8.5.2016 | 20:39
Að fortíð skal hyggja, er framtíð skal byggja
Undarlegt er að fylgjast með umræðunni á samfélagsmiðlunum í dag eftir að Davíð Oddsson tilkynnti framboð sitt til embættis forseta Íslands.
Ekki komu á óvart svigurmæli og skítkast þess hóps sem ausið hefur hann svívirðingum og rógi síðan löngu áður en hann hætti í stjórnmálum og hefur haldið því áfram sleitulaust til þess að reyna að endurskrifa stjórnmálasögu síðustu áratuga. Það níð er uppbyggt af hatri og öfund pólitískra andstæðinga vegna farsældar hans allan hans stjórnmálaferil, fyrst sem borgarstjóra og síðan sem forsætisráðherra.
Það sem kemur hins vegar á óvart er að sjá ummæli í þá veru að hann sé orðinn allt of gamall í embættið og ætti að setjast í helgan stein en standa ekki í vegi fyrir framagjörnu ungu fólki sem telji sig hæft til að gegna embættinu. Meira að segja er eftirfarandi haft eftir einum meðframbjóðanda Davíðs í mbl.is í dag: "Það skerpast enn línurnar um valið á milli fortíðar og framtíðar, segir Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi um þá ákvörðun Davíðs Oddssonar að bjóða sig fram til forseta Íslands."
Það er ótrúlega gamaldags hugsunarháttur að vilja afskrifa fólk sem ónothæft um leið og það kemst virkilega til vits og ára og heldur góðri líkamlegri og andlegri heilsu.
Nýlega var stofnuð deild innan félags eldri borgara sem nefnd er "Grái herinn" og eru hans helstu baráttumál að kraftar og vit eldri kynslóðarinnar verði virt að verðleikum og eldra fólkinu ekki vikið til hliðar og út af vinnumarkaði um leið og það nær 67 ára aldri.
Það er auðvitað ekkert annað en hroki þegar unga fólkið reynir að gera lítið úr þeim sem eldri, reyndari og vitrari eru.
![]() |
Í þessu embætti eru menn einir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)