Fær Sigmundur uppreist æru?

Engum dylst að aðförin að Sigmundi Davíð, fyrrverandi forsætisráðherra, vegna Wintrisfélagsins var vandlega skipulögð með því að sjónvarpa sérstökum Kastljóssþætti á sunnudegi, daginn áður en boðað hafði verið til mótmælafundar á Austurvelli.

Nú, nokkrum vikum síðar, hefur Sigmundur Davíð birt upplýsingar um skattgreiðslur þeirra hjóna síðan fyrir bankahrun og kemur þar fram að allar tekjur og eignir hafa verið taldar fram allan tímann og skattar greiddir samviskusamlega frá upphafi.

Fréttastofa ríkisútvarpsins heldur hins vegar áfram að rugla málið með því t.d. að segja að þau hjónin hafi greitt auðlegðarskatt ÞANGAÐ TIL RÍKISSTJÓRN SIGMUNDAR HAFI FELLT HANN NIÐUR, eins og orðalagið var í fréttatíma kvöldsins.  Þar með var gefið í skin að Sigmundur hefði verið að hygla sjálfum sér og eiginkonu sinni með niðurfellingu skattsins, þegar staðreyndin er sú að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir lagði auðlegðarskattinn á tímabundið og rann hann sjálfkrafa sitt skeið samkvæmt lögum hennar ríkisstjórnar.

Einnig birti fréttastofan viðtal við einhvern skattaspeking sem sagði að Sigmundur hefði í yfirlýsingu sinni um skattamálin misskilið hvernig að framtalinu skyldi staðið og það þrátt fyrir að enduskoðunarskrifstofan KPMG hafi allan tímann séð um þau mál og varla að finna víða meiri þekkingu á skattamálum en þar innandyra.  Reyndar var vitnað á eftir viðtalinu við sérfræðinginn í skriflegt svar Ríkisskattstjóra, sem staðfesti að framtölin hefðu uppfyllt öll skilyrði um framtöl vegna erlendra eigna og tekna.

Hefði Sigmundur Davíð birt þessar upplýsingar strax í mars, eftir að hann var blekktur í viðtal við sænska sjónvarpsmenn vegna félagsins, og áður en sunnudagskastljósið var sýnt er ákaflega líklegt að lítil sem engin umræða hefði orðið um félag þeirra hjóna og viðbrögðin frekar orðið eins og í Bretlandi eftir að Cameron, forsætisráðherra landsins, birti sín gögn varðandi aðkomu að aflandsfélagi og þar með virðist umræða þar um algerlega þögnuð.

Sigmundur Davíð getur því nagað sig í handarbökin vegna eigin klaufaskapar og rangra viðbragða við óheiðarlegri fyrirsát og hernaði RÚV og samverkamanna gegn honum.


mbl.is Hátt í 400 milljónir í skatta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband