Verkföll skipulögð vel og lengi

Sá sem hér slær á lyklaborð hefur haldið því fram frá því á haustdögum að til verkfalla yrði boðað með vorinu, hvað sem boðið yrði fram í kjaraviðræðunum enda væri búið að snúa áherslunni að stéttabaráttu og stjórnmálum.

Allan tímann sem kjaraviðræður hafa staðið yfir hefur formaður Eflingar sagt að félagið muni ekkert gefa eftir af kröfum sínum, hvorki gagnvart vinnuveitendum né ríkissjóði.  VR og verkalýðsfélög Akarness og Grindavíkur hafa látið teyma sig í gegnum viðræðurnar eins og hundar í bandi, þó allir viti að aldrei verður hægt að semja um 60-80% kauphækkun, jafnvel þó henni yrði dreift á þrjú ár.  Ekki getur ríkisstjórnin heldur látið Eflingu taka af sér og Alþingi löggjafarvaldið varðandi fjárlög ríkisins og landsstjórnina yfirleitt.

Formaður Eflingar var í viðræðum við fulltrúa atvinnurekenda í Kastljósi gærkvöldsins og lokaorð hennar þar sanna algerlega það sem haldið hefur verið fram, þ.e. að aldrei hafi staðið til að semja, heldur skyldi öllu stefnt í bál og brand í þjóðfélaginu með verkföllum.

Lokaorð formanns Eflingar í Kastljósinu voru eftirfarandi:  "Ef við vissum hversu miklu máli það skiptir fyrir stétt verka- og láglaunafólks að notfæra sér verkfallsvopnið, ekki aðeins til þess að ná fram sínum kröfum, heldur bara til þess að sýna sjálfum sér og samfélaginu öllu að við erum grunnurinn að því sem hér hefur verið byggt upp.  Við erum bara grunnurinn að því að þetta samféag geti lifað og starfað.  Þá værum við ekki á þessum absúrd stað í umræðunni."

Varla getur tilgangurinn með fyrirhuguðum verkföllum verið skýrari.


mbl.is Verkakonur í verkfall 8. mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband