Nýju bankarnir yfirtóku "gengislánin" sem íslensk lán, með Seðlabankavöxtum

Við yfirtöku nýju bankanna á lánasöfnum gömlu bankanna var gert ráð fyrir að "gengislánin" væru ólögleg og því voru slík lán flutt til nýju bankanna eins og um óverðtryggð lán í íslenskum krónum væri að ræða og gert ráð fyrir að á þau yrðu reiknaðir þeir vextir sem Seðlabankinn ákvæði fyrir slík lán.

Þetta hefur Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagt opinberlega og gerði það reyndar fyrir meira en einum og hálfum mánuði síðan, en þó ótrúlegt sé, virðist enginn kveikja á þessu, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið minnt á þessi ummæli hans á þessu bloggi.  Fréttina um málið má sjá hérna

Í fréttinni er þetta haft orðrétt eftir Gylfa:  "En fjármálakerfið var ekki undir það búið að fyrir utan að gengistryggingin sem slík væri dæmd ólögmæt, þá væru lögin túlkuð þannig að hinir erlendu vextir skyldu standa á þessum lánum.

Eðlilegir innlendir vextir, sem eins og flestir vita eru talsvert hærri, væru þau kjör sem gert hefði verið ráð fyrir í þessu samhengi, þegar nýja bankakerfið var sett á fót. Sagði hann að það væri eitthvað sem ekki væri hægt að stinga höfðinu í sandinn vegna eða horfa framhjá."

Það er furðulegt að fylgjast með fréttaflutningi af því hvað Seðlabankinn vissi og vissi ekki fyrir einu og hálfu ári síðan, en engar fréttir af því hvað Gylfi, skilanefndirnar og samninganefndin ríkisins um yfirfærsluna vissu og reiknuðu með, þegar nýju bankarnir voru stofnaðir.

Svona getur fréttamatið verið einkennilegt hjá fjölmiðlunum.

 


mbl.is Seðlabanki birtir lögfræðiálit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þá er bara að halda áfram að benda á þetta.  Ég hef oft þurft að endurtaka sömu hlutina ítrekað og svo einn daginn, þá vaknar Þyrnirós.  Það segir einhvers staðar, að þegar lærisveinninn er tilbúinn, þá birtist meistarinn.  Annars staðar segir, að það sé ekki fyrr en við öðlumst þroskann sem skilningurinn komi.  Ég held að þetta hvorutveggja eigi við þennan málflutning þinn.

Annars varð Gylfi uppvís að hræðulegu mismæli eða lygum í kvöldfréttum.  Hann nefnilega sagði að þegar hann svaraði Ragnheiði Ríkarðsdóttur hafi hann haft það álit lögfræðinga ráðuneytisins að lánin væru lögleg, en í svari við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur í september sagði að ekkert slíkt álit hafi verið tekið saman í ráðuneytinu.  Hvort var það nú Gylfi?  Álit þarf ekki að vera skriflegt.

Svo má bæta því við, að Hagsmunasamtökum heimilanna barst það til eyrna í ágúst 2009 að til væri í viðskiptaráðuneytinu álit, þar sem fram kæmi að gengistryggingin væri ólögleg.  Líklegast var það þetta minnisblað SÍ.  Þetta var m.a. rætt á fundi með Eygló og fyrirspurn hennar kom í framhaldi af því.  Það kom okkur því mjög á óvart, þegar Gylfi neitaði tilvist álitsins.  Einnig hefur komið fram, að viðskiptaráðuneytið svaraði Gísla Tryggvasyni, talsmanni neytenda, um sama efni og viðurkenndi að til væri í ráðuneytinu vinnuskjal, en hægt er að skýla sér bak við trúnað varðandi slík skjöl.  Án þess að Gísli hafi nokkru sinni gefið upp innihald þess skjals, þá grunar mig að þar hafi minnisblað SÍ komið við sögu.

Marinó G. Njálsson, 9.8.2010 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband