Þingmenn sýni þjóðinni þá virðingu að hætta fíflagangi í þingsal

Það er ótrúlegt að fylgjast með því hvernig þingmenn á Alþingi óvirða þjóðina sem kaus þá til þingsetunnar og þingið sjálft með fíflagangi og þvargi þingfund eftir þingfund, undir liðnum "Störf þingsins".

Oftast virðast þetta vera sömu þingmennirnir sem stunda þennan ljóta og ómerkilega leik til að tefja og trufla eðlileg þingstörf og getur varla nokkuð annað en athyglissýki ráðið för, nema um sé að ræða hreina skemmdarfýsn og tilraun til að skaða sjálft lýðræðið í landinu.

Málþóf er hægt að fyrirgefa í einstaka undantekningartilfellum þegar stór deilumál eru til umfjöllunar í þinginu, en að stunda svona vinnubrögð dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, er algerlega siðlaust og þeim sem þau ástunda til skammar sama hvaða stjórnmálaflokki viðkomandi tilheyrir.

Eina vörn þeirra þingmanna sem skömm hafa á þessum vinnubrögðum er að yfirgefa þingsalinn á meðan á vitleysunni stendur og sýna smámennunum í þingmannahópnum með því fyrirlitningu og koma þeim á þann hátt í skilning um að slíkt háttarlag verði ekki þolað lengur.

Þjóðin á skilið að þingmenn sýni henni lágmarksvirðingu í þakkarskyni fyrir atkvæðin.


mbl.is „Er hann að éta köku“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. október 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband