20.5.2016 | 17:20
ASÍ vill veiðigjöld í stað hærri launa til félagsmanna sinna
Það er svolítið skondið að horfa endalaust upp á stöðnun og hugmyndaleysi ASÍ og aðildarfélaga sambandsins þegar kemur að baráttunni fyrir bættum kjörum félagsmanna stéttarfélaganna.
Áratugum saman eru sömu kröfurnar uppi á borðum og nánast má ekki nefna að kröfur um launagreiðslur taki mið af þeim mikla arði sem ýmsar atvinnugreinar skila hluthöfum. Ekki virðist mega nefna mismunandi laun eftir atvinnugreinum, heldur skal tímakaup vera nánast það sama hvort starfað sé í ferðaþjónustunni, verslunum eða í sjávarútvegi.
Undanfarin ár hafa allar þessar greinar skilað miklum hagnaði og í stað þess að starfsmennirnir njóti hluta þessa arðs krefst ASÍ þess að alls kyns skattar og gjöld, þ.m.t. veiðigjöld verði hækkuð og allt saman látið renna í ríkissjóð.
Einhver hefði getað látið sér detta í hug að stéttarfélögin legðu frekar til að hluti arðsins rynni til starfsmanna fyrirtækjanna, enda verður hann ekki til með hlutafénu einu saman og yrði raunar enginn nema fyrir samspil fjármagsins og vinnuframlagsins.
Sjávarútvegurinn gæti greitt miklu hærri laun en hann gerir núna en aldrei virðast vera gerðar meiri kröfur til launagreiðsla í kalsamri fiskvinnu en til vinnu í iðnaði sem oft á tíðum býr við betri aðbúnað en ýmsir starfsmenn fiskvinnslunnar.
Einnig hefur ASÍ barist hart gegn bónusgreiðslum til stjóranna í hinum og þessum fyrirtækjum í stað þess að krefjast þess að séu greiddir út bónusar og arður í fyrirtækjum, þá gangi slíkar greiðslur til allra starfsmanna burtséð frá launum en miðist við vinnutíma hvers starfsmanns á því árinu sem greiðslurnar taka til.
Það eru aðrir tímar núna en voru í árdaga stéttarfélaganna og kröfur til handa launafólki eiga að taka mið af nútímanum en ekki fortíðinni.
![]() |
Vilja auðlegðarskattinn aftur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)