13.7.2015 | 21:05
Er vagga lýðræðisins orðin að sjúkrarúmi á líknardeild?
Grikkland er skokkið í skuldafen vegna óstjórnar ríkisfjármála í áratugi ásamt því að ríkissjóðurinn hefur verið knúinn af fjármálaöflum Evrópu til að ábyrgjast gríðarlegar bankaskuldir og því er nú svo komið að landið er gjaldþrota og á sér ekki viðreisnar von fjárhagslega næstu áratugina.
Að sjálfsögðu ber þeim sem taka lán skylda til að borga þau til baka og eru ekki í stöðu til að krefjast þess að aðrir borgi þau fyrir þá. Fyrirtæki og einstaklingar sem ekki geta staðið við skuldbindingar sínar eru oftast úrskurðaðir formlega gjaldþrota og þá neyðast lánadrottnar í flestum tilfellum til að afskrifa kröfur sínar og skuldarinn á þá möguleika á að komast á fæturna á ný og verða aftur fjárhagslega sjálbjarga.
Þetta á ekki við um ríkissjóði, því meðan einhverjum þegnum er til að dreifa í viðkomandi þjóðfélagi eru þeir ábyrgir fyrir skuldum ríkisins og geta nánast ekki með nokkru móti komist undan því að greiða þær skuldir sem stjórnmálamenn þeirra hafa steypt landinu í.
Þrátt fyrir að gríska ríkið sé í raun gjaldþrota ganga Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, evrópski seðlabankinn, ESB (ríkissjóðir ESBlandanna) o.fl. lánadrottnar fram af fullri hörku við innheimtu lána sinna. Grikkland er svo illa statt fjárhagslega að ekki er hægt að greiða ríkisstarfsmönnum sín lækkuðu laun, lífeyrisþegar fá ekki greidd sín skertu ellilaun, atvinnulausir fá ekki greiddar sínar bætur sem bæði eru mun lægri en áður og greiddar í miklu skemmri tíma en áður var.
Í raun er nánast alger peningaskortur orðinn í landinu og algjöru efnahagshruni verður ekki forðað nema með háum viðbótarlánum. Allir sem vilja sjá, sjá að algerum hörmungum í Grikklandi verður varla forðað nema í tiltölulega skamman tíma og ástandið mun örugglega verða ennþá verra en það þó er núna þegar þar að kemur.
Grikkjum hafa nú verið settir skilmálar, sem í reynd eru einfaldlega uppgjafarskilmálar, fyrir nýjum lánum sem raunverulega afnema lýðræðið í Grikklandi enda þurfa þeir að undirgangast þá kvöð að bera fyrirframallar fyrirhugaðar lagasetningar sem varða fjármál undir lánadrottna sína til samþykktar áður en slík frumvörp eru kynnt og lögð fyrir gríska þingið og til viðbótar þurfa þeir að veðsetja ríkiseignir fyrir gríðarlega háar upphæðir til lánadrottna sinna.
Með þessu er sjálfstæði Grikklands og fullveldi ekki lengur annað en nafnið tómt og landinu í raun stjórnað af ESB í nafni lánadrottna landsins. Hingað til hefur verið sagt að vagga lýðræðisins hafi verið í Grikklandi. Sú vagga er nú orðin að sjúkrarúmi og óvíst um afdrif sjúklingsins sem þar liggur.
![]() |
Uppgjöf eða nauðsyn? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)