3.9.2015 | 14:46
Eftir hverju er beðið ef ekkert er að vanbúnaði?
Velferðar- Allherjar- og Menntamálanefnd Alþingis héldu sameiginlegan fund um hvernig Ísland væri í stakk búið til að taka á móti innflytjendum vegna flóttamannavandans sem ástandið í Sýrlandi og víðar hefur skapað.
Sameiginleg niðurstaða nefndanna var að Ísland væri vel í stakk búið til að taka við flóttafólki og nokkur sveitarfélög hefðu lýst yfir vilja til að taka þátt í lausn málsins. Áður hefur komið fram í fréttum að sveitarfélög vilji að ríkissjóður greiði kostnað vegna flóttamannanna mun lengur en gert hefur verið fram að þessu, en síðast þegar flóttafólk kom í skipulögðum hópi til landsins greiddi ríkið viðkomandi sveitarfélagi kostnaðinn í eitt og hálft ár.
Svolítið finnst manni hjálparhöndin vera máttleysislega fram rétt ef skilyrði fylgir um að tryggt verði að lítill sem enginn kostnaður falli á viðkomandi sveitarfélög fyrir hjálpsemina. Flóttamannavandamálið er komið á það stig að ekki gefst mikill tími til fundarhalda í nefndum Alþingis, ráðherravinnuhópum eða sveitarstjórnum um skiptingu kostnaðarins ef taka á þátt í að leysa málin fyrir tiltölulega fáar flóttamenn af öllum þeim aragrúa sem aðstoð þarf að fá strax.
ESB stendur sig alveg hörmulega í þessu máli öllu og á meðan Evrópulöndin þrasa sín á milli um hver eigi að gera hvað, versnar ástandið stöðugt og flóttamannastraumurinn heldur áfram inn í Evrópu og svo virðist sem ríkisstjórnir ESB-landanna vilji helst hrekja flóttafólkið til baka eða a.m.k. ekki taka við nema ákaflega takmörkuðum fjölda þess inn í sín lönd.
Svo er sinnu- og mannúðarleysi þeirra Arabalanda sem ekki vita aura sinna tal ótrúlegt, en ekki er vitað til þess að þau hafi rétt svo mikið sem litlafingur til aðstoðar nágrönnum sínum í þessu hörmungarástandi. Má þar t.d. benda á Saudi-Arabíu, Katar, Bahrein o.fl.
![]() |
Vel í stakk búin fyrir flóttafólk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)