14.12.2010 | 15:08
Dýrar Bónusblekkingar
Endalaust er flett ofan af glæpastarfsemi í viðskiptum hér á landi og er nýjasta dæmið um svindl Haga á verðmerkingum kjötvara í verslunum Bónuss, Hagkaups og 10/11 í samstarfi við ýmsa kjötheildsala. Þegar upp komst um svindlið og rannsókn Samkeppniseftirlitsins hófst á því "gáfu kjötsalarnir sig fram" við eftirlitið í þeim tilgangi að bjóðast til að leysa frá skjóðunni, gegn vægari viðurlögum en ella hefðu orðið.
Þrátt fyrir samninga um umtalsverða lækkun á sektum munu fyrirtækin samt greiða 405 milljónir króna í sektir vegna brota sinna, en þetta eru Hagar vegna Bónuss, Hagkaups og 10/11, Kjarnafæði, Kjötbankinn, Kjötafurða-stöðvar KS, Norðlenska, Reykjagarður og Sláturfélag Suðurlands. Kjötbankinn greiddi að vísu enga sekt og telst því ekki með í sektarupphæðinni, þar sem hann er orðinn gjaldþrota og ekki náðist niðurstaða um samninga sektar vegna Síldar og fisks og Matfugls, þannig að endanleg niðurstaða um heildarsektina er ekki ljós.
Þegar tvö síðast nefndu fyrirtækin hafa fengið á sig sína sekt, má reikna með að heildargreiðslur fyrirtækjanna vegna lögbrota sinna verðu um hálfur milljarður króna, sem þó er verulega miklu lægri upphæð en sektirnar hefðu orðið ef fyrirtækin hefðu ekki iðrast gjörða sinna í sparnaðarskyni. Þetta sýnir einni hversu alvarlegum augum Samkeppniseftirlitið hefur litið þessa glæpastarfsemi og þann skaða sem Hagar f.h. Bónuss, Hagkaupa og 10/11 hafa valdið neytendum í gegnum tíðina.
Vonandi verða þær aðgerðir sem gripið verður til í framhaldinu til þess að losa það kverkatak sem Bónusgengið hefur haldið birgjum landsins í undanfarin tuttugu ár og eðlilegt samkeppnisástand fari að ríkja á smásölumarkaðinum hérlendis.
Sem betur fer hefur Bónusgengið misst eignarhaldið á verslunum sínum og það eitt og sér vekur vonir um heilbrigðari verslunarhætti eftirleiðis.
405 milljónir í sektir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.