að þeir láti af þeim störfum sem þar sem þeir viðurkenna að hafa verið "afar skammsýnir" á sínum tíma.
Í almennri umræðu er oftast rætt um lífeyrissjóðina sem "eign" sjóðsfélaganna, en það eru þeir í raun og veru ekki þar sem þeir eru sameignarsjóðir og sumir fá miklu minna út úr þeim en þeir hafa greitt til þeirra og aðrir miklu meira. Allt fer það eftir langlífi og heilsufari inngreiðendanna og því eru félagarnir miklu frekar að kaupa sér ákveðin lifeyrisréttindi en að safna í sjóð. Slík söfnun á við um séreignarlífeyrissjóðina en ekki sameignarsjóðina.
Eftir sem áður er sjálfsagt að auka lýðræði í stjórnarkosningum sjóðanna og séreignarsjóðirnir ættu að vera algerlega í höndum sjóðfélaganna einna og aðilar vinnumarkaðarins ættu þar hvergi að koma nærri.
Vilja áfram eiga aðild að stjórn lífeyrissjóða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er ekki álitleg efri ár sem bíða þegar við sem unnið höfum alla ævina eigum í besta falli von á því að fá í raun um 11.000 krónum meira á mánuði fyrir það að hafa greitt alla tíð í lífeyrissjóði og mjög trúlega makar okkar ekki krónu meira, heldur að við hefðum öll sleppt því að greiða í þessa sjóði sem okkur hefur alltaf verið sagt að við eigum. Það sem meira er við erum skyldum með lögum að greiða í þessa svikamyllu.
Fólki finnst að búið sé að hafa það að fíflum og lái það hver sem vill. Reiði fólks minnkar ekki þegar varðhundar kerfisins, núverandi og fyrrverandi verkalýðsforkólfar, ásamt núverandi og fyrrverandi fulltrúum atvinnurekenda í sjóðunum kannast ekki við að neitt rangt hafi verið gert, eða illa farið með fjármuni.
Það er ekki vafi að það að spara sjálfur sambærilegar fjárhæðir á venjulegum reikningum, að ég tali nú ekki um verðtryggðum lífeyrisreikningum, hefði aftur á móti skapað þær aðstæður að eftir manni biðu digrir sjóðir til að njóta á "heldri" árunum.
Formaður Verkalýðsfélags Akraness (sem fær líka að heyra það hjá kollegum sínum) hefur verið duglegur að taka saman upplýsingar um þetta og fróðlegt er að skoða hans tölur, sem enginn hefur hvað þetta varðar náð að hrekja. En mörgum þótt sannleikurinn óþægilegur.
Víkjandi lán virðast hafa verið mun algengari en við höfum heyrt af. Nú síðast í sambandi við nauðasamninga fyrrum Sjóvá-Almennar hf. (SJ-eignarhaldsfélags) þá kemur í ljós að nokkrir lífeyrissjóðir veittu því félagi víkjandi lán. Maður spyr sig hvar voru eldvarnirnar ? Var enginn sem skipti um batterí í reykskynjurunum sem hefðu heldur betur átt að vera farnir að væla ?
Voru stjórnir, forstjórar, sjóðsstjórar og hvað þeir nú heita allir sem hver um sig hefur hátt í árslaunin okkar í mánaðarlaun að fá laun fyrir þessa snilld ?
Jón Óskarsson, 10.2.2012 kl. 17:59
Sæll.
Mikið til í þessu hjá þér.
Hefur einhverjum af stjórnendum lífeyrissjóðanna verið sparkað? Ég veit ekki til þess og sú staðreynd sýnir glögglega að lífeyrissjóðirnir eru fé án eigenda. Stjórnendur þeirra eru að sýsla með fé sem er ekki þeirra. Hvar er nú öll ábyrgðin sem þeir fengu borgað fyrir?
Lausnin á vandanum er tiltölulega einföld og hefur verið notuð í Chile í um 30 ár: Hver og einn greiðir inn á sinn eigin lífeyrisreikning ásamt sínum vinnuveitenda. Reikningurinn er hans eign og þá þarf enga stjórnendur til að sýsla með þetta fé. Þetta ætti líka að skapa samkeppni milli innlánsstofnana um vexti til að laða að allt þetta fjármagn. Rekstrarkostnaður við svona sjóði verður ekki nema lítið brot af því sem er með núverandi sjóði og sýna dæmin að þeim stjórnendum hafa verið mjög mislagðar hendur. Einnig má vel vera að erlendir aðilar hafi áhuga á að ávaxta þetta fé. Hver og einn ber ábyrgð á sér en ekki einhverjum öðrum.
Svo verður auðvitað að koma málum þannig fyrir að menn fái úr lífeyrissjóðum það sem þeir greiða í þá. Mér skilst að t.d. þingmenn og ráðherrar fái meiri lífeyri en sem nemur greiðslum þeirra. Menn eiga bara að fá það sem þeir hafa greitt inn + ávöxtun. Leiðrétti mig nú einhver ef ég fer með fleipur en ég held að þetta rugl kerfi sjái til þess að höfðingjar eins og Jón Baldvin og Svavar Gests svo nokkrir séu nefndir hækki í launum þegar þeir setjast í helgan stein. Stemmir það ekki? Hvaða vit er í þessu þegar sjóðirnir eru á hausnum? Unga fólkið í dag vill ekki borga fyrir þessa menn og á ekki að gera það. Það verður að skerða lífeyrisgreiðslur til opinberra starfsmanna líkt og gert hefur verið á hinum almenna markaði enda féð ekki til.
Helgi (IP-tala skráð) 11.2.2012 kl. 22:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.