Fjöldi dauðsfalla vegna COVID-19 í nokkrum Evrópuríkjum og USA

Í flestum fréttum af COVID-19 eru alltaf birtar upplýsingar um fjölda greindra smita og dauðsfalla af völdum veirunnar.  Þessar upplýsingar eru villandi vegna þess að þær eru alltaf sagðar af hverju og einu landi fyrir sig og t.d. alltaf tekið fram að hvergi hafi jafn margir sýkst og í Bandaríkjunum og þar hafi einnig mesti fjöldinn látist af völdum veirunnar.

Í Bandaríkjunum búa tæplega 331 milljón manna, en hvert land sem borið er saman við þau eru mun fámennari, þannig að samanburður milli einstakra landa og Bandaríkjanna er erfiður, jafnvel ómögulegur og að minnsta kosti algerlega óraunhæfur.

Ef tekin eru saman lönd í Evrópu, sem liggja hvert að öðru, og eru með svipaðan íbúafjölda samtals og er í Bandaríkjunum kemur sanngjarnari samanburður í ljós.  Í Belgíu, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Póllandi, Spáni, Sviss og Þýskalandi (löndunum raðað í stafrófsröð, en ekki eftir íbúafjölda) höfðu þann 16. maí s.l. alls 1.004.562 greinst með veiruna og þar höfðu 112.447 látist af völdum af hennar völdum.

Sama dag var fjöldi skráðra sem smitast höfðu í Bandaríkjunum 1.507.773 og fjöldi látinna þar af 90.113.  Vitað er að skránig sýktra getur verið misjöfn milli landa og sumir vilja halda því fram að fjöldi látinna af völdum COVID-19 sé mjög vanmetinn og á það bæði við um Evrópuríkin og Bandaríkin.

Eftir sem áður er afar athyglisvert að þrátt fyrir færri skráningar sýktra í Evrópu svo nemur hálfri milljón er fjöldi látinna í þessum löndum u.þ.b. 22 þúsundum fleiri en í Bandaríkjunum.

Bandaríkjamenn hafa verið sakaðir um að hafa verið óviðbúnir innrás veirunnar og brugðist seint og illa við í baráttu gegn henni.  Sama á auðvitað við um Evrópuríkin og miðað við samantektina hér að ofan verður að álykta að Evrópa hafi jafnvel brugðist enn ver við en Bandaríkin, en íbúafjöldi landanna villir um í öllum samanburði þegar Bandaríkin eru borin saman við eitt og eitt land í Evrópu, sem hvert fyrir sig er mun fámennara en þau.

Baráttan við veiruna var tekin föstum tökum frá upphafi á Íslandi og nú virðist orustan um fyrstu bylgu faraldursins vera að vinnast, enda engin smit fundist í nokkra daga.

Vonandi tekst að kveða þessa óværu niður beggja vegna Atlanshafsins sem allra fyrst og að næsta innrás hennar verði ekki jafn skæð, eða að takist betur upp í næsta stríði við hana.

 


Bloggfærslur 18. maí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband