21.1.2018 | 14:15
Borgarlína og einkabíllinn eiga samleið
Nokkur umræða hefur skapast um svokallaða borgarlínu, sem er í grunninn sérstakar akreinar fyrir strætisvagna, og þrátt fyrir að samkomulag virðist vera orðið milli allra sveitarfélaga á Stór-Reykjavíkursvæðinu um framkvæmdina eru ekki allir sannfærðir um ágæti málsins.
Fólk virðist aðallega skiptast í tvær fylkingar vegna borgarlínunnar, þ.e. annar hópurinn krefst aukinna framkvæmda til að greiða fyrir umferð einkabíla og eyða óþolandi umferðahnútum á álagstímum og hinn hópurinn vill helst fækka einkabílum og nánast skylda fólk til að nota almenningssamgöngurnar.
Báðir hópar tefla fram sterkum rökum fyrir sínum málstað, en alger óþarfi er að stilla þessum valkostum upp hverjum á móti öðrum, því eðlilegasta lausnin er að efla hvort tveggja, þ.e. að greiða fyrir umferð einkabíla og efla almenningssamgöngur um leið, m.a. með borgarlínunni.
Einkabíllinn mun gegna stærsta hlutverkinu í samgöngum Íslendinga, sem annarra, um margra áratuga framtíð og að berjast gegn þeirri þróun er mikil skammsýni og ber ekki vott um mikinn skilning á þörfum og vilja stórs hluta íbúa um samgöngumöguleika sína. Að sama skapi er lítil skynsemi í að berjast á móti þróun almenningssamganga, því að sjálfsögðu þarf að greiða fyrir hvoru tveggja.
Strætisvagnakerfið í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum er ótrúlega óaðlaðandi ferðamáti og má þar bæði nefna leiðakerfið, ferðatíðnina, biðstöðvarnar og að bílstjórarnir skuli ekki geta tekið við staðgreiðslu fargjalda og haft skiptimynt í vögnunum til að gefa til baka ef farþegar hafa ekki smámynt í vösunum sem dugar fyrir farinu.
Í öllum nálægum löndum er slík þjónusta í boði í strætisvögnum og þrátt fyrir miklu meiri notkun vagnanna gefa bílstjórar sér tíma til að afgreiða þá farþega sem þurfa að staðgreiða fargjöld og sums staðar gegna vagnarnir a.m.k. að hluta til einnig sem þjónustufarartæki fyrir þá fatlaða sem geta nýtt sér þjónustu almenningsvagna.
Byrja þarf á því að gera almenningssamgöngur meira aðlaðandi fyrir viðskiptavinina með bættu leiðakerfi, boðlegum biðstöðvum og þjónustu og á sama tíma verður að stórlaga gatnakerfið í Reykjavík og greiða þar með úr umferð einkabíla. Vitlausasta leiðin er að reyna að neyða fólk upp í strætisvagna sem alls ekki kæra sig um eða geta notað almenningssamgöngurnar.
Fólk á að geta valið um að nota einkabíl eða almenningssamgöngur. Bíleigendur munu stundum nota strætisvagna ef leiðakerfið verður aðgengilegt og þægilegt og ekki þurfi að vera í hættu á að frjósa í hel við bið eftir vögnunum.
![]() |
Segir grein Frosta rökleysu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)