Eiga íslenskir sparifjáreigendur að greiða Icesave?

NBI hf. (Nýji Landsbankinn) var látinn gefa út skuldabréf til gamla Landsbankans að upphæð 260 milljarða króna í erlendri mynt, með fyrsta gjalddaga eftir fimm ár, til að fela það, hvað ríkisstjórnin þóttist myndu þurfa að láta háa fjárhæð falla á íslenska skattgreiðendur vegna Icesave.

Með því að láta NBI borga þessa upphæð átti að láta líta svo út, að mun meira fengist upp í Icesaveskuld gamla bankans vegna þess hve mikið myndi innheimtast af útistandandi kröfum hans og þar með myndu Íslendingar ekki verða skattaþrælar Breta og Hollendinga eins lengi og annars hefði orðið.

Nú er hins vegar komið í ljós, að NBI muni eiga í verulegum erfiðleikum með að greiða af þessu skuldabréfi og því er gripið til þess ráðs að leggja fram frumvarp, sem gerir ráð fyrir því að skuldabréfið færist upp fyrir sparifjárinnistæður ef illa fer fyrir NBI hf., en hagnaður bankans myndi þurfa að nema a.m.k. 50 milljörðum árlega til þess að geta greitt bréfið niður á afborgunartímanum.

Svo mikill árlegur hagnaður til langs tíma er óraunhæfur og því er gripið til þess ráðs, að gulltryggja þetta skuldabréf gagnvart gamla bankanum, en setja hagsmuni sparifjáreigenda í annað sæti.

Jafnvel þó bankinn gæti skilað þessum hagnaði til að greiða af bréfinu, þá kemur sá hagnaður ekki frá neinum nema viðskiptavinum nýja Landsbankans og það munu þá verða þeir sem greiða niður Icesaveskuldina til viðbótar við skattaáþjánina, sem ríkisstjórnin ætlar að selja þá í.

Baráttan gegn erlendu fjárkúguninni er rétt að byrja.


mbl.is Skilanefnd tryggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það má segja sem svo að sá "hagnaður" bankans sem fer í afborganir af skuldabréfinu, sé í rauninni ávöxtun þess eigin fjár sem ríkið lagði í rekstur hins nýja banka. Þannig er það í rauninni óbeint ríkið sem er að borga af þessu. Einnig má nefna að þrátt fyrir yfirlýsingar um annað þá voru kaup Seðlabankans á Avens bréfunum í Luxembourg forsenda fyrir uppgjöri á útibúi Landsbankans sem þarlend yfirvöld gerðu upptækt, en eignir úr því munu líka renna upp í IceSave. Ég hef áætlað samanlagðan kostnað skattgreiðenda vegna Landsbankans þannig, að IceSave ríkisábyrgð undanskilinni:

  • 140 milljarða kaupverð ríkisins fyrir yfirtöku NBI hf. (eiginfjárframlag)
  • 260 milljarða skuldsetning NBI gagnvart skilanefnd (endanleg upphæð getur sveiflast frá 208-280 milljarða)
  • 70 milljarða lausnargjald fyrir pappíra í Luxembourg (sá hluti sem er í Evrum)
  • 80 milljarða veðlánatap Seðlabanka Íslands (repo viðskipti)
Samtals gera þetta um 550 milljarða króna úr vasa skattgreiðenda og athugið að það er fyrir utan hugsanlegan kostnað við ríkisábyrgð vegna IceSave, og þess að tekið sé tillit til vaxta og gengisáhættu. Dýr verður Landsbankinn allur!

Guðmundur Ásgeirsson, 4.6.2010 kl. 18:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband