18.10.2010 | 08:42
Asnaeyrnatog
Þegar náttúruhamfarir dynja á landinu, svo sem eldgos eða jarðskjálftar fer allt björgunarkerfi þjóðarinnar af stað til að bjarga og aðstoða þá sem fyrir hamförunum verða, en ekki er hugsað um hina, sem enga hjálp þurfa, enda falla þeir að sjálfsögðu ekki í flokk þeirra sem neyðaraðstoð nær yfir. Sama gildir um þá sem lenda í bifreiðaslysum, björgunarlið er sent á vettvang og jafnvel þó sá sem slysinu olli hafi verið í órétti fær hann neyðaraðstoð og flutning á sjúkrahús, þar sem honum er hjúkrað á sama hátt og hinum, sem fyrir slysinu varð og var í fullum rétti í umferðinni.
Annað virðist vera uppi á teningnum ef fólk lendir í fjárhagslegum slysum, hvort sem þau eru vegna sjálfskaparvítis eða annars, því t.d. Hagsmunasamtök heimilanna berjast harkalega fyrir því, að aðaláhersla verði lögð á að koma þeim til aðstoðar, sem hugsanlega gætu lent í ógöngum með sín skuldamál á næsta ári, eða því þarnæsta, en segjast hins vegar ekki vera að berjast fyrir því "að bjarga öllum", eins og þau orða það svo snyrtilega.
Hefði ekki þótt undarlegt þegar gosið varð í Eyjafjallajökli, ef þeir sem urðu þar fyrir skaða, hefðu verið látnir bíða, en áhersla lögð á að "bjarga" þeim sem hugsanlega gætu orðið fyrir tjóni ef Katla tæki upp á því að gjósa á næsta ári, eða því þarnæsta? Slíkt hefði örugglega þótt fáránlegur hugsunarháttur, en þó í ætt við hugsun HH, sem ekki berst fyrir því að bjarga þeim, sem eru í raunverulegri neyð nú þegar.
Hagsmunasamtök Heimilanna og ríkisstjórnin eru í einhverskonar asnaeyrnatogi fram og til baka, sem engan tilgang hefur og ekkert skilur eftir sig, annað en verk í eyrunum.
Á meðan að á asnaeyrnatoginu stendur bíða þeir sem fyrir skakkaföllum hafa orðið ennþá á slysstað og þrátt fyrir tveggja ára bið bólar ekkert á björgunarliðinu, hvort sem þeir sem um sárt eiga að binda voru í rétti eða órétti.
Engar ákvarðanir enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þegar Eyjafjallajökull gaus, þá vissi björgunarliðið hvar jökullinn var og hvaða fólk var í mestri hættu. Í þessum hamförum þorir enginn, eða þá nennir enginn, að kortleggja umfang vandans, til þess að átta sig á því, hverjum þarf að bjarga og þá hvernig skuli bera sig að því.
Kristinn Karl Brynjarsson, 18.10.2010 kl. 09:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.