12.7.2015 | 19:40
Ef ekki Landsbanka á lóðina, þá hvað?
Heilmikið fjaðrafok hefur orðið á samfélagsmiðlunum vegna fyrirhugaðrar byggingar Landsbankans á húsi undir starfsemi sína á lóð við höfnina í nágrenni Hörpu.
Sumir bera því við að það sé bruðl af hálfu bankans að byggja nýjar höfuðstöðvar á einni af dýrustu lóðum landsins og réttara væri að hagnaði bankans væri varið til annarra þarfa, t.d. til að byggja nýjan Landspítala.
Aðrir, t.d. hínn ágæti þingmaður Guðlaugur Þór Þórðarson,segja að lóðina ætti að nota undir einhverja starfsemi sem veitti meira lífi í miðbæinn, sérstaklega á kvöldin enda loki bankinn klukkan sextán á daginn.
Ef hugsað er um hvaða starfsemi það gæti verið sem héldi uppi lífi og fjöri fyrir utan Hörpu á kvöldin, þá koma aðallega upp í hugann barir, danshús, bíó og aðrir slíkir staðir sem aðallega hafa opið á kvöldin og fram á nóttina. Lúxushótel á að byggja á næstu lóð við hliðina á bankalóðinni og verslunar- og íbúðahús eru einnig fyrirhuguð á reitnum.
Þarna mun sem sagt verða um að ræða dýrasta íbúðar- og verslunarsvæði landsins og megi ekki reisa höfuðstöðvar eina ríkisbankans á þessum slóðum verða menn að svara því hvaða starfsemi væri æskilegri á þennan stað, því algerlega útilokað er að nokkurt bíó, bjórstofa, ballhús og hvað þá kaffihús muni opna á öllum þrem eða fjórum hæðum fyrirhugað húss á þessum stað.
Bankinn er nú með starfsemi á a.m.k. tuttugu stöðum í miðbænum og hlýtur að geta selt margt af því húsnæði fyrir milljarða og annarsstaðar sparast húsaleiga, enda áætlar bankinn að spara sjöhundruð milljónir króna árlega með sameiningu starfseminnar á einn stað. Slíkur sparnaður ætti að þykja eftirsóknarverður í hvaða rekstri sem er.
Sá sem þetta skrifar er ekki móðgunargjarn og tekur þessar ágætu hugmyndir Landsbankamanna ekkert illa upp sem viðskiptavinur hans til áratuga, þó sumt viðkvæmara fólk virðist taka hugmyndinni sem persónulega móðgun.
![]() |
Móðgun við viðskiptavini bankans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)