Er Árni Páll fær um að fara að eigin ráðum?

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur nú boðað að hann ætli að skipa sér í hóp hinna fjögurra flokksfélaganna sem berjast munu um formannsembættið seinnihluta maímánaðar.  Í síðustu formannskosningu sigraði Árni Páll með eins atkvæðis mun, þ.e. eingöngu með sínu eigin atkvæði og verður spennandi að sjá hve stórt hvert hinna fimm flokksbrota verður að kosningunum loknum.

Árni Páll hefur farið í fylkingarbrjósti þeirra þingmanna sem lengst hafa gengið undanfarið í rógi og svívirðingum um félaga sína á þingi og stundað málþóf um ekki neitt í stað þess að ræða þau málefni sem fyrir þinginu liggja og þurfa afgreiðslu við, þjóðfélaginu til heilla og framfara.

Ekki er langt síðan að Árni Páll sendi samflokksfólki sínu afsökunarbréf vegna lélegs gengis Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum og algjöru vantrausti yfir 90% þjóðarinnar á störfum hans sjálfs og flokksins.

Í bréfinu sagði Árni Páll m.a:  "Við höfum nefnilega sem hreyfing og samfélag ítrekað misst af tækifærinu til að axla sameiginlega ábyrgð á mistökum, en frekar kosið að fórna einstaklingum til að koma öðrum í skjól. Ingibjörg Sólrún baðst afsökunar á sínum hlut. Sú afsökunarbeiðni átti að vera okkur fagnaðarefni og tækifæri til að auðvelda flokknum að takast á við mistök í þeirri ríkisstjórn. Í staðinn var sú afsökunarbeiðni nýtt sem syndakvittun fyrir aðra. Flokkurinn tók ekki félagslega ábyrgð á prófkjörum sem hann hafði efnt til, heldur fórnaði Steinunni Valdísi einni. Framgangan í Landsdómsmálinu og fórn Steinunnar Valdísar hafa skilið eftir djúp sár um alla okkar hreyfingu og sáð fræjum efasemda um að við séum samhent sveit sem axli saman félagslega ábyrgð á mistökum sem við gerum saman. Ég hef oft sagt að Samfylkingin þurfi sjálf að vera gott samfélag, ef hún ætlar að breyta samfélaginu til góðs. Það er alveg nóg af upphrópunum, yfirgangi og afarkostum í daglegri umræðu í samfélaginu í dag og við eigum ekki að tileinka okkur þá samskiptahætti. Við þurfum að breyta því hvernig við tölum hvert við annað. Við þurfum að tala betur hvert um annað, verja hvert annað og sýna að við séum gott og eftirsóknarvert samfélag. Ef sótt er að forystufólki í flokki og enginn kemur því til varnar, upplifir þjóðin það sem skilaboð um sundurlausan flokk sem ekki sé treystandi."

Fram til þessa hefur Árni Páll ekki getað farið sjálfur eftir heilræðum sínum og áskorunum um almenna mannasiði í samskiptum við annað fólk.  Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort hann nái að temja sér að fara að eigin ráðum á næstunni.

Hér með skal efasemdum lýst um að honum muni takast það.


mbl.is Árni Páll gefur áfram kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband