29.8.2010 | 14:44
Hlutafjárfals hlýtur að teljast til markaðsmisnotkunar
Bjarni S. Ásgeirsson, skiptastjóri BGE, ætlar að fara í prófmál á hendur Jóni Ásgeiri og nokkrum samverkamönnum hans, vegna hlutafjárloforða upp á tugi milljóna króna, sem þeir skráðu sig fyrir í Baugi, en fengu lán fyrir hjá BGE með þeim skilmálum, að þeir sjálfir töldu, að þurfa aldrei að greiða skuldina og þegar Baugur færi á hausinn, stæði ekkert veð fyrir láninu, annað en hlutabréfin sjálf.
Þetta ætlar Bjarni að láta reyna á fyrir dómstólum og telur reyndar óvíst hvort málið vinnist, en ætlar að láta á það reyna og telur að málið muni enda fyrir hæstarétti. Það var orðin algild regla í bönkunum og fyrirtækjum útrásargengjanna, að ganga þannig frá málum, að eigendur og starfsmenn væru skrifaðir fyrir hlutafé í loftbólufyrirtækjunum og bönkunum sjálfum, svo milljörðum og tugmilljörðum skipti, alltaf gegn lánum sem engin veð voru sett fyrir önnur en hlutabréfin sjálf og t.d. starfsfólkið sannfært um að aldrei myndi lenda á því að greiða þessi lán.
Þetta getur ekki hafa verið gert nema í þeim eina tilgangi að falsa eigið fé viðkomandi fyrirtækja og þar með láta eignastöðuna líta betur út í bókhaldi, sem aftur hefur orðið til að blekkja almenna hlutabréfakaupendur á markaði, sem voru að kaupa hlutabréf, sérstaklega í bönkunum, og svo einnig í blekkingarskyni gagnvart viðskiptamönnum fyrirtækjanna.
Komist þessi banka- og útrásargengi upp með að skrifa sig fyrir tugmilljarða hlutafjárkaupum án þess að þurfa nokkurn tíma að standa við skuldbindingar sínar, hljóta þeir a.m.k. að verða dæmdir fyrir fals og markaðsmisnotkun, sem eru alvarlegir glæpir, ekki síst vegna fyrirtækja sem skráð eru á opinn hlutafjármarkað.
Almenningur er að verða langeygur eftir því að ákærur verði gefnar út í fyrstu málum banka- og útrásargengjanna og ekki bætir úr skák að farið er að birta drottningarviðtöl við höfuðpaurana í Baugsmiðlunum, þar sem þeim er gefinn kostur á að úthrópa rannsakendur glæpa þeirra og ásaka þá um ólöglegt athæfi í rannsóknum sínum.
Nú hlýtur að fara að koma að því að mulningsvél réttvísinnar fari að snúast á fullri ferð.
Prófmál gegn fimm hluthöfum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.