Þarf ekki þak á Píratahúmorinn?

Birgitta Jónsdóttir, Píratasjóliðsforingi, segist ætla að flytja tillögu á Alþingi í haust um að sett verði þak á öll lán, þ.e. hve mikið þau megi hækka á lánstímanum vegna verðbóta og vaxta, en er þó ekki búin að "hanna" þakhæðina endanlega og segist ætla að setja sérfræðinga í málið til þess að koma einhverju viti í tillöguna.

Pírataforinginn hefði átt að tala við sérfræðingana áður en hún varpaði fram þessari undarlegu tillögu, því þeir hefðu kannski getað velt upp við hana þeirri spurningu hvort hún ætlaði þá líka að flytja frumvarp til laga um hámarkshækkun þeirra eigna sem veðsettar eru fyrir "þaklánunum", því í verðbólgu hafa t.d. fasteignir tilhneigingu til þess að hækka álíka mikið og lánin sem á þeim hvíla.

Á líftíma langtímalána hafa stéttarfélög margsinnis krafist og náð fram launahækkunum fyrir hönd sinna félagsmanna og þegar til langs tíma hefur verið litið hafa launin jafnvel hækkað meira hlutfallslega en verðtryggðu lánin sem launþegarnir hafa verið að greiða niður.

Sérfræðingum Pírataleiðtogans hefði jafnvel getað dottið í hug að koma því á framfæri að líklega væri einfaldara að bera fram frumvarp til laga um afnám verðtryggingar lána og heimila einungis óverðtryggð lán eftirleiðis, en óvíst er að "þak" á slík lán stæðist eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar eða alþjóðlega mannréttindasáttmála.  Að minnsta kosti er ekki ólíklegt að sérfræðingarnir myndu benda á að frelsi varðandi fjármagnsflutninga milli landa gæti þvælst talsvert fyrir slíkri lagasetningu.

Jafnvel er líklegt að sérfræðingar Pírataflokksforingjans hefðu bent á þá staðreynd að langbest væri að beita sér fyrir því að framvegis myndu þingmenn, ráðherrar og aðrir sem að máli koma, berjast gegn verðbólgunni með öllum ráðum og koma á meiri stöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar en verið hefur lengstum frá lýðveldisstofnun.

Ynnist baráttan við verðbólguna þyrfti ekki að eyða tíma í allskonar óraunhæfar þakbyggingar.

 

 


mbl.is Vill þak á hækkun lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband