28.3.2011 | 15:34
Matarskattur hækkaður til að borga Icesave?
Matarskatturinn svokallaði, þ.e. 7% þrepið í virðisaukaskattinum, er eini skatturinn sem fyrirfannst í kerfinu þegar núverandi ríkisstjórn komst til valda og ekki hefur verið hækkaður verulega. Þetta virðisaukaskattsþrep nær yfir nokkra aðra vöruflokka en matvöru, þrátt fyrir gælunafnið "Matarskattur", svo sem bækur, hljómdiska o.fl.
Hér á landi munu vera staddir fjórir fulltrúar frá AGS í þeim erindagjörðum að fara yfir hvaða skatta muni verða hægt að hækka á næstunni, enda þarf að gera ráð fyrir miklum skattahækkunum, til viðbótar við það skattahækkanabrjálæði sem þegar hefur verið bitnað á þjóðinni, til að standa undir væntanlegum útgjöldum vegna Icesave, verði þrælalögin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 9. apríl n.k., eins og ríkisstjórnin vonast til.
Ríkisstjórnin og aðrir áhugaaðilar um samþykkt þrælasamningsins um Icesave hafa þagað þunnu hljóði um það, hvernig og með hvaða skattahækkunum eigi að borga Bretum og Hollendingum, fari svo að skattgreiðendur samþykki að selja sig sjálfviljugir í slíka ánauð til næstu ára eða áratuga.
Það er jafnvíst og að dagur kemur á eftir nótt, að engan veginn verður hægt að standa undir Icesaveklafanum nema með gríðarlegum skattahækkunum, en mikill blekkingarleikur er stundaður til að fela þá staðreynd og reynt að telja fólki trú um að aukinn hagvöxtur einn saman muni greiða þetta, en að sjálfsögðu verður þá ríkissjóður að skattleggja þann hagvöxt til að afla tekna, enda eru engin útgjöld greidd úr ríkissjóði, nema aflað sé tekna fyrir þeim með skattheimtu.
Steingrímur J. heldur því fram að ekki sé von á "stórfelldum" skattabreytingum á næstunni, en ýmsar "lagfæringar" þurfi að gera.
Reynslan kennir að því minna sem Steingrímur J. gerir úr væntanlegu skattahækkanabrjálæði, því ofsafengnari verður framkvæmdin.
Ekki von á stórfelldum skattabreytingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hingað til hefur Steingrímur, að eigin sögn bara verið í kerfisbreytingum á skattkerfinu, ekki staðið fyrir stórfelldum skattahækkunum. En íslensk þjóð ætti að vita hversu langt hann teygir hugtakið ,,smávægilegar breytingar".
Kristinn Karl Brynjarsson, 28.3.2011 kl. 18:32
Auðvitað verður að hækka matarskattinn, það myndi enginn borga þetta sjálfviljugur. Allt óbeint, það finnst Steingrími snjallræði, klípa þetta af fólki hér og þar. Þess vegna segjum við hart nei. Það er prinsipmál að borga ekki heimatilbúnar ríkisábyrgðir þeirra Steingríms og Jóhönnu og það fyrir útrásarvíkingana, eða hvað þetta pakk heitir allt. Væri nær að láta þá borga þetta sjálfa, þeir stálu þessu jú?
Bergljót Gunnarsdóttir, 28.3.2011 kl. 20:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.