27.1.2014 | 20:22
Banna þetta og banna hitt, vegna þess að fólk er fífl
Nefnd forsætisráðherra um afnám verðtryggingar virðist hafa komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar séu fífl upp til hópa og hafi ekki gripsvit á fjármálum fyrst þeir hafi komið sér upp húsnæði á undanförnum áratugum með því að taka til þess verðtryggð lán.
Langtímalán án verðtryggingar, hvorki til húsnæðiskaupa eða annars, hafa varla verið í boði síðastliðin þrjátíuogfimm ár og ef draga ætti ályktanir af niðurstöðu nefndarinnar og margra annarra, sem tjáð hafa sig um málið, ætti hver einasti maður sem húsnæðislán hefur tekið á þessum tíma að vera gjaldþrota og búa á götunni eða í tjöldum einhversstaðar.
Staðreyndin er auðvitað allt önnur og flestir sem tóku verðtryggð húsnæðislán á upphafsárum þeirra eru löngu búnir að greiða þau upp og eiga nú íbúðarhúsnæði sitt skuldlaust, eins og t.d. upplýsingar frá skattstjóra hafa sýnt þegar veittar eru upplýsingar um eignir og skuldir landsmanna.
Nú orðið er farið að bjóða upp á óverðtryggð íbúðalán og ef marka má fréttir hefur eftirspurn eftir þeim minnkað, vegna þess að greiðslubyrði verðtryggðu lánanna eru lærgi í upphafi lánstímans og afborganir jafnari allan lánstímann.
Nefndin nefnir fjörutíuára jafngreiðslulánin "eitraðan kokkteil" vegna þess að á lánstímanum greiðir skuldarinn mun meira til baka en sá sem tekur tuttuguogfimm ára lán. Þetta hefur auðvitað verið viðtað frá því að byrjað var að veita þessi lengri lán og var mikið um þau ritað og rætt á sínum tíma, en flestir húsnæðiskaupendur valið þau þrátt fyrir þá vitneskju.
Nú er lagt til að lengstu lánin verði bönnuð og mismunun tekin upp varðandi vaxtabætur eftir lánsformum húsnæðislána. Varla mun slík mismunun standast mannréttindaákvæði stjórnarskrár, enda gjörsamlega galið að gera tillögu og þannig framkomu við landsmenn.
Það er merkilegur hugsunarháttur að hafa ekkert merkilegra fram að færa í tillögugerð um húsnæðislán en að allir skuli taka nákvæmlega eins lán til ákveðins lánstíma og sæta mismunun við álagningu opinberra gjalda ella.
Þrátt fyrir að nefndin virðist álíta að fólk sé almennt ekki með fullu viti er alveg óhætt að mótmæla því og leyfa sér að fara fram á að lántakendur fái sjálfir að ákveða hvaða lánsform þeir kjósi sér og eins verði lánstíminn samningsatriði milli lánveitanda og lántakanda.
Versta niðurstaða málsins yrði EITT RÍKISLÁN fyrir alla, eins og fræg persóna Ladda myndi segja.
![]() |
Hægt að afnema verðtrygginguna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)