2.4.2015 | 15:12
Hætta að tala og byrja að framkvæma
Fyrir svo mörgum árum að elstu menn muna ekki lengur hvað mörg þau eru fóru fram ýmsar úttektir og rannsóknir á heppilegasta stað fyrir nýbyggingu þjóðarsjúkrahúss og leiddu þær allar til þeirrar niðurstöðu að nágrenni núverandi Landspítala væri heppilegasti staðurinn til fyrir nýtt og fullkomið sjúkrahús.
Öll hönnun nauðsynlegra bygginga hefur verið miðuð við þetta staðarval og milljörðum króna hefur þegar verið varið í undirbúning framkvæmdanna. Þrátt fyrir að skiptar skoðanir hafi verið um staðarvalið alla tíð, þótti þessi staðsetning heppilegust og hafa deilur um staðarvalið að mestu þagnað og samstaða ríkt um að ráðist yrði í framkvæmdirnar um leið og ríkissjóður hefði efni á að leggja fram nægt fjármagn.
Alltaf eru þó einhverjir sem þráast við og reyna að tefja byggingaframkvæmdirnar með því að efna til ófriðar um staðarval hins nýja sjúkrahúss og t.d. dúkkaði einn sjúkrahúslæknirinn upp í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum og fann málinu allt til foráttu og vildi að hætt yrði við núverandi áform og að frekar yrði byggt upp nýtt þjóðarsjúkrahús í Garðabænum og þannig kastað á glæ öllum þeim milljörðum sem þegar hefur verið varið til undirbúnings og hönnunar.
Nú bætir forsætisráðherra um betur og stingur upp á því að útvarpshúsinu við Efstaleyti verði rutt úr vegi og nýja sjúkrahúsið reist á rústum þess, ásamt því að nýta lóð hússins með neðanjarðartengingu við gamla Fossvogsspítalann. Þessi hugmynd er svo frumleg og nýstárleg að enginn hafði haft hugmyndaflug til þess að láta sér detta þetta í hug áður.
Ósjálfrátt tekur fólk mark á því sem frá forsætisráðherra kemur, en varla verður því trúað að maðurinn hafi verið að meina það í alvöru að tímbært væri að hringla með staðarvalið efir allt sem á undan er gengið í þeim málum, enda hugmyndin sett fram 1. apríl og því ótrúlegt annað en að um grín hafi verið að ræða.
Nú er komið að tíma framkvæmda við sjúkrahúsið í Vatnsmýrinni og tími staðarvalshugleiðinga löngu liðinn.
![]() |
Ástand Landspítalans er öryggisógn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)