Jón Ásgeir á engar eignir til að fela

Jón Ásgeir hafnar því algerlega í hverju viðtalinu eftir öðru við innlenda og erlenda fjölmiðla, að hann eigi nokkrar eignir, sem taki því að nefna og hvað þá fela og botnar ekkert í látunum í slitastjórn Glitnis við innheimtu skulda, sem hún telur hann vera að reyna að komast hjá að greiða.

Í viðtali við Viðskiptablaðið nýlega sagðist hinn auralausi Jón Ásgeir, að hann væri á fullum skriði við að gera upp sínar persónulegu skuldir og væri t.d. búinn að greiða upp allar skuldir sem hvíldu á skíðahöllinni hans í Frakklandi og íbúðunum í New York, en á þessum eignum hvíldu nokkrir milljarðar króna, sem honum tókst að öngla saman fyrir, þrátt fyrir blankheitin.  Einnig lét hann þess getið, að meira yrði greitt af þessum persónulegum skuldum, ef illmennin í Glitni létu sig í friði, enda ætlaði hann að stefna slitastjórnarmönnum persónulega fyrir dómstóla fyrir eineltið gegn sér.

Jón Ásgeir minntist hins vegar ekkert á að hann vildi reyna að borga upp eitthvað af skuldum fyrirtækja þeirra, sem hann hefur keyrt í gjaldþrot á undanförnum árum, enda þar um að ræða hundruð milljarða króna, sem honum virðist finnast sjálfsagt að þeir sem voru nógu vitlausir til að lána peninga í slíkan rekstur tækju sjálfir á sig skellinn af eigin heimsku. 

Arion banki mun sjá til þess að Bónusfeðgar fái áframhaldandi yfirráð yfir Högum, sem eiga t.d. Bónus, Hagkaup, 10-11 og fleiri verslanir og því mun ekkert væsa um feðgana í framtíðinni og þaðan mun Jón Ásgeir hafa nægar tekjur fyrir varnarkosntaði sínum fyrir dómstólum, ef að líkum lætur.  Í Baugsmálinu fyrsta greiddi félagið allan lögfræðikostnað fyrir feðgana og félaga þeirra, en óvíst er að þeir komist upp með að láta Haga greiða alla lögfræðingana næst.

Jón Ásgeir upplifir sig greinilega sem misskilinn og ofsóttan snilling, en huggar sig væntanlega við þau gömlu sannindi, að enginn sé spámaður í sínu föðurlandi.


mbl.is Segist ekki hafa falið eignir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Í Baugsmálinu fyrsta greiddi félagið allan lögfræðikostnað fyrir feðgana og félaga þeirra, en óvíst er að þeir komist upp með að láta Haga greiða alla lögfræðingana næst."

Það voru aðrir tímar og sá málarekstrarkostnaður var innlendur. Nú þarf að greiða í pundum og dollurum og og sökum nýlega hertra gjaldeyrishafta munu krónutekjur Haga duga skammt til greiðslu himinhárra fjárhæða erlendis. Það er byrjað að fjara undan manninum, öll viðbrögð hans upp á síðkastið bera vott um að hann er í nauðvörn .

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 4.8.2010 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband